fbpx
Fimmtudagur 21.nóvember 2024
EyjanFastir pennar

Svarthöfði skrifar: Mjúk lending að hætti AGS – vaxtalækkun eftir ár, kannski

Svarthöfði
Þriðjudaginn 16. júlí 2024 15:00

Myndin er samsett

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þegar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn talar hlustar Svarthöfði. Nú hefur AGS kveðið upp sinn dóm á efnahagsástandinu hér á landi eftir úttekt sem fram fór í maí á þessu ári. Niðurstaðan er skýr. Allt er hér á réttri leið, fjármálastjórn ríkisstjórnarinnar tekur öllu öðru fram sem fyrirfinnst á þessari jörð, nema ef vera skyldi peningastjórn Seðlabankans. Hæfilegt aðhald er í ríkisfjármálunum. Svarthöfði er þess fullviss að varðandi aðhald í ríkisfjármálum hefur AGS ekki síst í huga flutning utanríkisráðuneytisins í stuðlabergshöll Landsbankans við Hafnartorg – húsnæði sem kostar ekki nema sjö milljarða tilbúið undir tréverk – gjöf en ekki gjald. Þetta er sýnikennsla í aðhaldi.

Svarthöfði minnir á að þetta er ekki skoðun einhverra aukvisa heldur stofnunarinnar sem stýrði efnahagsmálum, hagstjórn og peningamálum hér á landi í rúm fjögur ár eftir hrunið og tókst með harðfylgi og dyggu liðsinni ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur að byggja á mettíma upp að nýju bankakerfi sem skilar methagnaði og halda fórnarkostnaðinum í algeru lágmarki – fjölskyldurnar sem lentu á götunni hefðu svo hæglega getað orðið svo miklu fleiri en 10 þúsund.

AGS sér þó vissar blikur á lofti. Meðal áhættuþátta er að ríkisútgjöld geta aukist á kosningavetri og þó að það sé ekki nefnt sérstaklega les Svarthöfði milli línanna að sérstakt áhyggjuefni sé að framsóknarmaður sitji í fjármálaráðuneytinu einmitt á kosningavetri, ekki síst þegar flokkurinn er með sögulega lítið fylgi.

Við lestur skýrslu AGS læðist samt sú hugsun að Svarthöfða að mikil endurnýjun hafi orðið í sérfræðingahópi sjóðsins sem fjallar um Ísland. Þá vekur athygli að svo virðist sem viðmælendur við gerð úttektarinnar hér á landi komi eingöngu úr hópi ráðherra ríkisstjórnarinnar, auk þess sem rætt er við seðlabankastjóra. En sennilega eru áhyggjur Svarthöfða af því að svo einhæfur viðmælendahópur kunni að lita niðurstöður skýrslunnar með öllu óþarfar.

AGS er gríðarlega ánægður með íslenska bankakerfið, sem sé vel fjármagnað, mjög arðbært og lausafjárstaðan með besta móti. Þá sé vinnumarkaðurinn stöðugur og launahækkanir hóflegri en áður. Svarthöfði heggur hins vegar eftir því að eðlilega er ekki fjallað um fjöldauppsagnir og gjaldþrot fyrirtækja sem orðið hafa eftir að úttektin fór fram, sem geta bent til þess að atvinnustigið kunni að raskast á komandi kosningavetri.

Þá er ekki tekið tillit til þess að í sumar hefur komið fram að vanskil eru farin að aukast í bankakerfinu. Svarthöfði hefur líka vissar áhyggjur af því að AGS spáir því að verðbólgan fari ekki niður fyrir fjögur prósent, sem eru efri verðbólguviðmið Seðlabankans, fyrr en einhvern tímann á næsta ári. Áhyggjurnar stafa af því að AGS mælir með því að þegar verðbólgan verður komin niður fyrir fjögur prósent skuli Seðlabankinn byrja að lækka vexti, ekki fyrr. Hætt er við að hart geti orðið í ári hjá smáfuglunum áður en yfir lýkur ef bíða þarf kannski í heilt ár eftir vaxtalækkun.

Þegar Svarthöfði er kominn út í svona svartsýnisraus verður hann að minna sjálfan sig á það sem hann skrifar hér að ofan. Hver er hann að efast um álit AGS, sem reyndist íslenskum almenningi – og sérstaklega þeim sem höllum fæti stóðu – vinur í raun þegar allt fór hér til fjandans í hruninu? Vitaskuld er AGS ekki að hugsa um bankana og fjárfesta þegar hann boðar óbreytta stýrivexti næsta árið – sjóðurinn er að hugsa um hag þeirra sem eru með íbúðalán og passa upp á að einhverjir vitleysingar rjúki ekki til og kaupi sér nýjustu gerð af flatskjá. Það er stóra málið.

Svarthöfði sér í hendi sér að það er gríðarlega mikilvægt fyrir stöðugleikann á Íslandi að þegar háir vextir keyra niður hlutabréfa- og skuldabréfamarkaði skuli vera til markaður sem fjárfestar geta leitað skjóls á; íbúðamarkaðurinn sem Seðlabankinn, stjórnvöld og skipulagsyfirvöld hafa varið dyggilega fyrir offramboði. Þetta tryggir stöðugleika á Íslandi og við vitum jú að stöðugleikinn er besti vinur litla mannsins. Þetta fyrirkomulag tryggir líka að ungt fólk og tekjuminna getur leigt húsnæði, í stað þess að kaupa, og borgað fyrir það leigu sem ekki þarf að skammast sín fyrir. Níu af hverjum tíu íbúðum sem seljast á Íslandi fara til fjárfesta, sem ætti að tryggja góðan og stöðugan leigumarkað.

Svarthöfði áttar sig á því núna hvernig AGS skilgreinir mjúka lendingu í hagkerfinu. Mjúk lending er hver sú lending sem viðheldur hagnaði bankanna og tryggir arðsemi fjárfestingar. Allt annað er ávísun á óstöðugleika og við vitum hver eru fórnarlömb hans.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Lögmál um fylgisfall stjórnarflokka

Þorsteinn Pálsson skrifar: Lögmál um fylgisfall stjórnarflokka
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Hvað myndi fólk segja ef Kristrún væri karl og Dagur kona?

Svarthöfði skrifar: Hvað myndi fólk segja ef Kristrún væri karl og Dagur kona?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar og talar: Þetta er svo stórkostlega flott plan!

Steinunn Ólína skrifar og talar: Þetta er svo stórkostlega flott plan!
EyjanFastir pennar
18.10.2024

Steinunn Ólína skrifar og talar: Loftlausir hoppubelgir

Steinunn Ólína skrifar og talar: Loftlausir hoppubelgir
EyjanFastir pennar
17.10.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Besta ákvörðunin

Þorsteinn Pálsson skrifar: Besta ákvörðunin
EyjanFastir pennar
11.10.2024

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd): Sameinumst – hjálpum þeim

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd): Sameinumst – hjálpum þeim
EyjanFastir pennar
10.10.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Fyrstu framvirku stjórnarslitin

Þorsteinn Pálsson skrifar: Fyrstu framvirku stjórnarslitin