fbpx
Mánudagur 15.júlí 2024
Eyjan

Jón Sigurður skrifar – Farsælast að vera fullkomlega sannfærður um eigin ranghugmyndir

Eyjan
Laugardaginn 13. júlí 2024 17:30

Jón Sigurður Eyjólfsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nú er ég að lesa Don Kíkóta á nýjan leik og er sú lesning jafn skemmtileg og sú fyrri. Nema hvað að stundum finnst mér ég vera að lesa um ríkisstjórnarsamstarfið heima á Íslandi en það eykur bara á skemmtanagildið. Reyndar eru höfuðpersónur bókarinnar aðeins tvær meðan ríkisstjórnin er þriggja hjóla vagn og þess vegna verð ég að fórna Framsóknarflokknum svo myndlíkingin gangi upp og bið ég formanninn forláts á því.

Einsog allir vita var Don Kíkóti haldinn stórkostlegum ranghugmyndum þannig að þessi sveitamaður, sem venjulegast var til tjóns hvar sem hann kom, taldi sig riddara sem væri að bjarga heiminum. Af sömu ástæðum urðu krár að kastölum og vinnukona frá Toboso að prinsessu. Sjálfstæðisflokkurinn er, einsog allir aðrir flokkar, hópur fólks sem sameinast um ranghugmyndir einsog þá að landið og miðin séu þeirra jussur sem þeir geti þuklað að vild.

Vinstri-grænir eru svo haldnir ranghugmyndum sem hörðustu raunsæismenn segðu afritaðar úr manifestói frá dýrunum í Hálsaskógi.

Munurinn á þessum tveimur ímyndunarsjúklingum er sá að Sjálfstæðisflokkurinn, rétt einsog Don Kíkóti, er svo illa haldin af hugmynd sinni að hann er tilbúinn að hrinda henni í framkvæmd meðan Vinstri-grænir eru gjarnir á að fá skyndilegan skammt af árans raunveruleikanum í formi samviskubits og segja þá „eigum við í alvöru að fara að banna hvalveiðar, eigum við í alvöru að breyta kvótakerfinu, eigum við í alvöru að setja okkur uppá móti sölu bankans, eigum við í alvöru að hleypa þeim öllum inn,“ og svo frameftir götunum.

Reyndar létu þeir slag standa með hvalveiðarnar en eftir mikið hik og það er eins með pólitíkina og veröldina milli eyra Don Kíkóta: það er bannað að efast um eigin ranghugmyndir. Þeir sem það gera eru umsvifalaust teknir í gegn. Það sést best á því þegar vertinn á kránni ætlaði að rukka Don Kíkóta fyrir gistinguna og veittan beina. En með því að kráin var kastali í huga gestsins og hann sjálfur vígður riddari sinnti hann í engu slíku tali og reið á brott án þess að nokkur íhugaði að skerða hár á höfði hans.

Þetta er hegðun sem lögfróðir Sjálfstæðismenn þekkja vel. Hann var svo kominn utan múrs sem umgirti krá þessa þegar aumingja Sansjó Pantsa mætir eigandanum sem segir óblíðlega:“ Jæja, þá er það að borga reikninginn.“ Því miður var gesturinn ekki svo ruglaður að trúa þeirri hugmynd, sem gert var útá, að hann væri skjaldsveinn riddara staddur í kastala. Honum varð því svarafátt. Það fór því svo að viðstaddir fundu lak all mikið og tolleruðu svo Sansjó greyið á lakinu. Fátt þótti meiri svívirðing á 17. öld en einmitt þessar aðfarir. Var honum vippað á lakinu af svo miklu kappi að Don Kíkóta sá hann, öðru hverju, skjóta upp kolli ofan við háan múrinn. Rétt einsog ég sé glytta í Vinstri-græna héðan frá Spáni þar sem þeir poppa, einsog glóðheitt maískorn, uppúr fangbrögðum íslenskra stjórnmála.

Við Cervantes, höfundur bókarinnar frægu, erum því sannfærðir um að þeim sem farnast best í stjórnmálum séu ekki þeir sem hafi rétt fyrir sér eða séu með bestu lausnirnar, heldur hinir sem eru svo sannfærðir um ranghugmyndir sínar að þar verði engu hiki við komið. Þetta getur líka verið gæfuríkt í einkalífinu sem sést best á því að Shakíra er að bíða eftir mér á sportbílnum hérna fyrir utan.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Miskunnsamur Samverji lögum samkvæmt

Þorsteinn Pálsson skrifar: Miskunnsamur Samverji lögum samkvæmt
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Lífskjör: Kaupmáttur á Íslandi mun minni en hjá nágrannaþjóðum – þriðjungi meiri í Færeyjum

Lífskjör: Kaupmáttur á Íslandi mun minni en hjá nágrannaþjóðum – þriðjungi meiri í Færeyjum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Áslaug Arna teflir öllu fram og segir Sjálfstæðisflokkinn geta gert margt betur – „Sorglegt að sjá víða að við förum ekki betur með fé“

Áslaug Arna teflir öllu fram og segir Sjálfstæðisflokkinn geta gert margt betur – „Sorglegt að sjá víða að við förum ekki betur með fé“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ólafur Stephensen: Samkeppnisyfirvöldum kippt út – eins og dómarinn sé tekinn út af og annað liðið ráði reglunum

Ólafur Stephensen: Samkeppnisyfirvöldum kippt út – eins og dómarinn sé tekinn út af og annað liðið ráði reglunum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Erna Hrund stýrir útflutningi á Collab

Erna Hrund stýrir útflutningi á Collab
Eyjan
Fyrir 1 viku

Segir Samfylkinguna hafa fórnað grunngildum og svara gagnrýni með gaslýsingum og hroka – „Dapurleg örlög jafnaðarflokks“

Segir Samfylkinguna hafa fórnað grunngildum og svara gagnrýni með gaslýsingum og hroka – „Dapurleg örlög jafnaðarflokks“