fbpx
Föstudagur 27.desember 2024
EyjanFastir pennar

Steinunn Ólína skrifar: Við erum saman í liði

Eyjan
Föstudaginn 5. júlí 2024 06:00

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir Mynd: Kári Sverrisson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nú er komið sumar og þá viljum við gjarnan geta tekið okkur örlítið frí frá amstri hversdagsins og notið blíðunnar, þegar hún gefst. Mig langar samt að biðja ykkur um að vera vakandi, vakandi fyrir því sem er að gerast í okkar samfélagi. Njóta blíðunnar en með augun og eyrun opin.

Ísland er til sölu og allt er falt. Vötn, fjöll og dalir, firðir og undirlendi og gróðinn sem í vændum er gerir mennina gíruga. Það er hægt að græða svo ógeðslega mikið ef við seljum allt. Að vísu munu aðeins örfáir útvaldir fá að njóta gróðans en það er leikurinn. Eftir mun þjóðin sitja eignalaus og þurfa að borga fyrir loft, vatn og landsins gæði, bókstaflega allt sem hugsast getur og af vanefnum auðvitað, því sá sem selur allt þarf á endanum allt að kaupa af nýjum eigendum.

Þeir sem eiga og ráða í okkar samfélagi hafa alfarið látið af þeirri hugsun að reka hér velferðarsamfélag. Ísland er rekið sem hagnaðardrifið fyrirtæki þar sem allt sem fyrir er skal metið, verðmerkt, selt eða keypt. Þetta á ekki bara við um landsins gæði, heldur erum við manneskjurnar líka annað hvort skráð sem eignir eða skuldir.

Þeir sem hafa háar tekjur og þurfa lítt á aðstoð að halda eru góðar fjárfestingar, þeir sem standa höllum fæti eru slæmar fjárfestingar. Þeir vel stæðu eru góðar eignir, þeir fátæku eru lélegar eignir.

Þeim vel stæðu stendur allt til boða, lán, fyrirgreiðslur og leiðir til að auka ríkidæmi sitt en allar dyr eru þeim verr stæðu lokaðar.

Öll almenn þjónusta sem hið opinbera hefur staðið fyrir hefur á undanförnum áratug markvisst verið skert og gerð óaðgengilegri. Þarf ég að tína það til? Nei, ykkur er það fullljóst.

Þetta viðhorf stjórnvalda breiðist hraðbyri yfir allt, stórt og smátt, og sést til dæmis nýlega í sumarlokun bókasafna. Það er ekki arðbært að halda úti þjónustu fyrir fólk sem vill auðga andann ef fólk borgar lítið fyrir slíka þjónustu.

Sundlaugarnar eru annað dæmi, stytting opnunartíma og nýleg gjaldtaka á eldra fólk sýnir okkur svart á hvítu að nú skal klípa af, hvar sem það er hægt. Ekkert fær að vera í friði, ekkert það sem sameinar okkur og nærir og hefur þótt sjálfsagt í okkar samfélagi fær lengur að vera í friði.

Gjaldtaka hvar sem henni er komið við, hvort sem það eru bankar eða beitilönd, lýsir þessari hugsun um að fyrir allt skuli greiða, þrátt fyrir að við séum sköttuð upp í rjáfur. Gjaldtaka fyrir það sem áður þótti eðlilegt í velferðarsamfélagi er auðvitað ekkert annað en viðbótarskatttaka.

Stjórnvöld kveða möntru um hagvöxt samfélagsins og að frelsi einstaklingsins snúist um að skara elda að eigin köku, alveg sama hvernig farið sé að. Eins og það sé á einhvern hátt eðlileg hugsun? Engu skipti þó aðferðirnar skaði og meiði aðra, því ekkert sé mikilvægara í samfélagi en að græða peninga?

Einmanaleiki er afleiðing þessarar markaðshugsunar. „Ég er einn í stríði, ég þarf ein að berjast, ég verð að eiga, ég verð að græða, ég verð að láta einu gilda þótt ég þurfi að svíkja og stunda pretti til að sjá mér farborða. Það er vont og stríðir gegn betri vitund en það venst, það eru allir hvort sem er að gera það. Ef ég er utan alfaraleiðar og get rukkað 1000 kall fyrir kaffibolla og 400 kall fyrir vatnsflösku þá er það réttur minn og sjálfsögð mannréttindi. Ef ég kemst upp með að leigja út skítakompu fyrir fúlgur fjár þá er það alveg ok! Því ef ÉG verð ekki ríkur, þá er ég ekki neitt.“

Orðið samfélag skýrir sig sjálft. Samfélag þýðir einfaldlega að búa saman í félagi við land og þjóð. Til þess að samfélag geti staðið undir nafni þá verðum við manneskjurnar að muna að við erum ekki ein, við erum ekki stríðandi fylkingar heldur fólk með sameiginlega hagsmuni. Þá hagsmuni að búa við frið, geta séð okkur farborða og hafa aðgang að aðstoð eftir því sem lífið býður okkur.

Við erum öll mikilvæg og enga verðmiða ætti að setja á manneskjurnar. Við erum ólík og missterk á svellinu en öll erum við mikilvægir kennarar hvert fyrir annað. Þeir háværu, gráðugu og grimmu kenna okkur hógværð, örlæti og mildi. Þeir veiku og smáðu kenna okkur samkennd, umhyggju og hlýju.

Aðeins saman getum við varið okkur og þau gildi þau við viljum í heiðri hafa í okkar samfélagi. Að á Íslandi sé gott að búa.

Við verðum að nota sumarið í að æfa okkur í að tala um OKKUR í stað þess að hugsa um hvert og eitt okkar sem einmana stærðir. VIÐ verðum að leggja af innbyrðis átök og hópamerkingar sem aðgreina okkur. VIÐ verðum að vera VIÐ og standa saman. VIÐ erum sterk. VIÐ erum sanngjörn og hjálpsöm. VIÐ verðum að vera saman í liði því annars missum við allt. OKKUR þykir vænt hverju um annað. Það er eðli okkar og þannig slær hjartað í langflestum. Látum enga segja okkur annað.

Haustið er ekki langt undan og nú þurfum við að skipuleggja okkur.

Skipuleggja með visku og krafti viðspyrnu gegn því sem fyrirhugað er. VIÐ erum ekki að fara að afsala okkur sjálfstæðinu. VIÐ ætlum að veita viðspyrnu og vinna saman sem ein heild. Ekki bara fyrir okkur sjálf heldur fyrir heildina.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Ágúst Borgþór skrifar: Meiri starfslaun, takk!

Ágúst Borgþór skrifar: Meiri starfslaun, takk!
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Frá jöðrunum inn á miðjuna

Þorsteinn Pálsson skrifar: Frá jöðrunum inn á miðjuna
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum
EyjanFastir pennar
17.11.2024

Vandamál okkar eru léttvæg

Vandamál okkar eru léttvæg
EyjanFastir pennar
16.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Eldræður

Óttar Guðmundsson skrifar: Eldræður
EyjanFastir pennar
09.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Sérfræðingar í málefnum Bandaríkjanna

Óttar Guðmundsson skrifar: Sérfræðingar í málefnum Bandaríkjanna
EyjanFastir pennar
08.11.2024

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?