Þingkosningar fara fram í Bretlandi á morgun. Fastlega er búist við stórsigri Verkamannaflokksins og að Íhaldsflokkurinn sem stýrt hefur landinu síðan 2010 (fram til 2015 í samsteypustjórn með Frjálslyndum demókrötum) bíði afhroð. Spenna í aðdraganda kjördags hefur því verið lítil og Verkamannaflokkurinn hefur þráfaldlega minnt kjósendur á að þeir verði að mæta á kjörstað og kjósa en ekki gera ráð fyrir stórsigri flokksins og freistast til að sleppa því.
Nokkuð dauft hefur þótt yfir kosningabaráttunni en nánast öll þjóðin virðist gera ráð fyrir að Verkamannaflokkurinn muni sigra með yfirburðum í ljósi þess að flokkurinn hefur haft um og yfir 20 prósentu stiga forskot á Íhaldsflokkinnn í skoðanakönnunum allt frá haustinu 2022. Fastlega er einnig búist við því að leiðtogi Verkamannaflokksins Keir Starmer muni að morgni 5. júlí, daginn eftir kjördag, halda á fund Karls konungs sem muni útnefna hann forsætisráðherra Bretlands og biðja hann um að mynda næstu ríkisstjórn landsins.
Ekki má gleyma því að í Bretlandi er einmenningskjördæmakerfi sem getur haft þær afleiðingar að þingstyrkur flokka verði í takmörkuðu samræmi við fylgi þeirra á landsvísu.
Verkamannaflokkurinn hefur verið að mælast með 40-45 prósent fylgi á landsvísu í könnunum og næstur honum hefur komið Íhaldsflokkurinn með um 20-26 prósenta fylgi. Ef þetta verður niðrustaða kosninganna ætti það að duga Verkamannaflokknum til hljóta ríflegan meirihluta á þingi. Alls verður kosið um 650 þingsæti í neðri deild þingsins og því þarf 326 þingsæti til að fá meirihluta. Í sérstökum könnunum á líklegum þingmannafjölda flokkanna hefur því verið spáð að Verkamannaflokkurinn hljóti á bilinu 420-480 þingsæti en að Íhaldsflokurinn muni koma næstur með um 60-120 þingsæti. Verði það niðurstaðan yrði staða Verkamannaflokksins og ríkisstjórnar hans því afar sterk.
Rishi Sunak forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi Íhaldsflokksins sem og annað forystufólk flokksins virðist hafa sætt sig við að allt bendir til að 14 ára valdatíð flokksins sé á enda. Flokksmenn vara kjósendur við því að yfirvofandi sé að Verkamannaflokkurinn verði með svokallaðan ofurmeirihluta eða aukinn meirihluta ( e. supermajority) á þingi ef kosningarnar enda í samræmi við kannanirnar. Íhaldsmenn segja að kjósendur verði að koma í veg fyrir þetta og þá jafnvel kjósa taktískt. Alastair Campell fyrrum spunameistari Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra og leiðtoga Verkamannaflokksins, segir hins vegar að slíkt tal sé innihaldslaust þar sem aukinn meirihluti hafi ekkert gildi í breskri stjórnskipun en í sumum löndum þarf aukinn meirihluta, t.d. 2/3 atkvæða, á þingi til að mynda standi breytingar á stjórnarskrá fyrir dyrum.
Keir Starmer hefur einnig vísað á bug að hægt sé að gera ráð fyrir því að flokkur hans verði með svo mikinn þingstyrk að völd hans verði meiri en nokkur dæmi eru um í breskri sögu.
Vegna stöðunar í könnunum hefur kosningabaráttan þótt daufleg og spennan nú daginn fyrir kjördag þykir mun minni en spennan vegna þingkosninganna í Frakklandi en seinni umferð þeirra fer fram 7. júlí.
Verkamannaflokkurinn óttast hins vegar talsvert að margir kjósendur telji niðurstöðu kosninganna ráðna og það taki því varla að mæta á kjörstað þar sem atkvæði viðkomandi breyti litlu. Flokkurinn hefur birt fjölda auglýsinga á samfélagsmiðlum sínum þar sem kjósendur eru varaðir við slíkri værukærð, meðal annars þessa:
Ljóst er að talsverð þreyta er kominn í kjósendur gagnvart Íhaldsflokknum ekki síst þar sem að flokkurinn hefur skipt tvisvar um leiðtoga á kjörtímabilinu og forsætisráðherrar hans hafa verið þrír síðan 2022. Tilhlökkun kjósenda með að Keir Starmer setjist í forsætisráðherrastólinn er þó minni en oftast áður þegar valdaskipti standa fyrir dyrum í Bretlandi en samkvæmt könnunum nýtur Starmer minna trausts en flestir þeir sem hafa verið í sömu stöðu og hann fyrir fyrri þingkosningar, þ.e.a.s. standi frammi fyrir því að verða forsætisráðherra. Hann þykir því hafa það einna helst með sér að vera ekki leiðtogi Íhaldsflokksins og ekki Rishi Sunak.
Hægri popúlistaflokkurinn Umbót (e. Reform), undir forystu hins umdeilda Nigel Farage, hefur einnig sótt að Íhaldsflokknum og Farage hefur lýst því yfir að hans flokkur muni verða hin raunverulega stjórnarandstaða við ríkisstjórn Verkamannaflokksins. Umbót hefur verið að fá allt að 20 prósent fylgi í könnunum en því hefur verið spáð að það muni ekki skila sér í mikið meira en 10 þingsætum en í hlutfallskosningakerfi með fjölmennari kjördæmum, eins og er á Norðurlöndum, myndi slíkt fylgi tryggja flokknum yfir 100 þingsæti.
Ljóst er að ríkisstjórn Keir Starmer mun standa frammi fyrir margvíslegum áskorunum. Til að mynda er grunnþjónusta í Bretlandi víða farin að láta á sjá. Það hefur birst ekki síst í heilbrigðiskerfinu með meðal annars sívaxandi biðlistum. Efnahagur Bretlands hefur einnig verið í nokkrum hægagangi undanfarin ár meðal annars vegna áhrifa Covid-faraldursins og útgöngunnar úr Evrópusambandinu. Slagorð Verkamannaflokksins fyrir þessar kosningar er „Breytingar“ en það gæti orðið vandasamt að framkvæma þær til að mynda með auknum útgjöldum til heilbrigðismála og annarrar grunnþjónustu án þess að hagvöxtur verði meiri.
Starmer og annað forystufólk flokksins hefur lagt þunga áherslu á að sýnd verði ábyrgð og vandvirkni við meðhöndlun fjármuna ríkissjóðs en flokkurinn hefur í stefnuskrá sinni lagt meðal annars áherslu á að koma auknu skriði á breskt efnahagslíf og segist ekki ætla að standa fyrir víðtækum skattahækkunum eins og Íhaldsmenn hafa margir hverjir fullyrt að standi til.
Ýmsum stjórnmálaskýrendum hefur þótt skorta dýpt í umræðum í kosningabaráttunni um hvernig best sé að takast á áskoranir og vandamál Bretlands en í staðinn hafi ýmsar uppákomur skyggt á umræðuna.
Af skrautlegum uppákomum má nefna meðal annars uppátæki Ed Davey leiðtoga Frjálslyndra demókrata sem hefur fyrir framan myndavélar meðal annars rennt sér í vatnsrennibraut og farið í teygjustökk. Í hinu vinsæla hlaðvarpi The Rest is Politics sem stýrt er af áðurnefndum Alastair Campell og Rory Stewart, fyrrverandi þingmanni Íhaldsflokksins, hefur hins vegar verið bent á að rætt hafi verið meira um þessi uppátæki Davey en stefnu flokks hans og kjósendur séu því síður með það á hreinu hvað flokkurinn vill gera.
Önnur skrautleg uppákoma varð nú síðast í morgun í morgunþættinum vinsæla This Morning á sjónvarpsstöðinni ITV þar sem Rishi Sunak var meðal gesta. Á ljósmyndum sem stöðin sendi frá sér var Sunak látinn sitja fyrir aftan sófann þar sem gestir þáttarins sitja á meðan stjórnendur ræða við þá en á meðan sat aðalgestur þáttarins í sófanum en það var Becky Holt sem er móðir og OnlyFans-stjarna en 95 prósent líkama hennar eru þakin húðflúrum. Í umfjöllun Daily Mail er haft eftir ónefndum starfsmönnum Íhaldsflokksins að með þessu hafi forsætisráðherranum verið sýnd óvirðing og hann vísvitandi látinn líta illa út með því að vera látinn vera til viðtals beint í kjölfar Holt.
Vandræðlegheitin þóttu ná ákveðnu hámarki þegar Sunak var spurður í þættinum hver uppáhaldsmatur hans væri og svarið var:
„Samlokur.“