Í byrjun vikunnar héldum við upp á áttatíu ára afmæli forsetaembættisins.
Gagnrýni á störf þeirra stofnana lýðveldisins, sem forsetinn er hluti af, er mikilvægur þáttur lýðræðisins.
En afmælið og nýafstaðin barátta um Bessastaði er líka tilefni til að hugleiða hvaða áhrif kerfisbundin öfugmæli geta til lengri tíma haft á stofnanir lýðræðisskipulagsins.
„Ég heiti Ragnar Kjartansson og ég er elíta.“ Þannig byrjar listamaðurinn varnargrein í maílok vegna gagnrýni, sem hann sætti fyrir að styðja fráfarandi forsætisráðherra í forsetaframboði.
Samkvæmt orðabókinni er elíta hnjóðsyrði um þá sem njóta forréttinda. Ragnar hefur sannarlega náð lengra en flestir í list sinni. Og vel má vera að hann hafi efnast.
En með rökum er trauðla unnt að halda því fram að hann standi þar sem hann er fyrir aðra sök en eigin frumlegu sköpunargáfu? Hvernig getur það eitt minnkað forsetaframbjóðanda að eiga hann eða aðra slíka að meðhaldsmönnum?
Stjórnmálamenn og listamenn eiga að sæta gagnrýni fyrir það sem þeir gera. En málið vandast þegar orðræðan er kerfislega notuð til að minnka þá fyrir það eitt í hvaða stöðu þeir eru.
Það er ekkert betra að tala kerfislega niður til allra stjórnmálamanna eða allra listamanna fremur en til fólks af öðrum kynstofni eða annarri kynhneigð.
Kerfisleg notkun orða skiptir nefnilega máli þegar kemur að því trausti sem lýðræðið og réttarríkið byggir á.
Orðið stofnun hefur smám saman fengið neikvæða merkingu. Samt er það svo, að rétt eins og heilbrigði landsmanna byggir á stofnunum eins og sjúkrahúsum, byggir lýðræðið á stofnun eins og Alþingi og réttarríkið á stofnunum eins og dómstólum og lögreglu.
Réttarreglur, sem um þessar stofnanir gilda, eru mikilvægar. En á endanum er það svo að þær þjóna ekki tilgangi sínum njóti þær ekki trausts.
Þótt menn tali iðulega kerfisbundið um ráðherra sem forréttindaelítu er tilgangurinn sjaldnast sá að grafa undan lýðræðinu. En dropinn holar steininn. Sagan geymir dæmi um hvernig andlýðræðisleg öfl hafa sprottið upp úr jarðvegi slíkrar umræðu.
Á fyrri hluta síðustu aldar fór mikið fyrir bændum, sýslumönnum, kaupmönnum og prestum á Alþingi. Nú eru fulltrúar þessara hópa sjaldséðir hrafnar þar.
Án rannsóknar sýnist mér að hversdagsfólk eigi fleiri fulltrúa á Alþingi nú en áður var. Á þessari öld hefur orðið meiri endurnýjun á Alþingi í hverjum kosningum en nokkru sinni fyrr.
Í gegnum tíðina eru vissulega til dæmi um að fjölskyldur hafi samtímis haft rík áhrif í viðskiptum og pólitík. En þau eru ekki mörg.
Fyrrum forsætisráðherra á ekki meira tilkall til Bessastaða en aðrir og sannarlega eðlilegt að hann sé meir í skotlínu en aðrir vegna verka sinna.
En þegar látið er að því liggja að sjö ára ríkisstjórnarforysta og ellefu ára seta samtals við ríkisstjórnarboðið skipi þjóðkjörnum þingmanni sjálfkrafa í forréttindaklíku er það ekki áfellisdómur um störf hans heldur öfugmæli um mikilvægustu stofnun lýðræðisins.
Þingmenn eru mishæfir. Þekking þeirra er misjöfn. Þeir eru misvandir að virðingu sinni. Þeir geta misstigið sig og jafnvel verið mislyndir. Þetta gerir þá aftur á móti ekki að forréttindaelítu. Nær væri að líta svo á að þessi veruleiki á Alþingi sé spegilmynd samfélagsins.
Öfugmæli um stofnanir lýðræðisins eru fyrirferðarmikil í daglegri umræðu en virðast oft hafa tilhneigingu til að bólgna í forsetakosningum. Það er umhugsunarefni.
Svo má ekki gleyma því að stjórnmálamenn eru ekki alltaf barnanna bestir í þessu samhengi. Ummæli sumra þeirra um mikilvægar stofnanir eru stundum líkari kerfislegum öfugmælum en málefnalegri rökræðu.
Stjórnarskráin segir að forseti Íslands og Alþingi fari saman með löggjafarvaldið og forsetinn og önnur stjórnvöld fari saman með framkvæmdavaldið.
Þetta þýðir að forseti lýðveldisins og ríkisstjórn eru eitt. Forsetinn er einfaldlega hluti af stjórnskipulegum hjúskap Alþingis og ríkisstjórnar.
Öfugmæli um þær stofnanir lýðveldisins og lýðræðisins, sem forsetinn er hluti af, lækka um leið risið á Bessastöðum.
Að því er lítil auðnubót.