fbpx
Föstudagur 03.janúar 2025
Eyjan

Reykvíkingum sjálfum að kenna þegar ruslatunnur þeirra eru ekki tæmdar – „Íbúar þurfa bara að passa upp á nágranna sína“

Eyjan
Þriðjudaginn 18. júní 2024 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sorphirða í Reykjavík var til umræðu á fundi borgarstjórnar í dag. Þar rakti meirihlutinn þær umfangsmiklu breytingu sem hefur verið keyrð í gegn hvað varðar flokkun og árangur af starfi gas- og jarðgerðarstöðvarinnar GAJA. Minnihlutinn benti á að enn séu þó Reykvíkingar að kvarta undan sorphirðu, yfir að tunnur þeirra séu ekki tæmdar. Borgarfulltrúinn Alexandra Briem segir að í flestum tilvikum þar sem tunnur eru ekki tæmdar sé íbúum um að kenna. Þeir séu ekki að nota tunnur sínar rétt og þá eru þær ekki tæmdar þar sem ekki er hægt að ætlast til þess að starfsmenn sorphirðunnar taki að sér að flokka fyrir íbúa. Vissulega væri þetta erfitt þegar um fjölbýli er að ræða en íbúar verði þó að taka ákveðna ábyrgð á nágrönnum sínum.

Dóra Björt Guðjónsdóttir, formaður umhverfis- og skipulagsráðs, rakti í ræðu sinni á fundi borgarstjórnar í dag að þeim árangri hefur verið náð að sumardaginn fyrsta var fyrstu uppskeru næringarríkrar moltu í GAJU fagnað. Íbúar höfuðborgarsvæðisins og nágrenni flokkuðu um 10.500 tonn af lífrænum úrgangi árið 2023. Með aukinni flokkun hafi urðun minnkað verulega og þar með losun gróðurhúsalofttegunda. SORPA hafi fyrir vikið fengið umhverfisviðurkenningu umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytis á síðasta ári. Tekist hafi að breyta hegðun almennings á skömmum tíma og SORPA lyft grettistaki í flokkun matarleifa.

Fjórflokkun var tekin upp í borginni á síðasta ári og í kjölfarið var grenndarstöðvum breytt. Færri grenndarstöðvar taka á móti pappa og plasti en þess í stað er nú á öllum að finna gáma fyrir málm og gler. Nú í júlí taki SORPA svo við söfnun á textíl á grenndarstöðvum.

Tæknin hefur eins tækifæri í för með sér og unnið er að því að koma upp skynjurum við grenndar- og djúpgáma sem ætti að draga úr tilfellum þar sem gámar verða yfirfullir þar sem hægt er að tæma þá jafnóðum.

Íbúar bera ábyrgð á að tunnur séu notaðar rétt

Fulltrúar frá minnihlutanum greindu frá því í andsvörum að til þeirra hafi borist ítrekaðar og margar kvartanir borgarbúa yfir að sorphirðudagatal standist illa og að tunnur séu ekki tæmdar. Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, segist fá helling af kvörtunum frá borgarbúum yfir að tunnur þeirra séu ekki hirtar nógu reglulega og að gámar séu yfirfullir á grenndarstöðvum. Kjartan segist fá á tilfinninguna að það þurfi að bæta stjórnun í málaflokki sorphirðu. Bæði innan borgarinnar og hjá Sorpu. Kjartan minntist svo á að mikil mistök voru gerð við byggingu GAJA og jafnvel megi tala um tilraunastarfsemi á kostnað borgarbúa. „Hráefnið myglaði ekki sem skildi, en hins vegar kom upp mygla í sjálfu húsinu, sem var óneitanlega kaldhæðnislegt,“ rifjaði Kjartan upp og bætti við að heildarkostnaður við GAJA hafi farið langt fram úr áætlunum. Síðast hafi hann heyrt talað um 5,5 milljarða en fyrir liggi að kostnaðurinn sé enn hærri.

Alexandra Briem, borgarfulltrúi Pírata, svaraði því til að það væri skiljanlegt að fólki finnist miður þegar sorp safnast upp við heimili þeirra. Sérstaklega í fjölbýlum. En slíkt megi gjarnan rekja til þess að endurvinnslutunnur eru ekki notaðar rétt. Það séu íbúar sem beri ábyrgð á því að nota tunnurnar rétt og vissulega geti staðan verið erfið í fjölbýlum ef nágrannar eru ekki að standa sig. Auðvitað finnist fólki það ekki þurfa að bera ábyrgð á flokkunarhegðun nágranna sinna.

„En það þarf að skerpa á því að íbúar bera ábyrgð á því gagnvart sínum nágrönnum að búa ekki til þessar aðstæður,“ segir Alexandra. Ekki sé hægt að ætlast til þess að sorphirðan fari í gegnum tunnurnar til að flokka fyrir íbúa.

„Íbúar þurfa bara að passa upp á nágranna sína og húsfélög þurfa að taka það upp á sínum vegum að það verði að vera þannig að tunnur séu notaðar rétt.“

Þennan vanda megi gjarnan rekja til íbúða sem eru leigðar út í gegnum síður á borð við Airbnb en þá verði leigusalar að brýna fyrir leigjendum sínum að flokka rétt eða hreinlega mæta á svæðið og gera það sjálfir. Húsfélög séu svo rétti aðilinn til að taka fyrir mál þar sem einhver í sameign er ekki að standa sig.

Alexandra segir mikilvægt að huga að þessari stöðu, að það sé ekki við borgina að sakast þegar tunnur eru ekki tæmdar ef ekki er rétt farið með þær.

Meirihlutanum tamt að firra sig ábyrgð

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, furðaði sig á þessum orðum Alexöndru. Helst væri að skilja að Alexandra væri að firra borgina ábyrgð og leggja hana þess í stað á herðar íbúa.

„Ég vil bara aðeins tala um það hversu tamt það er þessum meirihluta að varpa frá sér ábyrgð, kenna öðrum um,“ sagði Kolbrún. Meirihlutinn hljóti að geta brugðist öðruvísi við umkvörtunum en að fleygja því framan í borgarbúa að þeir geti sjálfum sér um kennt. Meirihlutinn hafi í máli sínu fjallað um að breytingar í sorphirðu hafi valdið byrjunarörðugleikum sem nú sjái loks fyrir endann á. Meirihlutinn hljóti að gefa íbúum sama rými til að læra nýja hætti, auðvitað lendi þeir í byrjunarörðugleikum líka.

„Það er í raun verið að segja að maðurinn eða konan á 2. hæð beri ábyrgð á fjölskyldunni á 4. hæð. Þetta gengur náttúrulega ekki upp. Hér verður meirihlutinn að axla þessa ábyrgð af alvöru en ekki varpa öllu yfir á borgarbúa.“

Alexandra svaraði Kolbrúnu og frábað sér að vera að kenna íbúum um.

„Ég er bara að segja að þetta er eitthvað sem notendur tunna þurfa að passa upp á að gera rétt og að það er ekki hægt að segja að sorphirðan sé að bregðast ef tunna, sem er vitlaust notuð, er ekki tæmd.“

Það sé svo að íbúar beri ábyrgð á sínum tunnum og vissulega er það flóknari staða þegar fleiri en eitt heimili ber ábyrgð á einni sömu tunnunni. Það sé svo þekkt að leigusalar séu ekki alltaf að passa upp á að leigjendur séu að nota tunnur rétt.

Ekki  hægt að kenna öðrum um

Kolbrún gerði formlega bókun eftir umræðurnar á fundinum í dag:

„Ýmislegt hefur gengið á frá því nýja flokkunarkerfið var sett á laggirnar í Reykjavík, aðallega vegna tafa á hirðu sorps. Enda þótt Sorpa komi hvergi nærri sorphirðu við heimili á höfuðborgarsvæðinu er ekki þar með sagt að Sorpa eða meirihlutinn í borginni geti fríað sig ábyrgð ef illa gengur. Sorpa og borgin bera alltaf ábyrgðina. Terra sinnir losun á pappír, plasti, gleri og málmum skv. samningi í kjölfar útboðs. Miklir erfiðleikar hafa verið í sorphirðumálum þeim sem snýr að Terru. Þá hafa sorphirðubílar bilað og seinkun verið á hirðu í allt að viku og meira. En hér má sjá galla útvistunar í hnotskurn. Þegar búið er að útvista verkefni og þjónustan versnar þvær meirihlutinn hendur sínar og segir að eðlilega séu byrjunarörðugleikar þegar stór verkefni eru innleidd. Í dag er staðan þannig að víða um borg liggur sorp eins og hráviði, m.a. við grenndarstöðvar því gámar eru ýmist ekki til staðar eða eru ekki tæmdir. Ítrekað eru stampar yfirfullir og það allt of lengi. Verkefnið er meirihlutans að sinna og því ekki hægt að kenna neinum öðrum um.“

Kolbrún birti þessa mynd í ræðu sinni í dag og sagði þetta bara eitt dæmi af mörgum um ástandið við grenndarstöðvar
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Steinunn Ólína skrifar: Góðavondafólkið

Steinunn Ólína skrifar: Góðavondafólkið
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótaávarp

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótaávarp
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Meiri músikk – minna mas!

Orðið á götunni: Meiri músikk – minna mas!
Eyjan
Fyrir 1 viku

Bæjarstjóri Kópavogs vill afnema sérréttindi opinberra starfsmanna – Vísar í umdeilda úttekt Viðskiptaráðs

Bæjarstjóri Kópavogs vill afnema sérréttindi opinberra starfsmanna – Vísar í umdeilda úttekt Viðskiptaráðs
Eyjan
Fyrir 1 viku

Afhjúpar lævíst plott Sjálfstæðisflokksins til að tryggja sér fjárhagslega yfirburði – Svona reyndi hann að veikja samkeppnina

Afhjúpar lævíst plott Sjálfstæðisflokksins til að tryggja sér fjárhagslega yfirburði – Svona reyndi hann að veikja samkeppnina
Eyjan
Fyrir 1 viku

Boða til blaðamannafundar á morgun

Boða til blaðamannafundar á morgun