fbpx
Mánudagur 15.júlí 2024
EyjanFastir pennar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Þrjár leiðir eftir kosningar

Eyjan
Fimmtudaginn 13. júní 2024 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Matvælaráðherra leyfir hvalveiðar gegn samvisku sinni en hindrar að af þeim geti orðið með góðri samvisku og ólögmætri tafastjórnsýslu. Þetta lýsir vel eðli málamiðlana í stjórnarsamstarfinu.

Einnig minnir þetta á fyrrum þingflokksformann sjálfstæðismanna, sem skrifar í Morgunblaðið gegn þeirri hugmyndafræði að þenja út ríkisumsvifin í hvert sinn sem hann greiðir samviskusamlega atkvæði gegn samvisku sinni á Alþingi.

Þegar svona stendur á fyrir ríkisstjórn þurfa talsmenn stjórnarandstöðunnar ekki að eyða miklum tími í hefðbundna gagnrýni. Stjórnarþingmenn sjá sjálfir um að koma stjórninni fyrir kattarnef.

Næstu kosningar snúast því ekki um að koma ríkisstjórninni frá. Fyrir vikið hafa talsmenn stjórnarandstöðunnar ríkari skyldur til að sýna fyrir fram hvaða málefnalegu samstarfskostir geta komið í staðinn.

Horfinn trúverðugleiki

Það er léttur leikur að spá í mögulegar stjórnarmyndanir einungis eftir þingsætafjölda flokka í skoðanakönnunum.

En reynslan frá þessu stjórnarsamstarfi sýnir að það er ekki gæfuleg leið að setja málefnin upp á hillu til þess eins að mynda ríkisstjórn.

Þegar stjórnarflokkar hafa í jafn langan tíma talað í eina átt en stefnt í aðra hverfur trúverðugleikinn. Málefnaleg áhrif þeirra á næstu stjórnarmyndun verða að sama skapi minni.

Heilbrigðisútgjöld og hærri skattar

Eins og sakir standa bendir flest til að Samfylkingin ráði för við myndun ríkisstjórnar að kosningum loknum.

Samfylkingin hefur náð því að verða langsamlega stærsti flokkurinn í könnunum með því að þrengja kjarna jafnaðarstefnunnar við eitt höfuðmál og leggja öll pólitísk hitamál á hilluna.

Það þýðir að eina fyrirliggjandi kosningaloforð stærsta flokksins er að auka útgjöld til heilbrigðismála um 70 milljarða á næstu tveimur kjörtímabilum og hækka skatta að sama skapi.

Pólitískt umdeild mál, sem Samfylkingin hefur lagt á hilluna, eru til að mynda þessi: Umtalsverð hækkun auðlindagjalda, tímabundinn nýtingarréttur auðlinda í þjóðareign, virkjanaandóf, loftslagsmál, andstaða við herta útlendingalöggjöf og stuðningur við aukinn jöfnuð í samfélaginu með upptöku evru og aðild að Evrópusambandinu.

Á þessum málefnagrunni heldur Samfylkingin öllu opnu og getur valið um þrjár aðal leiðir við stjórnarmyndun:

Leið A

Forysta Samfylkingar talar á þann veg að ekki sé ofarlega á óskalistanum að bjóða Sjálfstæðisflokknum til samstarfs.

Hitt er að öll þau stóru pólitísku grundvallarmál, sem lögð hafa verið á hilluna, gera slíkt samstarf tiltölulega auðvelt.

Málefnalega yrði það eftirlíking af núverandi samstarfi, nema hvað skattar myndu hækka eitthvað, en þó ekki eins mikið og Samfylkingin hefur boðað.

Leið B

Sumar kannanir hafa sýnt möguleika á að Samfylkingin myndi stjórn á miðjunni með Viðreisn og Framsókn.

Krafan um miklar skattahækkanir gæti gert það dæmi málefnalega snúið gagnvart báðum miðjuflokkunum. Fráhvarf frá því markmiði að auka jöfnuð með dýpri Evrópusamvinnu gæti sett strik í reikninginn gagnvart Viðreisn. Og fráhvarf frá tímabundnum nýtingarrétti auðlinda myndi trufla stefnu beggja.

En Samfylkingin hefur auðveldað slíkt miðjusamstarf með því að setja gömlu stefnuna í orkumálum og útlendingamálum á hilluna.

Leið C

Skoðanakannanir hafa í hart nær tvö ár sýnt hreinan meirihluta þeirra flokka, sem fyrirvaralaust styðja aðalstefnumál Samfylkingar um hærri skatta til að auka heilbrigðisútgjöld.

Það eru auk Samfylkingar: Píratar, VG, Flokkur fólksins og Sósíalistar. Falli atkvæði bæði VG og Sósíalista dauð er þessi meirihluti þó óviss.

Hugsanlega er hrein vinstristjórn ekki álitin eftirsóknarverð. Hins vegar er erfitt að sjá, ef trútt er talað, hvernig Samfylkingin getur hafnað eina kostinum, sem ekki kallar á málamiðlun um aðalstefnumálið.

Miðflokkur, Viðreisn og Framsókn

Miðflokkurinn hefur þegar náð þeirri stærð að hugsanlega leggur Sjálfstæðisflokkurinn ekki í samstarf við Samfylkingu um skattahækkanir án hans.

Aftur á móti þurfa Viðreisn og Framsókn að auka nokkuð fylgi sitt til þess að geta sveigt Samfylkingu til samvinnu á miðjunni um sum þeirra mála, sem hún hefur lagt á hilluna.

Sennilega er Viðreisn með breiðustu málefnastöðuna en Framsókn þá sveigjanlegustu. Fyrir Samfylkinguna kann að verða erfiðast að útskýra hvað það þýðir í raun fyrir stjórnarmyndun að leggja svo mörg pólitísk stórmál á hilluna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: „Krísa íslenskrar pólitíkur leikur íhaldið jafn grátt og ysta vinstrið“

Sigmundur Ernir skrifar: „Krísa íslenskrar pólitíkur leikur íhaldið jafn grátt og ysta vinstrið“
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Frelsi listamanna

Óttar Guðmundsson skrifar: Frelsi listamanna
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Það sem helst hann varast vann …

Sigmundur Ernir skrifar: Það sem helst hann varast vann …
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Körfuboltabullið

Óttar Guðmundsson skrifar: Körfuboltabullið
EyjanFastir pennar
15.06.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Hvalamálið

Óttar Guðmundsson skrifar: Hvalamálið
EyjanFastir pennar
14.06.2024

Svarthöfði skrifar: Þess vegna er Viðreisn í bjórfylgi

Svarthöfði skrifar: Þess vegna er Viðreisn í bjórfylgi
EyjanFastir pennar
08.06.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Eftir kosningar

Óttar Guðmundsson skrifar: Eftir kosningar
EyjanFastir pennar
07.06.2024

Steinunn Ólína skrifar: Verðmætamatið

Steinunn Ólína skrifar: Verðmætamatið