Fulltrúar Á-listans, sem sitja í meirihluta, í sveitarstjórn Rangárþings ytra höfnuðu sameiningarviðræðum sem Ásahreppur stakk upp á. Rifjað var upp að íbúar Ásahrepps hefðu hafnað sameiningu fyrir þremur árum síðan.
Hreppsnefnd Ásahrepps vildi hefja sameiningarviðræður við nágranna sína í Rangárþingi eystra og ytra. En bæði sveitarfélögin eru mun fjölmennari en Ásahreppur. Á-listinn hins vegar hafnaði þessu.
Rifjað var upp að íbúar Ásahrepps hefðu hafnað sameiningu í kosningu í september árið 2021. En þá var kosið um sameiningu þessara þriggja sveitarfélaga auk Skaftárhrepps og Mýrdalshrepps. Sameiningin var samþykkt í öllum sveitarfélögunum nema Ásahreppi og féll hún því um sjálfa sig.
Í bókun Á-listans segir einnig að könnun hafi verið gerð um sameiningu samfara forsetakosningum í Ásahreppi. 56 prósent hafi ekki viljað sameinast öðru sveitarfélagi.
„Það er því mat undirritaðra að það sé ekki gott veganesti inn í sameiningarviðræður þessara sveitarfélaga,“ segir Á-listinn.