fbpx
Fimmtudagur 26.desember 2024
EyjanFastir pennar

Sigmundur Ernir skrifar: Drög að ferðamannamengun

Eyjan
Laugardaginn 8. júní 2024 14:30

Sigmundur Ernir Rúnarsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er í sjálfu sér umhugsunarvert að okrið á Íslandi skuli vera helsti bjargvættur íslenskrar ferðaþjónustu. Það kemur í veg fyrir að ferðamannastraumurinn hingað til lands verði innviðunum ofviða og eyðileggi orðspor greinarinnar um óspillta náttúru og einstaka upplifun í einu fámennasta landi heims.

Það er álit flestra sem gerst þekkja til þessa málaflokks að dýrtíðin á Íslandi haldi nú aftur af frekari ásókn útlendinga til Íslands. Þeim ofbýður hreinlega að borga þúsund krónur fyrir kaffibollann og tvö hundruð krónum betur fyrir lítið krossant með osti og skinku. Það á að heita næstum 2500 krónur fyrir smáræði á kaffihúsi. Það eru 17 evrur!

Og annað er eftir þessu, ekki síst hvað gistinguna varðar, en erlendir ferðamenn með meðaltekjur hafa ekki lengur efni á því að halla höfði sínu hérlendis yfir sumarmánuði, slík og þvílík sem verðbólgan er hlaupin í sængurfötin.

En kannski er þetta það sem þurfti til. Því það er ferðaþjónustunni hollt að hægja á sér eftir ævintýralegan uppgang frá því Eyjafjallajökull kom Íslandi svo eftirminnilega á kortið fyrir bráðum hálfum öðrum áratug, en línuritin hafa verið lóðrétt upp á við frá þeim tíma.

Það er engri atvinnugrein hollt að glíma við ofvöxt. Og allra síst þegar sú hin sama er jafn háð ógleymanlegri náttúruupplifun og gæðum verslunar og þjónustu og ferðaþjónustan er. Þá er viturlegt að uppbygging ferðamannastaða sé í eðlilegum takti við þann fjölda sem sækir þá heim. Og sú framkvæmd öll verður ekki svo auðveldlega hrist fram úr erminni, enda þarf að ganga hægt um paradísanna dyr, svo ekki séu unnin óafturkræf spjöll á helstu kenjum og undrum íslenskrar náttúru.

„ … það er ferðaþjónustunni hollt að hægja á sér eftir ævintýralegan uppgang frá því Eyjafjallajökull kom Íslandi svo eftirminnilega á kortið.“

Þá má heldur ekki gleyma því að það hefur gengið erfiðlega að manna greinina, sem að meginhluta notast við erlenda starfskrafta sem þekkja margir hverjir lítt til aðstæðna hér á landi. Og það er ekkert endilega góð auglýsing fyrir land og þjóð ef þeir sem spurðir eru um náttúru, menningu og sögu landsins, svo og sérstöðu þess að öðru leyti, kunna ekki einu sinni svarið á bjagaðri ensku sinni.

En ferðaþjónustan harmar samt sinn hlut um þessar mundir. Ofvöxturinn er ekki sá sami og áður. Það verður ekki lengur hægt að troðfylla þjónustuhúsin við Þingvelli, Geysi og Gullfoss í sumar, en þess í stað verða þau aðeins full.

En þetta er einmitt atvinnugreinin sem verður að kunna sé hóf, svo hún spilli ekki fyrir sjálfri sér með græðgi, slælegri þjónustu og fráhrindandi ferðamannamengun á fjölsóttustu áfangastöðunum.

Það mun hafa verið árið 1987 sem erlendir ferðamenn fóru í fyrsta skipti yfir hundrað þúsund á einu ári. Þeim hafði þá fjölgað um 16% á milli ára, úr rösklega 97 þúsund árið áður í rífa 113 þúsund árið eftir. Eftir Eyjafjallagosið 2011 streymdu 100 þúsund erlendir ferðamenn til Íslands í hverjum einasta sumarmánuði. Á síðasta ári voru gistinætur erlendra ferðamanna yfir 550 þúsund í maí, einum mánaða. Aukningin frá árinu áður var 26 prósent.

Náttúrunnar vegna verða landsmenn að kunna sér hóf í þessum efnum. Fyrir nú utan hitt að Ísland má ekki verða að kjánahrolli í augum útlendinga sem sjá ekki landið fyrir hnakkanum á næsta manni. Og það er ekki allt fengið, endalaust, með því að okra á útlendingum, og senda þá svo blanka heim.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Ágúst Borgþór skrifar: Meiri starfslaun, takk!

Ágúst Borgþór skrifar: Meiri starfslaun, takk!
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Frá jöðrunum inn á miðjuna

Þorsteinn Pálsson skrifar: Frá jöðrunum inn á miðjuna
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum
EyjanFastir pennar
17.11.2024

Vandamál okkar eru léttvæg

Vandamál okkar eru léttvæg
EyjanFastir pennar
16.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Eldræður

Óttar Guðmundsson skrifar: Eldræður
EyjanFastir pennar
09.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Sérfræðingar í málefnum Bandaríkjanna

Óttar Guðmundsson skrifar: Sérfræðingar í málefnum Bandaríkjanna
EyjanFastir pennar
08.11.2024

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?