fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
EyjanFastir pennar

Steinunn Ólína skrifar: Verðmætamatið

Eyjan
Föstudaginn 7. júní 2024 10:00

Steinunn Ólína leikkona.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þar sem ég beið í röð á kaffiteríunni á Keflavíkurflugvelli í gær innan um aragrúa ferðafólks fylgdist ég með fjögurra manna fjölskyldu sem greinilega var langþreytt af ferðalögum. Foreldrarnir voru að leita sér að einhverju æti fyrir fjölskylduna en gátu ekki orðið við óskum barna sinna sökum dýrtíðar. Íslendingar eru góðir gestgjafar en þeir sem eiga og ráða í okkar landi eru það hins vegar ekki. Hjá því fólki gengur rekstur aðeins út á það að fá mikið fyrir lítið.

Jóhannes Skúlason talsmaður ferðaþjónustunnar segir fækkun ferðamanna í ár liggja fyrir en hverju sætir?

Það vitum við vel og skömmumst okkar fyrir, því það hefur breiðst hratt út um heiminn að Íslendingar geri allt til að hafa ferðamenn að féþúfu. En þannig er þjóðin ekki innstillt í raun. Þetta er hins vegar það siðferði sem stjórnvöld hafa boðað og það atvinnuumhverfi sem ferðaþjónustunni býðst og þeim fyrirtækjum sem þjónusta ferðafólk svo sem eins og kaffi- og veitingahúsum sem mörg hver berast nú í bökkum.

Hugsið ykkur ef við hefðum nú farið öðruvísi að áður en Ísland var sett á kortið af gróðahugsjón einni með stjórnlausri og smekklausri auglýsingamennsku en engri fyrirhyggju? Hvað við hefðum getað skapað okkur mikla sérstöðu sem einstakur ferðamannastaður í veröld þar sem hið almenna breiðist út eins og faraldur en hið einstaka og sérstaka er á undanhaldi.

Hugsið ykkur ef ríkisstjórnin, reynslunni ríkari eftir fyrstu ferðamannaflóðin, hefði nýtt Covid til gagngerrar endurskoðunar. Uppbyggingar innviða á fallegustu og vinsælustu ferðamannastöðum landsins.

Hugsið ykkur ef ríkisstjórnin hefði kallað til okkar fremsta fræða- og leiðsögufólk svo við hefðum getað fyrirbyggt jarðrask og átroðning. Og skapað falleg atvinnutækifæri á fleiri svæðum landsins þar sem nú liggja fyrir glórulaus náttúruspjöll.

Hugsið ykkur ef við hefðum byggt göngustíga, aðstöðu, merkingar og þjónustumiðstöðvar með einvala heimamenntuðu þjónustuliði svo allt væri hér klárt þegar veraldarferðalangar færu að sækja landið aftur heim.

Hugsið ykkur ef stjórnvöld hefðu stutt við lítil fyrirtæki sem voru af hugviti að skapa eitthvað sérstakt og fallegt sem hefðu getað orðið rósir í hnappagat þjóðar í stað þess að mylja aðeins undir stórfyrirtækin.

Nei, það var engin stemmning fyrir slíku. Því í stað þess að gera landi og þjóð til góða sat ríkisstjórnin á svikráðum við þjóð sína og undirbjó eyðileggingu og útsölu á auðlindum landsins. Dauð hönd hins keimlíka breiðist því yfir landið, eins og reyndar víða annars staðar á hnettinum. Hin andlausa hugsun að það sé bara best að allt sé eins, hvert á jörð sem farið er. Hótelin í höfuðborginni eru þannig að þau sem gætu verið hvar sem er í heiminum og nú er eignarhald þeirra reyndar að renna til erlendra aðila sem er alveg sama hvar á hnettinum þeir græða og hverjum þeir greiða lúsalaun. Af hverju erum við ekki að byggja upp okkar hótelbransa með einstökum byggingum, risatorfhúsum, hlöðnum veggjum, heitum lækjum, upp poppuðum eyðibýlum, hlöðugistingum, braggaráðstefnusölum? Breyta lítt nýttum kirkjujörðum í fjölskylduparadísir? Gera hlutina á sérstæðan en íslenskan máta? Bjóða eitthvað sem hvergi annars staðar finnst?

Það er lítill menningarbragur á því yfirbragði sem gróðahyggjan gefur og ferðamenn sem vafra um miðborgina velta því eflaust fyrir sér hvað þeir séu að gera hér. Coverbönd spila á börum, hljómsveitir sem heyra má hvar sem er á hnettinum. Fríverslunarsamningurinn við Kína skilar okkur plastdrasli sem enginn Íslendingur myndi svo mikið sem geyma í geymslum sínum og Íslendingar flýja miðborgina vega dýrtíðar og þess andleysis sem það hjartalausa skapar. Og allir veitingastaðir jafn rosalega yfir verðlagðir af illri nauðsyn þeirra sem búa í afleitu rekstrarumhverfi.

Af hverju franskt bakkelsi en ekki bara pönnsur og kleinur og ástarpungar?

Ef græðgin ræður för þá tapa allir. Við Íslendingar eigum ótrúlega mikið til af fallegu handverki sem við ættum að vera stolt af. Handverki sem hvergi er til nema hér. Mest er það reyndar nú aðeins á söfnum en nóg er að handverksfólki sem bæði kann og getur búið það til og þá auðvitað haft af því atvinnu.

Nágrannaþjóðir okkar sem við viljum miða okkur við þegar að hernaði kemur hafa á undanförnum árum lagt mikið undir til dæmis með námsleiðum til að halda í heiðri og vekja til lífs þau menningarverðmæti sem í handverki liggja. Handíðir og handverk er merkilegur hluti okkar menningarsögu og slíkir minjagripir gætu ólíkt glæpasagnaruslinu endað í hillum um allar jarðir til minningar um eyþjóð í norðri sem býr til dýrgripi sem hvergi eru fáanlegir annars staðar.

Myndlistarfólkið okkar og listamenn ættu að geta skapað sér nafn og grundvöll lífsviðurværis með sölu á verkum sínum til erlendra gesta ef ekki væri fyrir samkeppni við fjöldaframleitt Íslandsdrasl sem er gleðisnautt og alveg laust við andagift.

Við eigum afburða tónlistarfólk sem ætti að vera upptekið öll kvöld við spilamennsku sér til framdráttar og til kynningar á íslenskri tónlist og starfsumhverfi öldurhúsa á þá vegu að það væri auðvelt að ráða tónlistarfólk til starfa og greiða því mannsæmandi laun.

Stjórnvöld verða að gefa okkur tækifæri til að vera þeir skaparar sem við erum, styðja við það sem greinir okkur frá öðrum en steypir ekki öllu hér í erlent mót.

Leyfa okkur að búa til verðmætin sem skapað geta lífsviðurværi fyrir landsmenn.

Við eigum að vera stolt af okkar menningu. Framleiða okkar eigin varning og segja innflutta ruslinu stríð á hendur. Hættum að elta allstaðareins-ismann. Verum íslensk og verum stolt af því.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða þjóðin

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða þjóðin
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Sveifluríkið Ísland

Sigmundur Ernir skrifar: Sveifluríkið Ísland
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa
EyjanFastir pennar
19.10.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Fimmtugastaogfyrsta ríkið

Óttar Guðmundsson skrifar: Fimmtugastaogfyrsta ríkið
EyjanFastir pennar
18.10.2024

Steinunn Ólína skrifar og talar: Loftlausir hoppubelgir

Steinunn Ólína skrifar og talar: Loftlausir hoppubelgir
EyjanFastir pennar
11.10.2024

Svarthöfði skrifar: Eins og farsi eftir Dario Fo

Svarthöfði skrifar: Eins og farsi eftir Dario Fo
EyjanFastir pennar
11.10.2024

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd): Sameinumst – hjálpum þeim

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd): Sameinumst – hjálpum þeim