fbpx
Sunnudagur 05.janúar 2025
EyjanFastir pennar

Svarthöfði skrifar: Tvö skref til hægri og vinstri snú – list hins ómögulega

Svarthöfði
Miðvikudaginn 5. júní 2024 14:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Svarthöfði er áhugamaður mikill um íslensk stjórnmál og hefur raunar lengi verið. Jafnvel mætti segja hann vera eldri en tvævetur þegar að því kemur að rýna í og greina pólitíkina, sem löngum hefur verið kölluð list hins mögulega.

Og óneitanlega eru möguleikarnir nær óþrjótandi í pólitíkinni, eins og dæmin sanna. Ræður þar miklu hversu valkvætt minni kjósenda er, auk þess sem flokkshollusta hefur löngum verið slík að litlu máli skiptir hverja eða hvað stjórnmálaflokkarnir bjóða upp á hverju sinni. Ávallt mætir kjarnafylgið á kjörstað og setur krossinn á réttan stað.

Þegar núverandi ríkisstjórn var mynduð þótti sumum sem forystumenn ríkisstjórnarflokkanna væru komnir út á hálan ís; farnir að meðhöndla pólitíkina sem list hins ómögulega fremur en hins mögulega. Hvernig ættu Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri grænir, flokkarnir á andstæðum pólum hins pólitíska litrófs, að geta myndað starfhæfa ríkisstjórn?

Nú hefur þetta stjórnarsamstarf lifað í gegnum einar kosningar, í næstum sjö ár, og ekki verður betur séð en að forystumenn ríkisstjórnarflokkanna séu himinlifandi með samstarfið, telji það aldeilis hafa verið farsælt fyrir land og þjóð. Þeir benda á árangur stjórnarsamstarfsins: hagvöxtinn, verðbólguna, fjárlagahallann, vextina, ráðstöfunartekjurnar, heilbrigðiskerfið, velferðarkerfið, menntakerfið, útlendingamálin, orkuskiptin og innviðina. Þeir segja stöðuna á Íslandi hreint á heimsmælikvarða. Það má svo sem til sanns vegar færa, þótt Svarthöfði sé raunar þeirrar skoðunar að forystumenn ríkisstjórnarinnar misskilji mögulega formerki þess mælikvarða.

Forsætisráðherra ríkisstjórnarinnar, sem löngum hefur mælst vinsælasti stjórnmálamaður þjóðarinnar, fannst þessi árangur ríkisstjórnarinnar svo frábær að eðlilegt framhald sigurgöngunnar væri að gerast húsráðandi að Bessastöðum næstu 8-12 árin.

Forsætisráðherrann mátti hins vegar bíta í það súra epli að tapa með miklum mun í forsetakosningunum. Svarthöfði hyggur að flestir skýri það afdráttarlausa tap með því að kjósendur deili alls ekki hrifningu stjórnarherranna á afrekum ríkisstjórnarinnar, auk þess sem kosningaráttan, sem fyrrverandi forsætisráðherra lýsti sem „jákvæðri og heiðarlegri“, var þegar betur var að gáð hvorugt.

Strax eftir forsetakosningarnar birtist svo ný könnun á fylgi stjórnmálaflokkanna. Fylgi VG er komið niður í þrjú prósent og við búið að flokkurinn þurrkist af þingi. Báðir hinir stjórnarflokkarnir eru líka í sögulegu lágmarki og Svarthöfði fær ekki betur séð en að fylgi forsætisráðherrans fyrrverandi í forsetakosningunum sé áþekkt og samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna nú um mundir – nær því þó ekki alveg.

Viðbrögð formanns VG við þessari útþurrkun flokksins eru þau að nú þurfi að leita aftur í ræturnar og reka harða vinstri stefnu til að endurheimta fylgið. Fyrrverandi þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins skrifaði grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann lýsir því að viðbrögð Sjálfstæðisflokksins við fylgistapi hans eigi að vera að leita aftur í sjálfstæðisstefnuna – sem flokkurinn týndi fyrir margt löngu.

VG og Sjálfstæðisflokkurinn ætla sem sagt báðir að endurheimta traust kjósenda með því að skerpa á „grunngildum“ sínum. Grunngildi þessara samstarfsflokka í ríkisstjórn eru hins vegar með öllu ósamrýmanleg. Ekki verður betur séð en að VG og íhaldið boði nú að pólitíkin sé list hins ómögulega. Svarthöfði er spenntur að sjá hvernig þeim tekst að skerpa á andstæðum grunngildum sínum saman í ríkisstjórn. Kannski hann fái sér bara popp og kók og halli sér aftur til að fylgjast með.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Happdrættisvinningur

Óttar Guðmundsson skrifar: Happdrættisvinningur
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Bríet Ísis Elfar

Steinunn Ólína skrifar: Bríet Ísis Elfar
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Furðulegt kosningakerfi

Óttar Guðmundsson skrifar: Furðulegt kosningakerfi
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?
EyjanFastir pennar
27.11.2024

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum
EyjanFastir pennar
24.11.2024

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur
EyjanFastir pennar
19.11.2024

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?
EyjanFastir pennar
17.11.2024

Vandamál okkar eru léttvæg

Vandamál okkar eru léttvæg