Svarthöfði las fréttir af færslu nýráðins starfsmanns þingflokks Vinstri-grænna. Sá kom nýlega til starfa hjá örflokknum eftir að hafa yfirgefið hlýjan faðm Ríkisútvarpsins. Ekki ber á öðru en að starfsmanninum líki ekki nýja vistin enda bendir hann á að fylgi vinnuveitandans sé nær horfið og mælist nú varla ef marka má nýjan Þjóðarpúls Gallups.
Það er auðvitað bagalegt. Ekki síst þegar maður er nýkominn til starfa og þarf á því að halda að ekki sé uppnám í tilvist vinnuveitandans.
Í pistlinum bendir starfsmaðurinn á að allt sé þetta samstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn að kenna. Segir þar: „Þessu ríkisstjórnarsamstarfi hafa fylgt alls konar mis-kræsilegar málamiðlanir, varnir og yfirlýsingar vegna hinna og þessa mála. Og þau hafa alveg verið nokkur, málin, síðustu sex ár: Landsréttur, brottvísanir, Ásmundarsalur, dómsmál, þyrluferð, lögregluofbeldi, Samherji, bankasala og svo mætti lengi telja“.
Satt er það hjá starfsmanninum að upptalningin er ekki upplífgandi og notalegt að þurfa ekki að líta í eigin barm Vinstri-grænna – enda spretta þar blóm við hvert fótmál. Nægir að nefna hvalveiðar og orkuöflun landsins í því sambandi.
Í dagblöðum fortíðarinnar var vinsæll dálkur meðal smáauglýsinga sem nefndist „tapað-fundið“. Jafnan var þar auglýst eftir því sem tapast hafði, en ekki því sem hafði fundist.
Kannski væri rétt að endurvekja þann dálk. Hver veit nema tapað fylgi örflokksins finnist þar á ný.
Viðbrögð formanns Vinstri-grænna í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins við hvarfi fylgisins voru að nú þyrfti að fara í naflaskoðun.
Svarthöfði telur að sjaldan finnist í naflanum það sem leitað er að.