Afgerandi sigur Höllu Tómasdóttur í forsetakosningunum vekur verðskuldaða athygli. Flestar skoðanakannanir og margir álitsgjafar höfðu spáð fyrrverandi forsætisráðherra sigri, jafnvel öruggum sigri. En það var Halla Tómasdóttir sem kom, sá og sigraði að þessu sinni. Hún hlaut 34,3 prósent atkvæða, Katrín Jakobsdóttir fékk 25,2 prósent og Halla Hrund Logadóttir var með 15,5 prósent fylgi. Jón Gnarr var í fjórða sæti og Baldur Þórhallsson fimmti.
Orðið á götunni er að þessi niðurstaða sé mikið áfall fyrir ríkisstjórnarflokkana enda þykir fullvíst að allir núverandi ráðherrar hafi stutt Katrínu í kosningunum þótt þeir hafi fæstir lýst því yfir formlega. Aðstoðarmenn ráðherranna létu mikið fyrir sér fara og reyndar ýmsir aðrir úr þeirra nánasta umhverfi. Þá þótti framganga Morgunblaðsins vægast sagt mjög sérstök. Blaðið lagði helstu andstæðinga Katrínar Jakobsdóttur nánast í einelti með birtingu furðufrétta allt fram á síðasta dag. Lítið fór fyrir sómakennd þessa aldna miðils og enn minna fór fyrir árangri af árásum blaðsins í aðdraganda forsetakosninganna.
Athygli vakti hve margir þjóðþekktir menn létu til sín taka og hvöttu kjósendur eindregið til að styðja fyrrum forsætisráðherrann. Fólkið gerði lítið með hvatningu þeirra. Kjósendur völdu forsetann en ekki valdastéttin og valdastofnanir samfélagsins. Meðal þeirra sem gengu fram fyrir skjöldu og hvöttu til stuðnings við Katrínu voru fyrrum ráðherrar eins og Guðni Ágústsson, Steingrímur J. Sigfússon Össur Skarphéðinsson og Hjörleifur Guttormsson sem virðast ekki ná lengur til kjósenda, söngvarinn Bubbi Morthens, handlangarar úr skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins eins og Hannes Hólmsteinn Gissurarson, Brynjar Níelsson og Friðjón Friðjónsson en þeir virðast einungis hafa fælt frá. Embættismenn og kerfiskarlar voru einnig áberandi og fleiri mætti vitanlega nefna. En atbeini þessa fólks dugaði ekki til. Eftir stendur að traust kjósenda á ríkisstjórnarflokkunum og valdastofnunum hefur enn minnkað og var þó lítið fyrir.
Orðið á götunni er að næstu vikur og mánuðir verði ríkisstjórninni enn þyngri í skauti en verið hefur og vandséð hvort hún lifir af vaxandi mótlæti og ótvíræða niðurlægingu. Stóru fréttirnar eru þær að fólkið valdi forsetann með afgerandi hætti en lét ekki valdhroka, hégóma og yfirlæti valdastéttanna ráða för.
Að loknum þessum kosningum hljóta menn að spyrja margra spurninga varðandi framkvæmd skoðanakannana á Íslandi en við samanburð á niðurstöðum þeirra og sjálfra kosninganna verður ekki fram hjá því horft að skoðanakannanir í heild sinni fá falleinkunn. Þá er það mjög áleitin spurning hvort ekki á að banna skoðanakannanir í aðdraganda kosninga, helst í eina eða tvær vikur fyrir kjördag.
Orðið á götunni er að á næstunni verði fylgst vel með ýmsum af þeim frambjóðendum sem þóttu standa sig vel í kosningabaráttunni þó að þeir hefðu vafalaust vænst fleiri atkvæða. Þá er átt við Höllu Hrund Logadóttur, Jón Gnarr, Baldur Þórhallsson, Arnar Þór Jónsson og Steinunni Ólínu Þorsteinsdóttur. Öll gætu þau sómt sér vel í framboði til Alþingis, reynslunni ríkari eftir þá törn sem lauk síðustu nótt. Vafalaust leikur mörgum einnig forvitni á að vita hvað Katrín Jakobsdóttir muni taka sér fyrir hendur.