Trump dró ekki af sér þegar hann samþykkti að mæta Biden í kappræðum og skrifaði á Social Truth, sem er samfélagsmiðillinn sem hann á, að Biden sé „versti ræðumaðurinn sem ég hef nokkru sinni tekist á við“. „Hann getur ekki sett tvær setningar saman,“ skrifaði hann einnig.
Ummæli af þessu tagi frá Trump þurfa svo sem ekki að koma neinum á óvart, þetta eru týpísk Trump-ummæli en þau eru ekki sérstaklega snjöll að mati Mirco Reimer–Elster, sem er sérfræðingur í málefnum Bandaríkjanna.
Þegar hann ræddi þetta í umræðuþættinum „Kampen om USA“ á dönsku sjónvarpsstöðinni TV2 News sagði hann að Trump hafi í sífellu gert þau mistök að gera lítið úr Biden, talað hann niður í jörðina og þar með lækkað það viðmið sem áhorfendur setja sér um frammistöðu Biden.
Hann sagðist telja að endurtekin ummæli Trump um að Biden geti varla komið einni samhangandi setningu út úr sér, geti að lokum hjálpað Biden. „Ef þú segir: „Ég mæti afa, sem er andlega séð úti að aka“ og það muni koma á óvart ef honum tekst að komast upp á sviðið af sjálfsdáðum, þá ertu búinn að lækka væntingarnar til kappræðnanna mjög mikið,“ sagði Reimer–Elster.
Hann sagði þetta hugsanlega vera góð gjöf til Biden því margir Bandaríkjamenn muni horfa á kappræðurnar í þeirri trú að Biden geti ekki staðið sig vel í þeim. Þeir geti síðan orðið mjög hissa ef honum tekst að komast vel í gegnum tveggja klukkustunda kappræður.