fbpx
Þriðjudagur 05.nóvember 2024
Eyjan

Segir Morgunblaðið draga taum eins frambjóðenda – „Svona er á síld“

Ragna Gestsdóttir
Föstudaginn 31. maí 2024 16:16

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ekki er laust við að einhverjir hafi farið fullmikinn að undanförnu í glósum og glefsum vegna forsetakosninga, sumir jafnvel offari, sem er miður. En það er eins og gengur, pólitíkin er grimmt sport, skoðanir skiptar, mannskepnan misjöfn og kurteisi ekki öllum í blóð borin.

Katrín Jakobsdóttir hefur ekki farið varhluta af þessu. Það er skiljanlegt að ýmsum finnist bratt að stökkva á einni nóttu úr forsætisráðherrastóli yfir í forsetastól og gera þar með — í vissum skilningi — embættin tvö að einu og ríkisstjórnina sumpart alráða. Eðlilega mátti því búast við allnokkru andstreymi. En að sjálfsögðu á hún fullan rétt á að bjóða sig fram og leggja sjálfa sig í dóm kjósenda,“

segir Stefán Hilmarsson tónlistarmaður og kynningar- og miðlunarstjóri STEF í pistli á Vísi.

Segir hann þó fráleitt að allir séu óvildarmenn Katrínar. „Það virðist til dæmis augljóst — og ekki skrýtið — að Katrín nýtur stuðnings valdaafla og Morgunblaðið dregur hennar taum. Að sama skapi hefur sá miðill farið mikinn í að gera mótframbjóðendur tortryggilega, sér í lagi Höllu Hrund Logadóttur. Nú síðast með uppslætti um óleyfilega notkun stuðningsteymis á myndbroti, sem öllu sanngjörnu fólki má vera ljóst að er stormur í vatnsglasi, smávægileg yfirsjón, nokkuð sem lagfært var snarlega og um leið beðist velvirðingar.“

Sjá einnig: Halla Hrund birtir kvittun fyrir áskriftinni og biður Bjarka afsökunar á mannlegum mistökum

Stefán segir Morgunblaðið þó ekki hafa greint frá þeim málalokum. „Ekki frekar en þar sé minnst á sambærilegt glappaskot kynningardeildar Katrínar, sem á dögunum notfærði sér íslenskt sönglag í leyfisleysi, við lítinn fögnuð rétthafa.“ 

RÚV greindi frá því í frétt sinni í gær að kosningateymi Katrínar Jakobsdóttur hefði fjarlægt myndband af TikTok sem innihélt lag frá FM Belfast eftir að þeim barst til eyrna að meðlimur hljómsveitarinnar væri ósáttur við notkun lags hljómsveitarinnar.

„Morgunblaðið hefur heldur ekki enn minnst á það sem opinberaðist í kappræðum frambjóðenda í vikunni; þegar ekki færri en þrír greindu aðspurðir frá þrýstingi úr herbúðum Katrínar, með áeggjan um að draga framboð sín til baka, svo þeir skyggðu ekki á framboð hennar,“ segir Stefán og heldur áfram: 

„En „svona er á síld“, eins og segir í laginu. Ekki hefur Halla Hrund barmað sér undan smjörklípum Moggans né vænt nokkurn um einelti, heldur ber hún höfuð hátt og heldur göngu sinni áfram. „Þannig tel ég skylt að maður sé“, eins og Bastían söng.“

Stefán segir Íslendinga lánsama að hafa í framboði svo margt frambærilegt fólk og hann beri mikla virðingu fyrir þeim öllum. „Ég er hins vegar einarður stuðningsmaður hinnar snjöllu Höllu Hrundar og er þess fullviss að hún yrði frábær forseti, sem myndi auka okkur gleði, samkennd og bjartsýni.

Hún stæði vörð um lýðræðið, gildi okkar og menningu og yrði drjúgur liðsmaður almennings, jafnt í málefnum líðandi stundar og framtíðar, þar á meðal — og ekki síst — í orku- og auðlindamálum, sem eru hennar sérgrein og hjartans mál.

Ég þekki Höllu Hrund vel og veit hvaða góða mann hún hefur að geyma.

Að því sögðu, þakka ég öllum frambjóðendum fyrir að bjóða sig fram. Það þarf mikið hugrekki til að ganga inn í sviðsljósin og bera sálu sína fyrir alþjóð undir þessum formerkjum. Ég óska hverju og einu þeirra góðs gengis í hvaða hlutverkum sem þau koma til með að gegna á komandi árum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Jóhann Páll: Níu prósent stýrivextir jafngilda ofurskattheimtu á almenning á Íslandi í þágu bankanna

Jóhann Páll: Níu prósent stýrivextir jafngilda ofurskattheimtu á almenning á Íslandi í þágu bankanna
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Ásmundur Einar: „Borgartúnshægrið“ reyndi að hindra hlutdeildarlánin sem hafa heldur betur sannað gildi sitt

Ásmundur Einar: „Borgartúnshægrið“ reyndi að hindra hlutdeildarlánin sem hafa heldur betur sannað gildi sitt
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík suður: Dagur hefur komið inn í kosningabaráttuna af ákveðinni auðmýkt

Oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík suður: Dagur hefur komið inn í kosningabaráttuna af ákveðinni auðmýkt
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Baldur segir að áralöng herferð Morgunblaðsins hafi borið árangur – „Skála líklega í sérpöntuðu kampavíni af fögnuði“

Baldur segir að áralöng herferð Morgunblaðsins hafi borið árangur – „Skála líklega í sérpöntuðu kampavíni af fögnuði“