fbpx
Sunnudagur 26.janúar 2025
Eyjan

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Veiting stjórnarmyndunarumboðs – afgerandi vald forseta!

Eyjan
Fimmtudaginn 30. maí 2024 08:00

Ole Anton Bieltvedt.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kosið verður til Alþingis 2025. Það er algjörlega á valdi forseta, eftir hverjar Alþingiskosningar, hverjum hann veitir stjórnarmyndunarumboð. Þar gildir reyndar að nokkru hefð, en hún er óljós og hana getur forseti túlkað skv. eigin sjónarmiðum og mati.

Á stærsti flokkurinn, eða sá, sem sótti mest fram, að fá umboðið!? Eða, á eitthvað annað, kannske blanda atriða, að ráða!? Og, hvað, ef tveir flokkar eða þrír verða álíka stórir, eða virðast hafa svipaðan rétt til stjórnarmyndunarumboðs!?

Staðan eftir næstu kosningar

Ef Sjálfstæðisflokkur og Samfylking stæðu eftir kosningarnar 2025 uppi með ámóta fylgi, og Bjarni Benediktsson væri enn forsætisráðherra, hverjum ætti Katrín Jakobsdóttir, ef forseti væri, þá að veita stjórnarmyndunarumboð? Bjarna, gömlum og nánum samherja og vini, eða Kristrúnu Frostadóttur?

Líklegt er, að það þeirra, sem umboðið fengi, næði að mynda nýja stjórn og tryggja sér völdin til 4ra ára. Veiting stjórnarmyndunarumboðsins væri þannig afgerandi atriði, réði úrslitum um það, hver myndi ráða landinu næstu 4 árin. Þarna fer forseti í rauninni með risavald. 

Kjósendur almennt og greinendur virðist ekki hafa gert sér mikla grein fyrir þessari stöðu. Alla vega hef ég ekki séð umfjöllum um hana, og vildi því vekja athygli á þessum mikilvæga punkti, nú þegar menn gera endanlega upp hug sinn um það, hvern kjósa skuli sem forseta.

Væri Katrínu þarna treystandi, væri þarna sú armslengd til staðar, sem æskileg er? Þarna myndi ég treysta betur á annan, hlutlausan og óbundinn kandídat, sem sannað hefur fagleg vinnubrögð og stefnufestu í Orkustofnun, Höllu Hrund Logadóttur.

Önnur hlið á beinu valdi forseta, sem mikið er fjallað um og allir þekkja, er málskotsrétturinn; möguleiki og réttur forseta til að grípa inn í stjórnmálin, ef stjórnmálamenn vilja fara aðra leið, en þjóðin, eða, ef forsetinn metur það svo, að stefna stjórnmálamanna, í tilteknu máli, fari ekki saman við hagsmuni landsmanna. Þarna gildir auðvitað líka full þörf á hlutlægni, hlutleysi og málefnalegri afstöðu.

Staða stjórnmálaflokka og formanna þeirra

Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa lengi verið helztu stjórnmálaflokkar landsins, þó að Samfylkingin hafi sótt verulega í sig veðrið síðustu misseri. Formenn beggja flokka, Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi Jóhannsson, eru báðir tiltölulega ungir að árum, og er ekki ósennilegt, að þeir verði enn við stjórnvölinn næstu 8-12 árin. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, sem tók við forustu af Katrínu Jakobsdóttur hjá Vinstri grænum, er enn yngri.

Með þessum formönnum þessara þriggja flokka, tveggja þeirra þeir áhrifamestu í sögu lýðveldisins, hefur Katrín unnið mjög náið í 6-7 ár. Má ætla, að náin tengsl, trúnaður og vinátta, hafi myndast milli hennar og þessara félaga hennar. Sést það líka á öllum þeim miklu og margvíslegu málamiðlunum, hrossakaupum, sem þau hafa sætzt á, til þess aðallega, að því er virðist, að þau gætu haldið áfram sinni nánu samvinnu.

Hversu lengi skyldi nýr forseti sitja?

Margir kandídatar tala nú um tveggja til þriggja kjörtímabila setu, enda virðist sá tími hæfilegur. Eins og menn vita, situr t.a.m. forseti Bandaríkjanna í tvö slík kjörtímabil.

Ef Katrín Jakobsdóttir yrði kosin og sæti í tvö/þrjú kjörtímabil, er líklegt, að nefndir góðvinir hennar, fyrrum samherjar og mátar, Bjarni, Sigurður Ingi og Guðmundur Ingi, muni enn dómínera stjórnmálasviðið. Hvernig mætti Katrín þá rækja forsetaskyldur sínar af fullkomnu hlutleysi og út frá hlutlægni og málefnunum einum saman!? Samherja- og vinatengsl rista oft djúpt og hafa mikið um afstöðu til manna og málefna að segja.

Hvorri mætti betur treysta?

Katrín hefur nánast allan sinn ferill verið á bólakafi í stjórnmálum, þekkir varla neitt annað, og er þar í reynd marg- og rígbundin af sínu langa, nána og djúptæka samstarfi við, auðvitað, fyrst, Vinstri græna og svo Sjálfstæðisflokkinn og Framsókn. Halla Hrund, hins vegar, hefur unnið að margbreytilegum verkefnum í samstarfi við marga og ólíka aðila, innlenda og erlenda, er sjálfstæð og hlutlaus í þessum efnum – óháð öllum stjórnmálaöflum landsins – og stefnuföst ung kona.

Hvorri myndir þú treysta betur, kjósandi góður, til að beita þeim öflugu verkfærum, sem forsetaembættið býr yfir, af hlutleysi, hlutlægni og á frjálsum og óháðum forsendum? Mitt svar er: Halla Hrund!

Höfundur er samfélagsrýnir og dýraverndarsinni 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Tökum sénsinn í Seyðisfirði

Sigmundur Ernir skrifar: Tökum sénsinn í Seyðisfirði
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þorgerður Katrín: Gjaldmiðillinn verður að vera skjól fyrir heimili og atvinnulíf og gefa færi á því að blómstra

Þorgerður Katrín: Gjaldmiðillinn verður að vera skjól fyrir heimili og atvinnulíf og gefa færi á því að blómstra