Í sögu Alþingis eru fá orð fleygari en þessi:
„Svo líst mér sem málum vorum sé komið í ónýtt efni, ef eigi hafa ein lög allir, en ef sundur skipt er lögunum, þá mun og sundur skipt friðnum, og mun eigi við það mega búa.“
Þorgeir goði á Ljósavatni mælti á þennan veg þegar hann valdi milli kristni og heiðni á Lögbergi.
Forsætisráðherra sagði á dögunum að heimilin í landinu hefðu „sagt sig úr lögum við vaxtaákvarðanir Seðlabankans.“
Þótt vöxtum verði ekki jafnað til trúarbragða hafa þeir mikil áhrif í samfélaginu. Á skuldugum heimilum er líklega oftar talað um vexti en trú.
Seðlabankinn ákveður vexti fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Þótt forsætisráðherra upplifi það svo að heimilin hafi sagt sig úr lögum við þessar alltumvefjandi ákvarðanir er sennilega ofmælt að líkja þeirri háttsemi almennings við uppreisn eða friðslit.
En vel má ímynda sér að forsætisráðherra líði líkt og Þorgeiri goða: Að eigi megi við það búa.
Þegar forsætisráðherra talar um að heimilin segi sig úr lögum við vaxtaákvarðanir Seðlabankans horfir hann til þess að skuldug heimili velji fremur verðtryggð lán en óverðtryggð.
Það er rétt hjá forsætisráðherra að fyrir vikið virka ekki sem skyldi þær vaxtahækkanir, sem Seðlabankinn ákveður fyrir ríkisstjórnina.
En af hverju bannar forsætisráðherra þá ekki verðtryggingu og afnemur ógengisfellanlegu krónuna? Myndi það ekki leysa málið?
Klípan er að þá myndi greiðslubyrði heimilanna þyngjast í aðdraganda kosninga. Sparnaður myndi hrynja og bankarnir lenda í standandi vandræðum. Loks gæti lífeyrissjóðakerfið lamast.
Forsætisráðherrann er í blindgötu:
Hann getur ekki búið við það að heimilin færi sig yfir í verðtryggð lán því það kippir stoðunum undan peningapólitík hans. Hann getur ekki bannað heimilunum að taka þessi lán því það kippir stoðunum undan efnahagspólitík hans.
Forsætisráðherra er í þessari sjálfheldu vegna þess að þetta litla hagkerfi styðst við þrjú sjálfstæð myntkerfi.
Í fyrsta lagi er það gengisfellanlega krónan. Í öðru lagi er það ógengisfellanlega verðtryggða krónan. Í þriðja lagi eru það erlendu gjaldmiðlarnir, sem útflutningsfyrirtækin nota. Ekkert ríki, sem býr við markaðsbúskap, mismunar landsmönnum með jafn flóknu gjaldmiðlakerfi.
Þegar bæði heimilin og útflutningsfyrirtækin segja sig úr lögum við vaxtaákvarðanir Seðlabankans eru þær að sama skapi bitlausari í stríðinu við verðbólguna.
Á haftaárunum um miðbik síðustu aldar var fjölgengiskerfi, stundum með einu gengi fyrir þorsk, sem veiddur var í Húnaflóa og öðru fyrir þorsk úr Faxaflóa. Nú er fjölmyntakerfi með einu vaxtakerfi fyrir útflutningsgreinar, öðru fyrir íbúðakaupendur og því þriðja fyrir restina.
Þá voru gjaldeyrishöft á innflutning til að halda uppi verðgildi krónunnar. Nú eru gjaldeyrishöft á lífeyrissjóði til að halda uppi gengi krónunnar. Höftin nú jafngilda rúmlega heilli þjóðarframleiðslu. Þetta eru meiri gjaldeyrishöft en þekkjast í öðrum vestrænum ríkjum.
Þá komu til skjalanna frjálslyndir stjórnmálamenn, sem ákváðu að brjótast út úr höftunum og fjölgenginu með kerfisbreytingu og alþjóðlegu myntsamstarfi.
Nú er vandi þjóðarinnar sá að forsætisráðherra fær pólitískar kláðabólur þegar minnst er á frjálslyndar umbætur til að komast út úr fjölmyntakerfinu og gjaldeyrishöftunum í alþjóðlegu samstarfi.
Hvarvetna líta ríkisstjórnir svo á að aðskilnaðarstefna í gjaldmiðilsmálum eins og hér er rekin mismuni heimilum og fyrirtækjum og slíti sundur friðinn.
Hallur á Síðu lögsögumaður kristinna manna gaf Þorgeiri goða lögsögumanni heiðinna sjálfdæmi til að ákveða hvorn siðinn landsmenn skyldu hafa.
Hvernig ætli færi ef Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir leiðtogi frjálslyndra viðhorfa á Alþingi myndi gefa Bjarna Benediktssyni leiðtoga íhaldssamra viðhorfa sjálfdæmi um gjaldmiðil þar sem allri sætu við sama borð og hefðu jöfn tækifæri?
Með öðrum orðum: Féllist hann á að afnema fjölmyntakerfið og gjaldeyrishöftin fengi hann sjálfdæmi um það hvort allir Íslendingar, heimili jafnt sem útflutningsfyrirtæki, notuðu annað hvort gömlu gengisfellanlegu krónuna eða evru.
Myndi hann áræða að taka við sjálfdæminu?