Jón Gnarr er annar í röð forsetaframbjóðenda sem mætir í sjónvarpsviðtal við Ólaf Arnarson á Eyjunni í aðdraganda forsetakosninga. Jón segir frá því hvernig forseti hann verður, kemur með áhugaverðar hugmyndir um að breyta ásýnd embættisins, m.a. vill hann að forseti Íslands tali íslensku á hinu alþjóðlega sviði, Þetta stórkostlega tungumál verði fá að heyrast. Þá vill hann færa forsetann nær þjóðinni. Hægt er að horfa á þáttinn hér á Eyjunni, en einnig er hann aðgengilegur á Hringbrautarrásinni í Sjónvarpi Símans.
Hér má sjá stuttan bút úr þættinum:
„Ég myndi segja að ég væri meiri svona Kristján Eldjárn. Ég er gríðarlega hrifinn af Kristjáni Eldjárn, hans arfleifð, og finnst hann hafa verið þjóðlegur. Ég vil segja að ég myndi reyna að vera blanda af Kristjáni Eldjárn og frú Vigdísi Finnbogadóttur,“ segir Jón Gnarr þegar hann er spurður hvort hann sé meiri Guðni eða Ólafur Ragnar.
„En þetta að vinna inn á við, það eru t.d. ákveðnir hlutir sem ég er með hugmyndir um varðandi t.d. starf mitt sem forseti. Ég er oft spurður, muntu hætta að grínast ef þú verður forseti? Ég svara því neitandi, ég mun halda áfram að grínast og ég mun leyfa mér að grínast og þar get ég skoðað svolítið hvað Guðni hefur gert því að Guðni hefur vissulega náð að grínast svolítið, stundum,“ segir Jón. „Ég er fagmaður á því sviði,“ segir hann og skellir upp úr, „þannig að ég mun auðvitað reyna að gera það betur eða fyndnara þegar það á við.
Hér er þátturinn í heild:
Hann segist hafa hugmyndir um nýjungar. Hann sé með hugmyndir sem kunni að þurfa að fara í gegnum ákveðið ferli og jafnvel Alþingi. Jón rifjar upp að þegar hann var borgarstjóri flutti hann skrifstofu borgarstjóra tímabundið upp í Breiðholt eitt sumar til að vera í nánara sambandi við íbúana í Breiðholti vegna þess að honum hafi fundist íbúar Breiðholts svolítið aðskildir frá íbúum Reykjavíkur.
„Ég er með hugmynd sem ég hef ekki einu sinni imprað á enn þá. Mig langar t.d. að skoða möguleikann á því að flytja aðsetur forseta Íslands tímabundið á hverju ári t.d. til Akureyrar. Ég var að vinna á Akureyri í vetur og mér fyndist það mjög áhugaverð pæling ef forsetinn gæti, ef það gengi vel, verið á Akureyri í einhvern tíma, ég veit ekki hversu langan tíma, þá mætti prófa að forsetinn færi eitthvað annað líka. Mér finnst þetta t.d. bara mjög spennandi hugmynd en ég veit ekki alveg hvernig hún er í útfærslu af því að það stendur í stjórnarskránni að forsetinn eigi að hafa aðsetur á Bessastöðum.“