fbpx
Fimmtudagur 21.nóvember 2024
EyjanFastir pennar

Sigmundur Ernir skrifar: Auðlindir í auðmannaþágu

Eyjan
Laugardaginn 4. maí 2024 14:45

Sigmundur Ernir Rúnarsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þær spurningar hafa vaknað og ágerst á síðustu árum á hvaða vegferð Vinstri græn eru. Og það segir auðvitað sína sögu í þeim efnum að fyrrverandi ráðherra og löngum þungavigtarmaður flokksins, Ögmundur Jónasson, skuli hafa komist á þeirri persónulegu niðurstöðu að VG þekki ekki lengur uppruna sinn og erindi í pólitík, því hvorki væri hann lengur vinstri né grænn.

Og nú hafa leifarnar af þessum meinta og róttæka umhverfisverndarflokki trommað upp með harla furðulegt frumvarp um lagareldi sem jafnvel örgustu hægrimönnum, gráum fyrir járnum, hefði ekki dottið til hugar að bræða saman í bakherbergjum sínum.

Því þar er kveðið á um auðlindir í auðmannaþágu.

Gildir einu þótt líffræðingar og landverndarfólk gjaldi varhug við áformunum, því ráðherrar vinstri grænna sjá ekkert að því – og öðruvísi manni áður brá – að fórna fjörðum landsins og strandmenningu fyrir markaðsráðandi öfl.

En alvarleikinn er þó sýnu meiri, því með þeim óskapnaði sem frumvarpið lítur út fyrir að vera, er framsal auðlinda til einkaaðila að ná nýjum hæðum – og ekki bara í billegum fjörðum, heldur ókeypis.

Það er eins og höfundar arðránsins hafi ekkert lært af óförum íslenskrar þjóðar úti á meðal fiskistofnanna í sjónum sem eru orðnir erfðagóss útvalinna hér á landi, sem gjalda fyrir aðganginn að auðlegðinni með skitinni skiptimynt. Og hnípin þjóðin horfir fram á þennan óafturkræfa óskunda.

„Það á með öðrum orðum að taka af allan vafa um að náttúruauðævi landsins séu einkavæðingarvæn.“

En lengi getur vont versnað, því nú á að bjóða upp firði og flóa landsins. Og tónninn er sleginn hátt og skýrt: Umhverfisvernd skal lúta í gras fyrir sérhagsmunum erlendra auðmanna sem mega leika sér að vild í viðkvæmri íslenskri náttúru. Afleiðingarnar skrifast á reikning eftirlifenda, síðar á öldinni.

Og þar við bætist að dýravelferðarsjónarmið eru að engu höfð, þegar það liggur einmitt fyrir að sjókvíaeldi í opnum fjörðum á Íslandi er bæði vísasti vegurinn til að níðast á fiski og blanda honum saman við náttúrulega stofna í laxveiðiám landsins sem eru einstakir á heimsvísu.

Það er svo eftir öðru að ekkert er lært af mistökum nágrannaþjóða í þessum efnum, en að minnsta kosti í Noregi hafa menn séð að sér – og leyft náttúrunni að njóta vafans fremur en níðingsskap kvíakapítalsins.

Í Noregi eru leyfi til sjókvíaeldis nú boðin út til hæstbjóðenda og fyrir þau greiddar svo háar fjárhæðir að þær eru í einhverju samræmi við afnotin og umhverfislýtin. Á Íslandi eru leyfin aftur á móti ekki boðin út. Og það er auðvitað í anda gjafakvótaáráttunnar.

Frumvarp Vinstri grænna kveður einmitt á um að gera leyfin ótímabundin og endurgjaldslaus. Það á með öðrum orðum að taka af allan vafa um að náttúruauðæfi landsins séu einkavæðingarvæn.

Í nýjasta útboði á sjókvíaeldi í Noregi voru rösklega 8200 tonn boðin út og fékk ríkissjóður tæplega 19 milljarða íslenskra króna fyrir viðskiptin. Tilboðshafar voru margir og gerðu ekki athugasemdir við verðlagninguna. Og það er vitaskuld vegna þess að framlegðin er í fínasta lagi, þrátt fyrir gjaldið.

Vinstri grænir mælast nú með minna fylgi  en nokkru sinni. Þeir ná ekki lengur þingstyrk. Og það er ugglaust vegna þess að þeir kannast ekki lengur við sjálfa sig.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Lögmál um fylgisfall stjórnarflokka

Þorsteinn Pálsson skrifar: Lögmál um fylgisfall stjórnarflokka
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Hvað myndi fólk segja ef Kristrún væri karl og Dagur kona?

Svarthöfði skrifar: Hvað myndi fólk segja ef Kristrún væri karl og Dagur kona?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar og talar: Þetta er svo stórkostlega flott plan!

Steinunn Ólína skrifar og talar: Þetta er svo stórkostlega flott plan!
EyjanFastir pennar
18.10.2024

Steinunn Ólína skrifar og talar: Loftlausir hoppubelgir

Steinunn Ólína skrifar og talar: Loftlausir hoppubelgir
EyjanFastir pennar
17.10.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Besta ákvörðunin

Þorsteinn Pálsson skrifar: Besta ákvörðunin
EyjanFastir pennar
11.10.2024

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd): Sameinumst – hjálpum þeim

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd): Sameinumst – hjálpum þeim
EyjanFastir pennar
10.10.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Fyrstu framvirku stjórnarslitin

Þorsteinn Pálsson skrifar: Fyrstu framvirku stjórnarslitin