Töluvert hefur verið um að fjárfestar hafi fært sig af hlutabréfamarkaði inn á lóða- og fasteignamarkaðinn á undanförnum misserum og árum, enda hefur ávöxtun á fasteignamarkaði tekið ávöxtun á hlutabréfamarkaði langt fram. Snorri Jakobsson, hagfræðingur og eigandi Jakobsson Capital, segir að þegar saman komi hátt launastig, mikil hagvöxtur og ferðamannastraumur myndist gríðarlegur þrýstingur á fasteignaverð. Snorri er gestur Ólafs Arnarsonar í Markaðnum á Eyjunni.
„Ef við horfum á síðustu fimm ár þá hefur Úrvalsvísitalan hækkað nánast ekki neitt. Markaðurinn hér hefur bara verið miklu þyngri og það áhyggjuefni hve þátttaka almennings á hlutabréfamarkaði er lítil. Eins og aðstæður eru núna er mjög erfitt að selja hlutabréfamarkað vegna þess menn hafa fasteignamarkaðinn og segja, hann bara hækkar sama hvað. Og það hefur bara verið svoleiðis. Hann hefur hækkað sama hvað hefur verið í gangi,“ segir Snorri.
Hann minnist á að nýlega hafi verið fréttir af mótmælum á Kanarí gegn ferðamönnum. Sjá megi samlíkingar hér á landi og Snorri bendir á að þegar saman komi há laun, mikill hagvöxtur og síðan bætist ferðamannastraumur við, eins og hér á landi, þá verði þrýstingur á fasteigna- og lóðaverð gríðarlegur.
„Maður var farinn að sjá þetta strax 2016-17 að það vantaði verulega íbúðir, en það var ekki orðið vandamál þá. Svo fór þetta að verða vandamál hérna upp úr 2019-20, þegar vextirnir lækkuðu. Þá fór náttúrlega allt upp.“
Snorri segir Covid hækkunina á hlutabréfa markaði vera gengna til baka þannig að markaðurinn sé ekki nema 20-25 prósentum hærri en hann var fyrir fimm árum, sem sé ekki mikið. Hann bendir á að á móti komi að mikið af félögunum í Kauphöllinni séu arðgreiðslufélög og Úrvalsvísitalan leiðrétti ekki fyrir arðgreiðslum. „Svo er búið að vera lágt vaxtastig stóran hluta þessa tíma.“
Aðspurður hvort ekki sé líklegt að fjárfestar hafi fært sig af hlutabréfamarkaði yfir á fasteignamarkaðinn, segir Snorri: „Ég held að það sé alveg töluvert um það að menn hafi bara farið af hlutabréfamarkaðnum og inn á lóða- og fasteignamarkaðinn.“