fbpx
Þriðjudagur 28.janúar 2025
Eyjan

Thomas Möller skrifar: Ísland á heima í ESB

Eyjan
Þriðjudaginn 23. apríl 2024 06:00

Thomas Möller er varaþingmaður Viðreisnar í SV kjördæmi.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þegar skoðuð eru stærstu framfaraskref þjóðarinnar koma upp árin 1904 þegar við fengum heimastjórn, 1918 þegar Ísland varð fullvalda ríki, 1944  þegar lýðveldið Ísland var stofnað, 1949 þegar Alþingi samþykkti aðildina að NATO og 1970 þegar Ísland varð aðili að EFTA.

Eftir það var stærsta framfaraskrefið þann 1. janúar árið 1994 þegar Ísland gerðist aðili að EES, evrópska efnahagssvæðinu.

Af þessu sést að Ísland hefur alltaf hagnast á alþjóðasamvinnu.

Fram undan er ákvörðun um næsta stóra framfaraskrefið sem er full aðild Íslands að ESB.

Meirihluti þjóðarinnar vill þjóðaratkvæðagreiðslu og fleiri eru fylgjandi aðild en á móti samkvæmt nýlegri skoðanakönnun. Evru árin gætu því verið fram undan hjá þér

Rökin með fullri aðild Íslands eru sterk – skoðum það nánar

EFTA samningurinn opnaði flóðgáttir að viðskiptafrelsi og olli byltingu í atvinnulífinu á Íslandi. Með EES samningnum hófum Evrópusamvinnu og urðum hluti af um 500 milljón manna alþjóðlegum markaði.

Síðan hafa miklar framfarir átt sér stað hjá okkur. Við höfum með EES samningnum lagað okkur að skýrum kröfum um neytendavernd, samkeppni, umhverfisvernd, jafnrétti og viðskiptafrelsi. Hagkerfi okkar er orðið alþjóðlegt þar sem útflutningur á vörum og þjónustu skiptir miklu máli. Á sama tíma lentum við í neðsta sæti Norðurlandanna í samanburði OECD á samkeppnishæfni þjóða, sem eru vonbrigði. Fjölmörg tækifæri eru til að auka samkeppnishæfni landsins okkar. Eitt þeirra er full aðild að ESB.

Gallinn við aðild okkar að EES er sá að við höfum lítil áhrif á ákvarðanir ESB sem við tökum upp sem reglugerðir og lög. Þrátt fyrir marga kosti þá höfum við í raun afsalað okkar fullveldi að hluta til með þessum samningi.

Með fullri aðild Íslands að ESB mun þjóðin auka sitt stjórnunarlega sjálfstæði en landið mun fá sex þingmenn á Evrópuþinginu, aðild að ráðherraráði ESB, auk fulltrúa í framkvæmdastjórn ESB og öllum öðrum stofnunum Evrópusambandsins.

Við munum þannig með fullri aðild hafa áhrif á ákvörðunartöku Evrópuþingsins og því styrkja fullveldi landsins umtalsvert.

Efnahagslegt sjálfstæði mun einnig aukast verulega þar sem hár vaxtakostnaður krónunnar mun heyra sögunni til og lækka verulega eftir upptöku evru á Íslandi eins og hefur gerst hjá þeim aðildarríkjum ESB sem hafa tekið upp evru eins og til dæmis Eystrasaltslöndunum.

Vextir á Íslandi eru í dag allt að þrisvar sinnum hærri en í evruríkjum. Þessu veldur „krónuálagið“ sem þarf að greiða fyrir notkun á þessum smæsta gjaldmiðli í heiminum. Krónan tryggir að engin alþjóðleg samkeppni ríkir í landinu okkar á sviði bankarekstrar og trygginga. Hún krefst rándýrs gjaldeyrisvarasjóðs sem væri óþarfur með evru sem gjaldmiðil.

Krónan kostar þjóðina um einn milljarð á dag, alla daga ársins í hærri vaxtakostnaði og viðskiptakostnaði heimila, fyrirtækja og hins opinbera. Þó ekki hjá þeim um 250 fyrirtækjum sem eru þegar hætt notkun krónunnar og hafa tekið upp erlenda gjaldmiðla í uppgjörum sínum.

Með fullri aðild munu kosnir Evrópuþingmenn Íslands vera í meirihlutahópi þingsins innan um þingmenn hófsamra hægri flokka, bandalags sósíaldemókrata auk frjálslyndra lýðræðisflokka.  Þessi hópur á Evrópuþinginu aðhyllist velferðarstefnu, markaðslausnir, samkeppni, jafnrétti, neytendahagsmuni og umhverfisvernd.

Þannig verðum við Íslendingar í raun í meirihlutahópi þingsins eftir að full aðild hefur orðið að veruleika.

Við erum 90% inni í ESB

Skrefið úr EES í fulla aðild að ESB er einfalt og hagkvæmt fyrir okkur, eflir fullveldi okkar og gerir okkur að fullgildum þátttakendum í Evrópusamstarfinu.

Um 90% alla tilskipana og reglna ESB eru teknar upp hjá okkur án þess að við tökum þátt í sköpun þeirra. Með fullri aðild að ESB munum við hafa mikilvæg áhrif á ákvarðanir ESB gegnum okkar fulltrúa.

Þegar við áttum í samningaviðræðum við ESB var búið að semja um 90% af málefnum samningsins, aðeins átti eftir að ljúka við sjávarútvegs- og landbúnaðarkaflana. Þeir eru auðsemjanlegir enda tryggja reglur ESB okkur full yfirráð yfir fiskimiðum okkar og orkuauðlindum og bændur munu fá ríflegan stuðning frá ESB við jarðrækt og umhverfisverkefni.

Kostir aðildar eru yfirgnæfandi

Með fullri aðild geta íslensk fyrirtæki stundað starfsemi sína hindrunarlaust innan ESB. Sjávarútvegur og landbúnaður fengju tollfrjálsan aðgang að markaði þar sem um 500 milljónir búa.

Unga fólkið okkar fær betri tækifæri til að eignast sitt húsnæði með allt að þrefalt lægri húsnæðisvöxtum. Það fær einnig aukin tækifæri til að afla sér menntunar og starfa í öllum ríkjum ESB. Full aðild tryggir að íslenskir háskólar geti óhindrað tekið þátt í rannsóknarverkefnum.

ESB samningur tryggir að öll íslensk fyrirtæki starfa samkvæmt sömu reglum og öll fyrirtæki innan ESB. Í dag vantar mikið upp á slíkt og má líkja því við það ef annað liðið í knattspyrnuleik yrði að leika eftir óhagstæðari leikreglum en hitt liðið með tilheyrandi mismunun.

Evrópusambandið er samvinnuhreyfing sem byggir á samstarfi samkvæmt sömu reglum, stuðningi við aðildarlöndin við uppbyggingu innviða svo sem vegakerfis og fráveitukerfa.

ESB er mikilvægur hlekkur í varnar- og öryggismálum enda hefur sambandið verið lykilaðili við stuðning við Úkraínu í stríðinu við Rússa. Innrás Rússa í Úkraínu hefur þjappað Evrópuþjóðunum saman undir merkjum ESB.

ESB er samtryggingarfélag sem aðstoðar þjóðir sem þurfa fjárhagsaðstoð í kjölfar náttúruhamfara. Í ESB eru öflugir uppbyggingarsjóðir sem styðja lönd sem lenda í hamförum svo sem jarðskjálftum, skógareldum og flóðum. Fullvíst má telja að við fengjum ríflegan stuðning frá ESB vegna hamfaranna í Grindavík.

Með aðild að ESB er leiðin að upptöku evru auðveld. Hún tryggir stöðugt gengi, lága vexti og styður við það stóra verkefni að ná verðbólgunni niður en verðbólga á evrusvæðinu eru nú komin niður í um 2,4%

Íslandi er best borgið innan ESB

Til þess að taka upp evru þurfum við að klára aðildarviðræðurnar og ganga í ESB.

Ríkisstjórnarflokkarnir segja að „hagsmunum Íslands sé best borgið utan ESB“.

Engin greining um þetta stóra mál hefur verið gerð. Þessu er bara slegið fram án röksemda og er hvergi að finna gögn eða greiningar sem komast að þessari niðurstöðu.

Með aðild að ESB fengjum við evru með tilheyrandi stöðugleika, vaxtalækkun, erlendum fjárfestingum  og aukinni samkeppni í bankastarfsemi og tryggingum á Íslandi. Þannig getum við látið okkur hlakka til evru-áranna sem eru fram undan.

Viðreisn er eini flokkurinn á Alþingi sem hefur það sem forgangsmál á stefnuskrá sinni að ljúka aðildarviðræðum við ESB og taka upp evru í framhaldinu.

Höfundur er Thomas Möller varaþingmaður Viðreisnar í SV kjördæmi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Eldhugur í nýrri framkvæmdastjórn ESB – litlu ríkin í stórum hlutverkum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Eldhugur í nýrri framkvæmdastjórn ESB – litlu ríkin í stórum hlutverkum
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Trump dregur Bandaríkin út úr WHO og opnar dyrnar fyrir ráðherra með klikkaða kórónuveirukenningu

Trump dregur Bandaríkin út úr WHO og opnar dyrnar fyrir ráðherra með klikkaða kórónuveirukenningu