Í umræðum um störf þingsins í dag gagnrýndi Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, ríkisstjórnina harðlega fyrir að hafa ekki gengið í að breyta úreltu regluverki um innheimtu smálána. Sagði hann Ísland vera kjörlendi fyrir smálánafyrirtæki sem gerði „hákarlafyrirtækjum“ kleift að notfæra sér neyð fólks og græða á þeirri stöðu að fleiri og fleiri heimili hafi átt erfitt með að ná endum saman í tíð þessarar ríkisstjórnar.
„Ísland er kjörlendi fyrir smálánafyrirtæki sem notfæra sér neyð fólks, sem notfæra sér og græða á þeirri stöðu að fleiri og fleiri heimili hafa átt erfitt með að ná endum saman í tíð þessarar ríkisstjórnar sem hefur misst efnahagsmálin gersamlega úr höndunum á sér eins og kristallast í mikilli og þrálátri verðbólgu og hæstu vöxtum í hinum vestræna heimi. Þá grípur fólk til örþrifaráða og hákarlarnir notfæra sér það.“
Hann rifjaði upp að hér voru sett innheimtulög árið 2008 og í kjölfarið reglugerð um hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar. Þetta hafi verið mikilvæg skref í rétta átt, en þessar reglur séu komnar til ára sinna og þær dugi ekki til að verja neytendur gegn ósanngjörnum innheimtuaðferðum og smálánafyrirtækin komist auðveldlega í kringum þær.
„Segjum að einstaklingur taki 60.000 kr. lán. Fyrirtækið getur skipt slíkri kröfu upp í fimm sjálfstæðar kröfur, rukkað svo fyrir sendingu á innheimtubréfi fyrir hverja einustu kröfu, og svo fyrir sendingu milliinnheimtubréfs fyrir hverja kröfu, svo er rukkað fyrir símtal vegna hverrar einustu kröfu, og fyrir skriflegt samkomulag um greiðslu á hverri kröfu – og ef krafan endar svo í löginnheimtu þá bætast tugir þúsunda við til viðbótar, þannig að hjá fólki í greiðsluerfiðleikum getur 60 þúsund króna lán endað með innheimtukostnaði upp á hátt í 200 þúsund krónur.
Og þetta lætur stjórnarmeirihlutinn hér á Alþingi viðgangast með úreltu regluverki sem verður að breyta, verður að breyta sem allra fyrst. Þess vegna hef ég lagt fram hér í annað sinn lagafrumvarp um að samanlagður kostnaður við frum-, milli- og löginnheimtu verði aldrei hærri en höfuðstóll kröfunnar sem er til innheimtu hverju sinni. Þetta eru breytingar sem Neytendasamtökin hafa lengi kallað eftir og í takti við reglur sem settar hafa verið í Svíþjóð og Danmörku. Ég trúi ekki öðru en að þingheimur geti sameinast um breytingar í þessa veru til að verja neytendur gegn lánahákörlum sem notfæra sér neyð fólks.“