Aðeins tólf dagar eru nú til stefnu þar til framboðsfrestur til embættis forseta Íslands rennur út þann 26. apríl næstkomandi. Alls hafa 80 Íslendingar stofnað rafrænar meðmælaskrár en telja má líklegt að aðeins lítill hluti þeirra nái að safna meðmælendunum 1.500 sem þörf er á.
Skoðanakannanir undanfarna daga benda til þess að Katrín Jakobsdóttir, Baldur Þórhallsson og Jón Gnarr beri höfuð og herðar yfir aðra frambjóðendur hvað fylgi varðar á þessum tímapunkti. Aðrir frambjóðendur á borð við Höllu Tómasdóttur, Arnar Þór Jónsson og Höllu Hrund Logadóttur standa þeim nokkuð að baka og þurfa að fara að fá vind í seglinn ef þau ætla að gera atlögu að þremenningunum.
Í síðustu forsetakönnun DV hafði Baldur Þórhallsson nokkra yfirburði með 26% fylgi en næst kom Katrín Jakobsdóttir, sem þá hafði ekki lýst yfir framboði með 15% fylgi. Aðrir sem gerðu vel voru Arnar Þór Jónsson, Halla Tómasdóttir, Halla Hrund Logadóttir og sjálf ísdrottningin Ásdís Rán Gunnarsdóttir.
Kannanirnar eru til gamans gerðar og gefa í besta falli örlitla vísbendingu um vinsældir frambjóðendanna. Þeir frambjóðendur sem fá hins vegar lítið fylgi í þessum könnunum ættu sannarlega að horfa inn á við og meta hvort að baráttan sé ekki nú þegar töpuð.