fbpx
Þriðjudagur 05.nóvember 2024
Eyjan

Orðið á götunni: Fylgið minnkað um helming – 40 þúsund vantreysta Bjarna sem sætir afarkostum VG

Eyjan
Laugardaginn 13. apríl 2024 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Orðið á götunni er að þrátt fyrir digurbarkaleg orð verði Bjarni Benediktsson að horfast í augu við óbærilegar staðreyndir. Fjörutíuþúsund kjósendur hafa þegar lýst vantrausti á hann í undirskriftasöfnun, sem enn stendur yfir. Fylgi flokksins mælist nú 18 prósent í öllum könnunum, en það er helmingur af því sem Bjarni tók við þegar hann var kjörinn formaður. Þá situr Sjálfstæðisflokkurinn enn uppi með það að færa sósíalistum í Vinstri grænum mikil völd þrátt fyrir að ný ríkisstjórn hafi verið mynduð. Alla síðustu helgi gekk maður undir manns hönd að reyna að fá einhverja úr stjórnarandstöðunni til að stíga inn í ríkisstjórnina þannig að unnt yrði að ýta Vinstri grænum út. Enginn léði máls á því að taka þátt í rústabjörgun þessarar lifandi dauðu ríkisstjórnar. Þess vegna er nú lagt á djúpið með stöðugan ótta við að Svandís Svavarsdóttir og félagar muni sprengja ríkisstjórnina á ágreiningi fyrr en síðar.

Orðið á götunni er að það sé engan veginn nóg að smala saman dyggustu stuðningsmönnum flokksins til að flissa og klappa á fundi yfir yfirlýsingum Bjarna um að hans tími sé ekki búinn. Fjöldi flokksmanna Sjálfstæðisflokksins lítur þannig á að flokkurinn muni ekki bæta hag sinn fyrr en Bjarni víkur. Stjórnarandstæðingar vonast hins vegar eftir því að Bjarni sé ekki á förum enda mælist hann óvinsælasti stjórnmálamaður landsins um þessar mundir. Gott er að fást við þannig andstæðing.

Trúi Bjarni Benediktsson því að allt sé með felldu við þessar aðstæður þá byggist það á djúpri sjálfsblekkingu sem engum gagnast nema andstæðingum flokksins. Bjarni er ekki á förum – alla vega ekki strax. Enn stendur yfir dauðaleit að arftaka því að enginn virðist vera í sjónmáli sem er líklegur til að geta unnið tapað fylgi flokksins til baka.

Orðið á götunni er að Bjarni hafi með því að taka til sín embætti forsætisráðherra kallað fram upprifjanir á brösóttum ferli sínum sem leitt hefur til þess að menn leyfa sér að kalla hann „spilltasta og óvinsælasta stjórnmálamann sögunnar“. Það eru vitanlega stór orð, en margir telja að hann hefði betur látið fara lítið fyrir sér með því að sigla áfram í skjóli annars forsætisráðherra.

Ekki þarf að deila um óvinsældirnar meðal kjósenda. Tölur í öllum skoðanakönnunum tala sínu máli Vantraust á Bjarna mælist 71 prósent ,sem sumir tala um sem heimsmet. Bent er á að þegar Richard Nixon hrökklaðist frá embætti forseta Bandaríkjanna eftir Watergate-hneykslið hafi vantraust kjósenda í Bandaríkjunum ekki mælst eins mikið á Nixon og á Bjarna Benediktssyni um þessar mundir. Ekki er heldur unnt að gera lítið úr því að 40 þúsund kjósendur hafa þegar ritað nöfn sín undir vantraustsyfirlýsingu á Bjarna á rúmum tveimur sólarhringum. Þegar slíkt vantraust var samþykkt á Sigmund Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra árið 2016, undirrituðu 30 þúsund kjósendur vantraustsyfirlýsingu. Hann sagði þá af sér embætti forsætisráðherra.

Skiptar skoðanir eru vafalaust um það hve spilltur stjórnmálamaður Bjarni Benediktsson er. Vísir.is birti nýlega lista yfir sitthvað misjafnt sem Bjarni hefur staðið fyrir eða komið að fyrir sína hönd eða fjölskyldu sinnar. Þar kennir margra grasa, ekki síst frá átakatímunum í kringum bankahrunið árið 2008. Þá mun Bjarni hafa komið að ýmsum vafasömum gerningum sem gerðir voru til að bjarga verðmætum fjölskyldunnar með upplýsingum sem öðrum voru ekki tiltækar. Síðan eru taldir upp fjölmargir vafasamir atburðir frá ráðherratíma Bjarna sem of langt er að telja upp hér. Þeir gleymast samt ekki svo auðveldlega því að upplýsingar varðveitast einkar vel í nútímanum. Bjarni mun ekki geta látið eyða þeim þó að hann sé nú orðinn forsætisráðherra. Óorðið mun því miður loða við hann um ókomin ár.

Að sönnu var það ekki til að auka veg formanns Sjálfstæðisflokksins í fyrra haust þegar hann fékk alvarlega ofanígjöf frá Umboðsmanni Alþingis og hrökklaðist úr embætti fjármálaráðherra og flúði yfir í utanríkisráðuneytið. Það var neyðarlegt og mun ekki gleymast frekar en annað sem gott væri að eyða úr minni kjósenda.

Orðið á götunni er að nú taki alvaran við og sífellt erfiðara verði að halda lokinu á kraumandi potti ríkisstjórnarinnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Jóhann Páll: Níu prósent stýrivextir jafngilda ofurskattheimtu á almenning á Íslandi í þágu bankanna

Jóhann Páll: Níu prósent stýrivextir jafngilda ofurskattheimtu á almenning á Íslandi í þágu bankanna
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Ásmundur Einar: „Borgartúnshægrið“ reyndi að hindra hlutdeildarlánin sem hafa heldur betur sannað gildi sitt

Ásmundur Einar: „Borgartúnshægrið“ reyndi að hindra hlutdeildarlánin sem hafa heldur betur sannað gildi sitt
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík suður: Dagur hefur komið inn í kosningabaráttuna af ákveðinni auðmýkt

Oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík suður: Dagur hefur komið inn í kosningabaráttuna af ákveðinni auðmýkt
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Baldur segir að áralöng herferð Morgunblaðsins hafi borið árangur – „Skála líklega í sérpöntuðu kampavíni af fögnuði“

Baldur segir að áralöng herferð Morgunblaðsins hafi borið árangur – „Skála líklega í sérpöntuðu kampavíni af fögnuði“