fbpx
Föstudagur 15.nóvember 2024
Eyjan

Ásakanir um lýðskrum og óráðsíu gengu á víxl á fundi borgarstjórnar og spurt hvort enginn viti hversu margir milljarðar eru farnir

Erla Dóra Magnúsdóttir
Miðvikudaginn 10. apríl 2024 19:25

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Borgarstjórn samþykkti á fundi sínum í gær að vísa tillögu Flokks fólksins, um óháða úttekt á rekstri þjónustu- og nýsköpunarsviðs (ÞON), til meðferðar borgarráðs. Af umræðu fundarins um tillöguna mátti skýrt greina að mikil togstreita á sér stað innan borgarstjórnar um málefni sviðsins og ekki virðist vera hlaupið að því að segja hreint út berum orðum hvað þetta hafi kostað skattgreiðendur. 

Árið 2021 kynnti Reykjavíkurborg fjárfestingaráætlun tengdri svokölluðu Grænu plani sem er heildarstefna borgarinnar um fjármál og fjárfestingu til ársins 2030. Samhliða var tilkynnt að næstu 3 árin, eða til loka árs 2023, yrði 10 milljörðum varið í stafræna umbreytingu á þjónustu og starfsemi borgarinnar. Nokkru áður hafði borgin stofnað sérstakt svið  utan um upplýsingatækni, þjónustu- og nýsköpunarsvið, sem tók til starfa árið 2019.

Gagnrýnd fyrir að gagnrýna

Þetta fjárfestingaverkefni hefur sætt mikilli gagnrýni frá minnihlutanum í borginni, sem telur óskynsamlega farið með skattpeninga. Af fulltrúum minnihlutans hefur Flokkur fólksins gengið hvað harðast fram.

Varaborgarfulltrúi flokksins, Einar Sveinbjörn Guðmundsson, lagði í gær til að ráðist yrði í óháða úttekt. Hann sagði í ræðu sinni að nú ætti öllum að vera orðið ljóst að stafræn umbreyting hafi ekki staðist þær væntingar sem lagt var út með. Kostnaður vegna rekstur ÞON og verkefna sviðsins sé kominn langt út fyrir þá 10 milljarða sem lagt var upp með og fyrirséð að kostnaðurinn verði enn meiri enda eigi verkefnið langt í land. Þegar fulltrúar Flokks fólksins reyni að varpa ljósi á þessi mál þá sé brugðist ókvæða við.

„Bókstaflega allt notað til að reyna að þagga niður gagnrýni flokksins á framkvæmd og framvindu umbreytingar,“ sagði Einar og benti á að fyrir einhverja ástæðu hafi meirihlutinn ítrekað gagnrýnt Flokk fólksins fyrir „aðför“ að starfsfólki ÞON. Þetta sé fjarri lagi. Gagnrýnin lúti að stjórn sviðsins og ráðstöfun á skattfé borgarbúa. Nú sé verið að kenna Flokki fólksins um slæman starfsanda á ÞON, en Einar segir að sviðinu væri nær að líta í eigin barm. Hafi hann heimildir fyrir því að fyrirvaralausar brottvikningar séu tíðar á sviðinu og líklega hafi það heldur neikvæð áhrif á starfsanda. Einar segist hafa heimildir um að starfsmanni hafi verið sagt upp á Hrekkjavöku þegar allir starfsmenn höfðu mætt í vinnuna klæddir í grímubúning þar sem starfsmannagleði var fyrirhuguð.

„Hvernig haldið þið að það sé að vinna á vinnustað þar sem fyrirvaralaus brottrekstur vofir yfir starfsfólki sviðsins alla daga? Það þarf ekki diplómu gráðu í mannauðsstjórnun ti að gera sér grein fyrir því að það er eitthvað mikið og alvarlegt að varðandi mannauðsmál þessa sviðs – allavega hvað varðar þá áráttu að vera sífellt að ráða inn og reka fólk eins og um einhvers konar „nytjahluti“ sé um að ræða, sem ekkert mál sé að kasta burt hvenær sem er.“ 

Ætla að uppgötva og gera tilraunir með kort í síma

Gagnrýni Flokks fólksins snúist ekki um almenna starfsmenn ÞON, heldur stjórn og rekstur sviðsins svo ekki sé minnst á árangur þeirrar vinnu sem þar fer fram. Einar segir að svo virðist sem að eftirfylgni með verkefnum sé engin. Ekki liggi fyrir verkefnalisti sem kjörnir fulltrúar hafi aðgang að og geti séð hversu miklu fé hefur verið veitt í hvert verkefni og hver staða þess sé. Þessum upplýsingum hafi Flokkur fólksins reynt að kalla eftir, en svör verið ófullnægjandi.  Það sé svo að almennir borgarar geti með engu móti áttað sig á því hver raunveruleg staða stafrænnar umbreytingar sé, eða hversu miklum peningum hafi verið varið í hana.

„Fyrir stuttu síðan var sviðið að fá töluverða fjármuni í að hefja frumrannsóknir á því hvort hægt sé að koma tveimur plastkortum Reykjavíkurborgar – Menningarkoti og sundkorti – rafrænt í síma. Í greinargerð með umsókninni kemur fram að hluti að þessari rannsóknarvinu sé að leggjast í víðtæk notendaviðtöl áður en farið verður með verkefnið í uppgötvunar og tilraunarfasa. Hvernig stendur á því að svona verklag sé viðhaft árið 2024? Það er ekkert hér sem þarf að rannsaka – það eru allir komnir með plastkort í rafrænt form – nafnskírteini er komið í síma, bankakort, bensínkort, Costco kort og alls kyns önnur kort eru nú þegar komin í síma. Það þarf bara að kaupa lausnina sem er löngu tilbúin.  Sama var í gangi hjá sviðinu varðandi rafrænar undirskriftir á sínum tíma svo eitthvað sé nefnt.“ 

Mörg svör en fá orð

Áður hefur verið greint frá því að meirihlutinn virðist hafa misst þolinmæðina fyrir gagnrýni Flokks fólksins og þeim fjölmörgu fyrirspurnum sem flokkurinn sendi til ÞON um starfsemina. Á fundi forsætisnefndar á föstudag bókaði meirihlutinn að fyrirspurnir til ÞON hafi skapað mikið álag og kallað á mikla vinnu við svörun sem sé að hafa áhrif á eðlilega starfsemi sviðsins. Sérstaklega þegar um endurtekningar sé að ræða. Orðalag fyrirspurna og dylgjur sem þar sé stundum að finna um fagmennsku eða heiðarleika starfsfólks hafi mælanleg áhrif á starfsanda og fæli fólk frá því að sækjast eftir vinnu hjá borginni.

Helst hafa fyrirspurnir verið lagðar fram í Stafrænu ráði borgarinnar. Í fundargerð ráðsins frá 13. mars má finna svar ÞON við fjölda fyrirspurna sem og nokkurn fjölda nýrra sem var lagður fram á fundi. Ekki er að sjá mikill tími hafi farið í svörin, í það minnsta ekki öll þeirra. Eitt svarið er til dæmis nokkuð stutt, eða orðrétt: „Já“.  Alls voru á fundinum lögð fram svör við 8 fyrirspurnum, en samanlagt voru svörin tæp 800 orð á lengd. Skrifstofustjóri svaraði einni fyrirspurn, fjármálastjóri einni og rest svaraði sviðsstjóri.

Frekar ætti að hrósa en lasta

Eftir að Einar Sveinbjörn hafði lokið máli sínu var tími kominn á umræður. Fulltrúar meirihlutans kölluðu aðför Flokks fólksins að heilu sviði til skammar. Kristinn Jón Ólafsson, borgarfulltrúi Pírata, sagði að hér væri verið að tala niður mikil framfaraskref sem hafi átt sér stað í stafrænum innviðum og þekkingu innan borgarinnar, sem sé fremst allra sveitarfélaga á þeirri vegferð á landsvísu. Starfsmenn ÞON ættu frekar skilið hrós en last og borgarfulltrúar Flokks fólksins ættu að kynna sér notendamiðaða hönnun og spurði Kristinn Jón hvort Einar væri mótfallinn því að Reykjavík noti notendamiðaða hönnun líkt og fremstu borgir heimsins í stafrænni vegferð, líklega átti Kristinn Jón við þjónustumiðaða hönnun, en slík nálgun er í forgrunni stafrænnar umbreytingar borgarinnar. Kristinn tók eins fram að hann þekki vel til á ÞON og það sé raunverulega staðan þar í dag að fyrirspurnaflóð og gagnrýni Flokks fólksins sé að hafa slæm áhrif á móral.

„Ég er nú í góðu sambandi við marga starfsmenn sviðsins og er sjálfur fyrrverandi starfsmaður og þekki vel til. Ég get bara sagt þér það hreint út og hreinskilið að þetta er að hafa áhrif hvernig er talað um starfsemina og það er ekki gott. Við viljum ýta undir kjark og þor starfsfólks í að leiða okkur inn í nýja tíma.“

Greiningarvinna fyrir hendi

Alexandra Briem, borgarfulltrúi Pírata, vísaði til þess að nýlega hafi ítarlega verið rakið hvaða árangur hafi náðst í stafrænni umbreytingu. Umbreytingin sé stafræn en þó í kjarnann þjónustubreyting þar sem ferlar eru endurhannaðir út frá þörfum notenda og fundnar leiðir til að eyða flöskuhálsum og breyta menningu. Þegar svið ÞON var stofnað hafi Capacent verið fengið til að ráðst í greiningu á rekstri upplýsingatækniþjónustu borgarinnar og þær ábendingar sem þar bárust hafðar í forgrunni þegar starfsemi sviðsins fór að stað. Úttektaraðilinn Intenta hafi svo greint við lok árs 2022 hvar borgin væri stödd á stafrænni vegferð sinni.

„Það er í skoðun núna hjá innri endurskoðun að í næstu endurskoðunaráætlun verði ráðist í úttekt á stafrænni umbreytingu borgarinnar,“ sagði Alexandra og tók fram að verði það niðurstaðan þá fagni hún því, en hún hafi ekkert um það að segja hvað innri endurskoðun taki fyrir eða ekki. Staðan sé í dag allt önnur heldur en þegar ÞON tók fyrst til starfa. Þá hafi fólk ekki vitað nákvæmlega hvað það væri að gera og þurft að læra það á hlaupum á meðan þekkingar og reynslu var aflað.

Lýðskrum og óheiðarleg aðför

„Ég er orðin ansi leið á þessum endalausa ágangi fulltrúa Flokks fólksins gagnvart þessu sviði. Það er óverðskuldað og hefur beinlínis valdið skaða á starfsanda og möguleikum til ráðninga, ég haf það bara beint frá starfsfólki,“ sagði Alexandra ennfremur og tók fram að ÞON hafi komið gífurlega vel út í starfsánægjukönnun, en það sem helst hafi borið af varðaði orðspor sviðsins sem sé bein afleiðing af fjölmiðlaumfjöllun. Vissulega beri kjörnum fulltrúum að hafa aðhald en það sem Flokkur fólksins hafi gert ÞON sé að beita stöðugum hámarksþrýstingi og séu sífellt að spyrja um það sama. Ef eitthvað raunverulega væri að rekstrinum þá færi það líklega framhjá fólki þar sem stöðugt sé búið að hrópa „úlfur, úlfur“.

Það sé svo að ef fulltrúar Flokks fólksins telja sig hafa eitthvað í hendi sem bendi til óráðsíu eða misferlis þá sé rétt að beina slíkum áhyggjum til lögreglu eða innri endurskoðunar.

„Ef þau sem tala svona hafa ekkert slíkt í höndunum, eru bara að tala út frá engu þá eru þessu síendurteknu upphlaup bara ömurlegt lýðskrum og óheiðarleg aðför að starfsólki og embættismönnum.“

Loks sagði Alexandra að hún hafi kannað sögusagnir um uppsagnir á Hrekkjavöku, vínkæla á kaffistofu ÞON og meiningar um frítt gos. Ekkert sé hæft í því.

Veit borgin ekki hversu mikið hefur verið eytt?

Einar tók aftur til máls og nefndi sem dæmi að borgin sé að að borga fúlgur fjár fyrir Microsoft-hugbúnaðarleyfi en á sama tíma sé ekki verið að nýta þær lausnir sem Microsoft hefur upp á að bjóða. Til dæmis sé góð lausn frá Microsoft fyrir vinnustaðasamskipti, engu að síður borgi Reykjavík milljónir mánaðarlega fyrir Workplace. Alexandra svaraði því til að Einar væri að misskilja hvernig Microsoft virkar, lausnir uppfylla mismunandi kröfur og til standi að rukka sérstaklega fyrir Teams og svo sé Workplace ekki innifalið. Einar á móti benti á að það sé ekki furða að Workplace sé ekki innifalið enda er Workplace í gegnum Facebook hjá META.  Eftir standi að það þurfi að koma fram hversu miklum peningum hefur verið varið í þessa stafrænu umbreytingu.

Alexandra svaraði því til að sig minnti að það væru 11,5 milljarðar farnir í stafræna umbreytingu frá árinu 2019. Einar furðaði sig á því og sagði að hingað til hafi allir talað um 10 milljarða. Geti verið að borgin viti ekki hversu miklu hún hafi eytt í stafræna umbreytingu.

„Þetta kristallar það sem ég er búinn að tala um. Það er ekki í boði að hvorki sviðsstjóri ná formaður Stafræns ráðs hafi nokkra hugmynd um hversu mörgum milljörðum er búið að eyða í stafræna umbreytingu.“

Þá tók Kristinn Jón aftur til máls og sagði að allar tölur væru fyrirliggjandi og aðgengilegar, en hann nefndi þó enga tölu sjálfur eða hvar hægt væri að finna þær, heldur bara að Einar gæti kallað eftir þeim. Aftur talaði Kristinn Jón um notendamiðaða hönnun og hönnunarhugsun sem felist í sér að uppgötva og þróa, hvernig sæi Flokkur fólksins fyrir sér að nálgast umbreytinguna með öðrum hætti.

Því svaraði Einar að Flokkur fólksins myndi í það minnsta ekki reyna að uppgötva og þróa rafræn kort í síma heldur nýta þær lausnir sem þegar hafa verið uppgötvaðar og þróaðar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Svarthöfði: Þórðargleði

Svarthöfði: Þórðargleði
Eyjan
Í gær

Kosningar: Ekki bara útlendingar sem taka þátt í skipulagðri glæpastarfsemi hér á landi

Kosningar: Ekki bara útlendingar sem taka þátt í skipulagðri glæpastarfsemi hér á landi
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: EES-réttindi eða tjörukagga Þorgeirs Hávarssonar?

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: EES-réttindi eða tjörukagga Þorgeirs Hávarssonar?
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Marta er ítrekað spurð „Hefur þú ekkert að gera?” – Raunin er önnur

Marta er ítrekað spurð „Hefur þú ekkert að gera?” – Raunin er önnur
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Hafa litla trú á nýju kosningalíkani – „Hverju erum við bættari með öllum þessum skoðanakönnunum“

Hafa litla trú á nýju kosningalíkani – „Hverju erum við bættari með öllum þessum skoðanakönnunum“
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Björn Jón skrifar: Að vinna bug á skrílmennskunni

Björn Jón skrifar: Að vinna bug á skrílmennskunni