fbpx
Þriðjudagur 28.janúar 2025
Eyjan

Thomas Möller skrifar: Öskraðu ef þú vilt lægri vexti!

Eyjan
Fimmtudaginn 4. apríl 2024 13:11

Thomas Möller er varaþingmaður Viðreisnar í SV kjördæmi.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eitt helsta umræðuefni á Íslandi í dag eru þeir háu vextir sem heimilin, fyrirtækin og ríkið borgar af lánum.

Vextir hér eru nú allt að fjórum sinnum hærri en í nágrannalöndum okkar. Þeir valda fyrirtækjum miklum aukakostnaði sem þau verða að setja inn í verðlag vöru og þjónustu.

Háir vextir kynda undir verðbólguna. Byggingarverktakar verða að hækka verð á íbúðum vegna hárra vaxta, bændur eru að sligast undan háum vöxtum og vaxtakostnaður er meðal hæstu kostnaðarliða ríkissjóðs sem leiða til hærri skatta sem eru þegar þeir hæstu á Vesturlöndum samkvæmt nýlegri úttekt OECD.

Heimilin í landinu borga allt að fjórfalda húsnæðisvexti miðað við nágrannalönd sem flest nota evruna eða eru með fastgengi tengt evru eins og Danir.

Margt bendir til að krónan sé að valda þessum háa vaxtakostnaði. Skoðum málið nánar.

Er krónan nýja vistarbandið?

Íslendingar hafa þurft að þola miklar hamfarir gegnum aldirnar. Við bjuggum lengi við einokunarverslun og hungursneyð og þurftum að þola pestir og náttúruhamfarir.

Í nokkrar aldir bjuggu forfeður okkar við hið svokallaða vistarband sem bannaði eignalausu fólki að flytjast milli landsvæða og finna vinnu við sjávarsíðuna. Vistarbandið jók fátækt og ófrelsi, stöðvaði framfarir og skerti valfrelsi fólks til sjálfsbjargar.

En við höfum líka kosið að taka upp nýtt vistarband í okkar landi.

Þetta nýja vistarband heitir krónan, minnsti gjaldmiðill heims sem er hvergi skiptanlegur erlendis. Ekkert þróað smáríki í heiminum er með sjálfstæðan örgjaldmiðil og hafa þau flest tekið upp alþjóðlegan gjaldmiðil.

Krónan dugði okkur vel meðan hagkerfið byggði á sjávarútvegi en í dag er hún okkur mikill fjötur um fót og hentar ekki stöðugu, nútímalegu og opnu hagkerfi eins og okkar. Krónan er úrelt, fokdýr og gömul hugmynd.

Krónan er vistarband af því að launþegar fá útborgað í gjaldmiðli sem gildir hvergi erlendis, sveiflast eins og korktappi í ólgusjó, hefur rýrnað um 99,9% frá því hún var tekinn upp og gerir allar fjárhagslegar áætlanir fólks og fyrirtækja ótraustar.

Krónan er vistarband þar sem almenningur og flest fyrirtæki mega ekki taka hagstæð lán í alþjóðlegum gjaldmiðli á mun lægri vöxtum. Lánum í krónum fylgja „krónuálag“ á  sem nemur nú um 4%.

Það er sama hvaða stýrivextir eru í landinu, við greiðum öll um 4% álag á húsnæðislán, bílalán, fyrirtækjalán, lán bænda og lán sveitarfélaga. Ríkið borgar einnig þetta álag sem kostar ríkissjóð tugi milljarða á ári aukalega.

Sumir geta losnað úr vistarbandinu, aðrir ekki

Um 250 fyrirtækjum hefur tekist að losna við þetta vistarband og hafa fært sig yfir í alþjóðlegan gjaldmiðil og fá lán sín á margfalt betri kjörum en við hin. Þessi fyrirtæki standa á bak við um 40% af þjóðarframleiðslu Íslands. Þau búa í raun í allt öðru og betra hagkerfi.

Með heimild frá ríkinu hafa þau yfirgefið krónuhagkerfið og taka lán á mun betri kjörum en önnur fyrirtæki. Þau geta þannig bætt sína samkeppnisstöðu sem er af hinu góða en skekkir samkeppnisstöðu þeirra fyrirtækja sem fá ekki að taka upp alþjóðlegan gjaldmiðil.

Þegar við skiptum þessum örgjaldmiðli okkar í erlendan gjaldeyri þurfum við að borga allt að 10% álag sem kortafyrirtæki, gjaldeyrismiðlarar og bankar taka sem þóknun.

Lífeyrissjóðir landsins búa við gjaldeyrishöft vegna krónunnar. Þannig hafa þau hugsanlega misst af margfaldri ávöxtun hlutabréfa erlendis í samanburði  við íslenska hlutabréfamarkaðinn á síðustu árum.

Bændur á Íslandi eru að kikna undan vaxtakostnaði krónunnar og hafa fengið stuðning úr ríkissjóði til að greiða þessa ofurvexti af lánum sínum.

Viltu vinna milljón á ári?

Krónan er dýrt spaug fyrir heimilin í landinu. Skoðum dæmigert húsnæðislán og áhrif krónunnar á það.

Óverðtryggð húsnæðislán eru með 4% krónuálagi, sama hverjir stýrivextirnir eru.

Þetta þýðir til dæmis að 50 milljón króna húsnæðislán til 40 ára er með um 1 milljón króna auka-vaxtakostnaði á ári. (Meðallán á lánstíma er 25 m.kr. 4% krónuálag er 1m.kr. á ári.)

Fjölskylda með þetta lán þarf að vinna fyrir um 1,5 milljónum aukalega á ári fyrir skatta, bara til að borga kostnaðinn vegna krónunnar. Öll laun fjölskyldunnar í apríl 2024 fara í krónukostnað!

Þetta gera um 60 milljónir fyrir skatta á greiðslutíma lánsins sem meðalfjölskyldan þarf að greiða í krónukostnað. Sættir þú þig við þessi vistarbönd?

Fjölskyldan ver sem sagt um 5 ára launatekjum bara til að borga krónukostnaðinn!

Það er í raun furðulegt að launþegasamtök, neytendasamtök og stjórnmálaflokkar skuli ekki hafa mótmælt þessum þungu álögum sem eru sett á heimili landsins og krafist umræðu um þennan dýra gjaldmiðil.

Viðreisn er eini flokkurinn á Alþingi sem hefur það sem forgangsmál að tekin verði upp evra í stað krónu.

Nýlega sást til rútu þingflokks á ferð um landið með stóru skilti með þessum texta: „Flautaðu ef þú vilt lægri skatta“

Rúta Viðreisnar mun hafa enn stærra skilti: „Öskraðu ef þú vilt lægri vexti“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Eldhugur í nýrri framkvæmdastjórn ESB – litlu ríkin í stórum hlutverkum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Eldhugur í nýrri framkvæmdastjórn ESB – litlu ríkin í stórum hlutverkum
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Trump dregur Bandaríkin út úr WHO og opnar dyrnar fyrir ráðherra með klikkaða kórónuveirukenningu

Trump dregur Bandaríkin út úr WHO og opnar dyrnar fyrir ráðherra með klikkaða kórónuveirukenningu