fbpx
Sunnudagur 24.nóvember 2024
Eyjan

Orðið á götunni: Ringulreið á stjórnarheimilinu fari Katrín í framboð – andstæðingar heita stuðningi til að sjá endalok VG

Eyjan
Mánudaginn 1. apríl 2024 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Komi til þess að Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna, bjóði sig fram til embættis forseta Íslands í vor mun það hafa margvíslegar afleiðingar sem fróðlegt er að velta fyrir sér hverjar kunni að vera.

Á þessari stundu er ekki vitað hvort umræða um mögulegt framboð hennar er pólitískur loddaraleikur til að beina athyglinni frá lélegu fylgi flokks hennar og djúpstæðum ágreiningi innan ríkisstjórnarinnar eða raunverulegur möguleiki. Víst er að Katrín hefur gælt við þetta embætti í heilan áratug og var meðal annars nefnd til sögunnar árið 2016 þegar núverandi forseti hlaut kosningu. Þá var hún talin eiga allnokkra möguleika. Þetta minnir nokkuð á vandræðaganginn sem skapaðist í kringum Gunnar Thoroddsen á sínum tíma en rætt hafði verið um hann árum saman sem sjálfsagðan eftirmann Ásgeirs Ásgeirssonar, tengdaföður síns. Þegar á hólminn kom og Gunnar bauð sig fram til embættis forseta risu upp öfl í þjóðfélaginu sem aftóku með öllu að áberandi stjórnmálamaður gengi að þessu embætti vísu. Niðurstaða kosninganna varð sú að Kristján Eldjárn var kjörinn með yfirburðum. Var það fyrsta stóra vísbendingin um að enginn geti gengið að þessu mikilvæga embætti vísu.

Orðið á götunni er að bjóði Katrín sig fram nú í aprílmánuði verði hún að segja af sér embætti forsætisráðherra samtímis. Hver tekur þá við embætti hennar?

Ljóst er að samstarfsflokkarnir í ríkisstjórninni munu ekki sætta sig við neinn annan frá Vinstri grænum. Engum dylst að í þeim flokki finnst ekki neinn sem gæti með nokkru móti gegnt svo háu embætti. Talið er að Katrín hafi verið límið milli stjórnarflokkanna þriggja í ríkisstjórninni. Hverfi hún á brott er vandséð hvernig stjórninni verður haldið saman eins og ágreiningurinn hefur verið mikill í mörgum vandasömum málum.

Ætla má að Framsóknarflokkurinn krefjist embættis forsætisráðherra fyrir formann sinn, Sigurð Inga Jóhannsson. Verði það niðurstaðan þyrfti Sjálfstæðisflokkurinn að horfast öðru sinni í augu við það að vera stærsti flokkurinn í þriggja flokka stjórn án þess að fá stjórnarforystuna í sinn hlut. Slíkt yrði niðurlæging af hæstu gráðu.

Eðlilegt er að Sjálfstæðisflokkurinn, sem stærsti flokkurinn, gerði kröfu um embætti forsætisráðherra hverfi Katrín úr ríkisstjórninni. Vandinn er hins vegar sá að Bjarni Benediktsson formaður þurfti að hrökklast úr embætti fjármálaráðherra eftir ávirðingar frá Umboðsmanni Alþingis. Auk þess mælist hann jafnan óvinsælastur allra ráðherra í könnunum Gallups. Trúlega yrði því ekki mikil stemning fyrir því að hann tæki við embætti forsætisráðherra. Væntanlega yrði því alfarið hafnað. Þá vaknar spurning um það hvort samstaða gæti náðst um varaformann Sjálfstæðisflokksins, Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, í embætti forsætisráðherra. Það er frekar ólíklegt.

Hvernig sem ráðið verður fram úr uppstokkun í ríkisstjórninni hverfi Katrín af þeim vettvangi, þá má ætla að hún muni ekki ganga átakalaust fyrir sig. Orðið á götunni er að einn möguleikinn sem ætla má að verði skoðaður við þær aðstæður er að ljúka stjórnarsamstarfinu, boð til kosninga næsta haust með starfsstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar fram að kosningum.

Orðið á götunni er að andstæðingar Vinstri grænna hiki nú ekki við að lýsa yfir stuðningi við framboð Katrínar Jakobsdóttur. Þeir vita að hverfi hún af vettvangi landsmálanna með flokk sinn í sárum þá gætu Vinstri græn hreinlega horfið af Alþingi því engin forysta er sýnileg í flokknum að Katrínu genginni. Vegna þessa möguleika hlakkar í andstæðingum flokksins sem hika ekki við að kveikja öll þau villuljós sem hugsast getur og lýsa yfir stuðningi við Katrínu sem ekki mun skila sér láti hún verða af framboði.

Margir spyrja hvort Katrín treysti sér til að skilja við flokk sinn í sárum og ríkisstjórnina í uppnámi. Flestir svara því játandi og segja að hún muni ekki láta það trufla metnað sinn. Svo yrði að koma í ljós hvort hún gangi að sigri vísum láti hún verða af framboði.

Orðið á götunni er að Katrín eigi ekki afturkvæmt í íslensk stjórnmál bjóði hún sig fram til forseta og tapi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Stefna á frekari sókn á erlendum mörkuðum

Stefna á frekari sókn á erlendum mörkuðum
Eyjan
Í gær

Orðið á götunni: Atlaga Stefáns Einars að Þórði Snæ hjálpar Samfylkingu – tryggir jafnvel kjör fyrrum ritstjóra Fréttablaðsins

Orðið á götunni: Atlaga Stefáns Einars að Þórði Snæ hjálpar Samfylkingu – tryggir jafnvel kjör fyrrum ritstjóra Fréttablaðsins
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Dagfari: Fækkum ráðherrum, stofnunum og aðstoðarmönnum – aðhaldið verður að koma ofan frá

Dagfari: Fækkum ráðherrum, stofnunum og aðstoðarmönnum – aðhaldið verður að koma ofan frá
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Segir Sjálfstæðisflokkinn slá ryki í augun á millistéttarfólki – Í raun standi til að lækka skatta á hina ríku

Segir Sjálfstæðisflokkinn slá ryki í augun á millistéttarfólki – Í raun standi til að lækka skatta á hina ríku
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Þetta myndi Arnar Þór gera ef hann væri Donald Trump

Þetta myndi Arnar Þór gera ef hann væri Donald Trump