Orðið á götunni er að menn furði sig nokkuð á tilburðum Morgunblaðsins til að reyna að hjálpa forstjóra Bankasýslunnar við að freista þess að hysja upp um sig eftir að hafa sofið á verðinum vegna kaupa Landsbankans á TM.
Fyrir tveimur árum tilkynnti ríkisstjórnin að Bankasýslan yrði lögð niður. Það hefur ekki enn komið til framkvæmda og áfram situr Jón Gunnar Jónsson í sínum stól á forstjóralaunum því ríkisstjórnin getur ekki komið sér saman um hvað tekur við þegar búið verður að skella þarna í lás. Bankasýslunni er ætlað það hlutverk að tryggja svokallaða „armslengd“ ráðherra frá fyrirtækjum sem ríkið á eignarhluti í.
Jón Gunnar hefur það hlutverk að líta eftir tveimur hlutabréfum í eigu ríkisins. Annað þeirra er hlutur í Landsbankanum. Hann virðist hafa sofið á verðinum og kom af fjöllum þegar bankinn hafði gert bindandi tilboð í tryggingafélagið TM. Þegar hann hrökk upp við þessi tíðindi hófst innihaldslítið orðaskak sem þó sýndi að Bankasýslan hafði haft öll færi á að fylgjast með framvindu málsins.
Bregst þá Morgunblaðið við og býður keppinaut sínum af Vísi, Herði Ægissyni, að koma í viðtalsþáttinn Dagmál til að freista þess að verja gerðir – eða kannski öllu heldur aðgerðaleysi – forstjóra Bankasýslunnar. Þar heldur Hörður uppi skrýtnum málflutningi og reynir m.a. að gera hagsmunaskrá bankaráðsmanna í Landsbankanum að einhverju aðalatriði, hvort einhver þeirra hafi átt hlutabréf í Kviku. Var Bankasýslan virkilega ekki búin að kanna það sjálf?
Hörður Ægisson mátti á sínum tíma þola harða gagnrýni sem viðskiptablaðamaður fyrir að eiga hlutabréf í tíu skráðum hlutafélögum – sem hann fjallaði jafnt og þétt um sem „hlutlaus og faglegur“ blaðamaður!
Þá fannst engin hagsmunaskrá.
Orðið á götunni er að vinir Jóns Gunnars Jónssonar, þeir Hörður og Stefán Einar Stefánsson, umsjónarmaður Dagmála á Morgunblaðinu, reyni nú af veikum mætti að hjálpa þessum forstjóra í neyð.
Þegar Hörður Ægisson gekk í hjónaband árið 2022, þegar alræmt útboð hlutafjár ríkisins í Íslandsbanka var í hámæli, var Stefán Einar veislustjóri í miklum fögnuði í brúðkaupsveislunni, sem haldin var einum af sölum Hörpu. Misgóðar ræður voru fluttar eins og gengur. Orðið á götunni er að ræða forstjóra Bankasýslunnar hafi verið besta ræða kvöldsins. Jón Gunnar fór á kostum og endaði mál sitt svona: Lifi spillingin!
Orðið á götunni er að traustur vinur geti gert kraftaverk.