Orðið á götunni er að talsverður og vaxandi þrýstingur sé nú á að Jakob Frímann Magnússon, Stuðmaður og þingmaður, láti til skarar skríða og bjóði sig fram til embættis forseta Íslands.
Jakob er reynslubolti á ýmsum sviðum og hefur látið sig margt varða á löngum og fjölbreyttum ferli. Hann hefur reynslu af utanríkismálum, var m.a. menningarfulltrúi í íslenska sendiráðinu í London um skeið, auk þess sem hann bjó um árabil í Los Angeles í Kaliforníuríki í Bandaríkjunum og starfaði við tónlist. Þá er hann meðlimur í vinsælustu hljómsveit í sögu lýðveldisins, hljómsveitinni Stuðmönnum, sem hefur sungið sig inn í hjörtu og hugarheim þriggja kynslóða og sér vart fyrir endann á.
Orðið á götunni er að stuðningsmenn Jakobs telji hann tilvalinn í embætti forseta Íslands m.a. vegna þess að í gegnum þingmennsku fyrir Norðausturkjördæmi hafi hann öðlast mikilvæga innsýn í stöðu þeirra sem minna mega sín í samfélaginu og orðið ötull talsmaður þeirra. Eðlilegt skref á þeirri vegferð sé að stíga skrefið til Bessastaða því forseti Íslands geti haft mikil áhrif á flestum sviðum þótt formlega sé hann valdalaus.
Orðið á götunni er að bundnar séu vonir við að sterk útgeislun Jakobs og alþýðleg framkoma sem helst minni á velviljaðan framámann í kaupstað úti á landi um miðja síðustu öld sé einmitt það sem þjóðin leitar að nú um mundir og Jakob muni sóma sér vel sem húsbóndi á Bessastöðum.
Orðið á götunni er að í hópi þeirra sem nú þrýsta á Jakob séu ýmsir áhrifamiklir menn í samfélaginu, stuðningur við hann sé talsverður víða um land og ekki síst í kjördæminu hans.
Enn sem komið er mun Jakob ekki hafa gefið jáyrði en orðið á götunni er að hann liggi undir feldi og íhugi framboð.