fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Eyjan

Guðlaugur Þór skildi ekki spurningu Guðmundar Inga sem segir þetta fá gullverðlaun í heimsku

Ritstjórn Eyjunnar
Fimmtudaginn 21. mars 2024 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Til nokkuð snarpra orðaskipta kom á Alþingi fyrr í dag í óundirbúnum fyrirspurnatíma. Guðmundur Ingi Kristinsson þingmaður Flokks fólkins spurði þá Guðlaug Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra um dælingu fyrirtækisins Carbfix á vatni í jörð við Straumsvík. Telur Guðmundur Ingi fyrirætlanirnar afspyrnu heimskulegar í ljósi þess að sprungusvæði er á þessum slóðum og telur þessar fyrirætlanir auka jarðskjálftahættu. Guðlaugur Þór sagðist eiga bágt með að skilja spurningu þingmannsins og telur um góða hugmynd að ræða en markmiðið með þessu er að minnka magn koltvísýrings (CO2) í andrúmsloftinu en hann verður leystur upp í vatni sem verður svo dælt í jörðu.

Í fyrri spurningu sinni vísaði Guðmundur Ingi til afleiðinga sem jarðskjálftar undanfarinna ára í Grindavík og segir þær bera vott um hvað getur gerst þegar jarðskjálftar verða á sprungusvæðum. Þess vegna væri fyrirhuguð niðurdæling í Straumsvík þeim mun heimskulegri:

„Nú stendur til að fara að dæla niður 75 milljónum lítra af íslensku ferskvatni, 2.500 lítrum á sekúndu, í Straumsvík, nokkrum hundruð metrum frá sprungusvæði í íbúabyggð. Ég hef oft sagt það og hef sagt það áður hér á Alþingi að það er hægt að vera heimskur og það er hægt að vera heimskari en það fær gjörsamlega gullverðlaun í heimsku að ætla að láta sér detta það í hug að leyfa þetta. Á sama tíma og gos er á Reykjanesi þá stendur til að dæla niður líka milljónum lítra af sjó í Krýsuvík sem er á gossvæði. Ég spyr: Bíddu, hvernig í ósköpunum getum við látið okkur detta þetta í hug?“

Krafði Guðmundur Ingi Guðlaug Þór svara um hvort hann ætlaði sér að leyfa þetta tiltæki og telur um mikla sóun á vatni að ræða.

Átti bágt með að skilja

Guðlaugur Þór sagðist ekki átta sig alveg á spurningu Guðmundar Inga. Hann vissi ekki til þess að þörf væri á leyfi frá honum vegna þessa og lýsti yfir stuðningi við tiltækið:

„Í ofanálag er það þannig að þessi tækni sem er að flýta fyrir náttúrulegri umbreytingu, vegna þess að þetta gerist í náttúrunni en það er verið að flýta fyrir því í rauninni með sama markmiði, að fanga CO2, þá er þetta gert þannig og ekki bara hér á Íslandi heldur er þetta fyrirtæki í það minnsta á fimm stöðum í Bandaríkjunum með rannsóknaprófanir vegna þess að menn binda miklar vonir við þessa tækni til þess að fanga CO2. Það sem þessi tækni er að keppa við er þegar fyrirtæki eru að setja niður CO2 í gamlar námur og annað slíkt þar sem þetta verður ekki að steinum eins og gerist í Carbfix heldur er það bara geymt og lokað og læst og menn vona að það komi ekki upp aftur.“

Vék Guðlaugur Þór þá máli sínu að orkuöryggi m.a. gagnvart náttúruvá og sagðist hafa haldið að Guðmundur Ingi ætlaði sér að spyrja um það.

„Eins og að hengja um hálsinn á sér gullverðlaun í heimsku“

Guðmundur Ingi kom öðru sinni í ræðustól og lýsti því yfir að niðurdælingin væri tilgangslaus þegar kæmi að losun koltvísýrings því yfirstandandi eldgos sæi um að þeim mun meira af koltvísýringi og öðrum efnum bærist jafn harðan út í andrúmsloftið:

„Jú, það tekur kannski eldgosið tvo, þrjá klukkutíma að menga um nákvæmlega það sama og tekur einhver ár að dæla þarna niður. Hvernig í ósköpunum getur umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra varið það? Ég segi að það er eins og að hengja um hálsinn á sér gullverðlaun í heimsku að leyfa svona hluti.“

„Þetta getur ekki gengið. Það er verið að plata almenning, kostnaðurinn er gífurlegur og það er bara verið að gera fólk að fíflum,“ sagði Guðmundur Ingi og ítrekaði þá skoðun sína að Guðlaugur Þór ætti að stöðva áformin.

Ekki á móti kolefnisföngun

Guðlaugur Þór varð ekki síður forviða við þessi orð þingmannsins og sagðist eiga bágt með skilja hverju Guðmundur Ingi væri á móti. Spurði Guðlaugur Þór Guðmund Inga hvort hann væri á móti kolefnisföngun og kallaði þá Guðmundur Ingi frammí:

„Nei.“

Guðlaugur sagði að mikil trú væri á því föngun koltvísýrings bæri árangur og sagði það vel hægt að gera áætlanir um að minnka útblástur koltvísýrings þótt eldgos skyllu á:

„Virðulegi forseti. Þegar menn eru að gera áætlanir og hafa áhyggjur af loftslagsmálum þá er alveg gert ráð fyrir því, og það er enginn að stýra því, að það verða áfram eldgos í heiminum. Ég er svo sem ráðherra eldgosa og biðst bara velvirðingar á því að hafa ekki betri stjórn á því. Ég hef enga stjórn á því. En það tengist þessu máli ekki með neinum hætti.“

Hvatti hann að lokum Guðmund Inga til að fá umræðu um málið í umhverfis- og samgöngunefnd þingsins og taldi fyrirspurn hans byggja á ákveðnum misskilningi.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Kristrún Frostadóttir: Dagur getur blómstrað í þingflokki Samfylkingarinnar

Kristrún Frostadóttir: Dagur getur blómstrað í þingflokki Samfylkingarinnar
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Svarthöfði skrifar: Verður offitan Trump ofurefli?

Svarthöfði skrifar: Verður offitan Trump ofurefli?
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Þórður Snær verður framkvæmdastjóri þingflokksins

Þórður Snær verður framkvæmdastjóri þingflokksins
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Þorgerður Katrín: Einfeldni í varnarmálum ekki í boði – þurfum að rækta sambandið við Bandaríkin

Þorgerður Katrín: Einfeldni í varnarmálum ekki í boði – þurfum að rækta sambandið við Bandaríkin
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Svarthöfði skrifar: Markaðslaun fyrir kennara – hví ekki markaðskjör?

Svarthöfði skrifar: Markaðslaun fyrir kennara – hví ekki markaðskjör?
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Lántaka ríkisins: Hærri vextir á ríkisvíxlum nú en í desember

Lántaka ríkisins: Hærri vextir á ríkisvíxlum nú en í desember
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Thomas Möller skrifar: Búðu þig undir ESB kosningar

Thomas Möller skrifar: Búðu þig undir ESB kosningar
Eyjan
Fyrir 1 viku

Katrín tekur við stjórnarformennsku af efnahags- og fjármálaráðherra

Katrín tekur við stjórnarformennsku af efnahags- og fjármálaráðherra