Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir, varaþingmaður VG og bæjarfulltrúi á Akureyri, gagnrýnir Sjálfstæðismenn fyrir frumhlaup vegna ókeypis skólamáltíða. Þeir sýni ábyrgðarleysi í málinu.
Þetta kemur fram í aðsendri grein hennar á Vísi í dag.
Oddvitar Sjálfstæðisflokksins í 27 sveitarfélögum gagnrýndu Heiðu Björgu Hilmisdóttur formann Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna málsins. Það er að hún hafi samþykkt gjaldfrjálsar skólamáltíðir til að liðka fyrir gerð kjarasamninga. Aðgerðin kostar í heild 7 milljarða en ríkið hyggst taka á sig 75 prósent af kostnaðinum.
„Við gleðjumst flest yfir því að stórir hópar launafólks á almennum vinnumarkaði hafi skrifað undir kjarasamninga til næstu fjögurra ára með aðkomu aðgerða ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur,“ segir Jana í greininni. Bendir hún á að sveitarfélögin hagnist umtalsvert á því að ná niður verðbólgunni rétt eins og aðrir.
„Markmið samningsaðila eru skýr; að skapa forsendur fyrir lækkun vaxta, auka kaupmátt launafólks og vinna gegn verðbólgu. Vaxtakostnaður hefur áhrif á fjárhag sveitarfélaga og rekstur hins opinbera og heimilin í landinu. Talið er að sveitarfélögin spari um 2,5 milljarða fyrir hvert prósentustig lægri verðbólgu,“ segir hún.
Jana minnir á að þingmenn VG hafi lagt fram þingsályktunartillögu um gjaldfrjálsar skólamáltíðir á síðasta ári. Þetta hafi verkalýðsfélögin tekið upp í sína kröfugerð.
„Gjaldfrjálsar skólamáltíðir hafa áhrif á næringaröryggi nemenda, eru efnahagslegur stuðningur við fjölskyldur, geta stuðlað að bættum námsárangri nemenda og auka félagslegt jafnrétti. Sem félagsleg aðgerð má reikna með að hún kosti sveitarfélögin í heild 1,2 milljarða á ársgrundvelli,“ segir Jana.
Þetta skili fólki vaxandi velsæld og vert sé að gleðjast yfir því. Sjálfstæðisflokkurinn taki þátt í þessu í gegnum ríkisstjórnina rétt eins og VG og Framsóknarflokkurinn.
„Fjölmargir oddvitar Sjálfstæðisflokksins í sveitarfélögum, eru þó langt í frá glaðir, og rita grein þar sem ákvörðunin um þátttöku sveitarfélaganna er gagnrýnd vegna skorts á samráði,“ segir Jana. „Aðgerðin sem mun ná til ríflega 47.000 grunnskólabarna, er stórt kjaramál fyrir fjölskyldufólk og liður í veruleika kjarasamninga þar sem niðurstöður krefjast þess að samningsaðilar taki sameiginlega ábyrgð til að tryggja sátt á vinnumarkaði. Að horfa fram hjá skyldu allra, líka sveitarfélaga, til að koma að slíkri sátt er frumhlaup af hálfu oddvitanna.“