Orðið á götunni hermir að með undirritun samninga svonefndrar Breiðfylkingar og Samtaka atvinnulífsins í gær, hafi þau Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, og Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, komist í frægðarhöll verkalýðsforingja. Enginn vafi leikur á að samningarnir marka tímamót og eru alvöru atlaga að verðbólgu og ofurvöxtum. Sumir taka svo djúpt í árinni að nefna þessa samninga í sömu andrá og þjóðarsáttarsamningana árið 1990, sem voru heillaskref fyrir land og þjóð.
Orðið á götunni er að enn sé óskýrt hvers vegna Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR kaus að ryðjast út úr samstarfinu við félaga sína, Sólveigu Önnu og Vilhjálm, með hurðastafina öxlunum, á þeim tímapunkti þegar aðeins var eftir að hnýta nokkra lausa enda. Ragnar Þór hljóti að hafa gert sér ljóst að hann geti ekki vænst annars en að þegar kæmi að undirritun samninganna, sem fram fór í gær, yrði lögð lína fyrir þá sem á eftir kæmu.
Orðið á götunni er að með þessu hafi hann stórkostlega skaðað hagsmuni félagsmanna í VR, sem margir vænta þess nú að geta samið betur, að ekki sé minnst á sína persónulegu hagsmuni. Ekki verði litið til hans sem ábyrgs verkalýðsforingja, sem heldur hópinn og stuðlar þannig að kjarabótum fyrir hinar vinnandi stéttir.
Orðið á götunni er að Sólveig Anna og Vilhjálmur baði sig í ljósi þess að hafa axlað ábyrgð sína og komist í mark á viðkvæmum og vandasömum tímum. Nú sitji Ragnar Þór Ingólfsson eftir, fýldur úti í horni. Til eru þeir sem segja viðskilnaðinn við Breiðfylkinguna afleik.