„Við yrðum stolt þjóð með þessa glæstu og víðsýnu réttlætishetju á Bessastöðum,“ segir Hallgrímur Helgason rithöfundur í færslu á Facebook-síðu sinni þar sem hann nefnir kandídat sem gæti vel átt heima sem forseti Íslands á Bessastöðum.
Hallgrímur telur að nú sé kominn tími á konu á Bessastaði og nefnir hann lögfræðinginn Katrínu Oddsdóttur í því samhengi. Hallgrímur segir að hún hafi allt í djobbið; sé allt í senn gáfuð, skelegg, geðgóð, óþreytandi, réttsýn, hjartahlý, málgóð, jákvæð, fögur og glæsileg.
„Sannur kvenskörungur á hárréttum aldri. Hún hefur sterkan bakgrunn í réttindabaráttu, réttlætisbaráttu og umhverfisvernd fyrir utan að hafa sýnt ódrepandi elju í stjórnarskrármálinu,“ segir Hallgrímur sem heldur áfram:
„Þá hefur hún viðamikla reynslu af viðburðum ýmiskonar, sem skipuleggjandi og hjónavígslukona. Og sjálfsagt er ég að gleyma einhverju mikilvægu. Í raun hefur hún starfað við það undanfarin ár að vera samviska þjóðarinnar. Við yrðum stolt þjóð með þessa glæstu og víðsýnu réttlætishetju á Bessastöðum.“
Margir taka undir með Hallgrími og segjast myndu kjósa Katrínu ef hún byði sig fram. „Fengi mitt atkvæði án vafa,“ segir einn og annar segir: „Þessa myndi ég kjósa!.“
Katrín birtist sjálf í umræðuþræði Hallgríms þar sem hún segist, því miður, ekki vera á leið í framboð.
„Takk fyrir þessi ægilega fallegu orð elsku Hallgrímur,“ segir hún og bætir við: „Er þó ekki á leið að söðla um og skella mér í þennan slag en mikið þykir mér vænt um alla þessa hlýju.“
Hallgrímur svarar að bragði og segir að kallað verði á hana þar til hún hlýðir. „Þetta er borðleggjandi. Liggur í loftinu. En skil vel að þú þurfir tíma til að venjast tilhugsuninni.“