Raunvextir þurfa ekki endilega að vera jákvæðir þegar barist er við háa verðbólgu. Greiðslubyrði heimila getur stóraukist þegar vextir eru hækkaðir þó að þeir nái ekki verðbólgunni og þannig getur dregið úr ráðstöfunartekjum og slegið á eftirspurn í hagkerfinu þó að raunvextir séu neikvæðir. Þá getur borgað sig að skipta ekki úr óverðtryggðum lánum þótt raunvextir séu bæði háir og jákvæðir, eins og nú er, vegna þess að höfuðstóll óverðtryggðu lánanna rýrnar sem nemur verðbólgunni. Við þetta ráða þó ekki allir. Gylfi Zoëga, hagfræðiprófessor við HÍ og fyrrverandi nefndarmaður í peningastefnunefnd Seðlabankans, er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Markaðarins á Eyjunni.
„Það var eitt sjónarmið sem ég hélt uppi, alla vega, að þó að raunvextir séu neikvæðir, segjum að það sé átta prósent verðbólga og sjö prósent vextir, þá er samt greiðslubyrðin mjög mikil,“ segir Gylfi.
„Þetta er mjög mikilvægur punktur – þó að það séu neikvæðir raunvextir, ef nafnvextirnir eru farnir svona hátt þá lækkar kaupmáttur heimila og dregur úr eftirspurn. Það var reyndar kona að tala við mig áðan og hún sagði: „Við tókum óverðtryggt lán á breytilegum vöxtum og þeir eru núna komnir upp í níu prósent. Verðbólgan er 6,6 prósent núna. Eigum við ekki að breyta í verðtryggt lán?“
Svarið sem ég gaf henni var: „Þú varst með miklu lægri vexti 2021 og 22 og verðbólgan var miklu meiri þá heldur en vextirnir, sem þýðir að höfuðstóll lánsins var að brenna upp. Þú skuldaðir það sama í krónum en krónan var að verða minna og minna virði. Sá sem lánaði þér þessa peninga, hann tapaði. En núna vill hann fá níu prósent vexti og verðbólgan er tæplega sjö prósent. Það eins sem hann vill er að þú borgir þessi sjö prósent sem lánið er að rýrna um svo hann tapi ekki lengur á þér og svo vill hann fá tvö prósent vexti ofan á. Níu prósent vextir á óverðtryggðu láni eru að hluta bara að greiða niður höfuðstól lánsins þíns vegna þess að það rýrnar um sjö prósent vegna verðbólgunnar. Þannig að ef þú borgar sjö prósent vexti er það bara vegna þess að sá sem lánaði þér vill ekki lengur borga niður lánið þitt í gegnum verðbólgu.““
Er það ekki ákveðið umhugsunarefni fyrir þá sem eru að taka vaxtaákvarðanir, peningastefnunefnd, að áhrifin skuli verða þessi?
„Jú, svona á þetta ekki að verða af því að lán eiga ekki að brenna upp í verðbólgu og vextir eiga ekki að vera níu prósent.“
Já, bíddu við, lán eiga að brenna upp í verðbólgu vegna. Í eðlilegu viðskiptaumhverfi taka bæði lántakandi og lánveitandi áhættu. Ef verðbólgan er meiri þá græðir lántakandinn og ef verðbólgan er minni þá græðir lánveitandinn ef þú ert með óverðtryggt. Í verðtryggingu er lánveitandinn ekki að taka neina áhættu nema á því að það verði vanskil á láninu.
„Það er bara með þessa háu vexti. Það má ekki gleyma því að höfuðstóll lánanna er að rýrna sem nemur verðbólgunni af því að launin hækka en höfuðstóllinn er sá sami.“
Þannig að þeir sem geta komist í gegnum þennan vaxtakúf, ráða við greiðslubyrðina, sem náttúrlega eru alls ekki allir þegar greiðslubyrði lána tvöfaldast eða jafnvel þaðan af meira, en þeir sem geta það, þeir eiga að bíta á jaxlinn og láta sig hafa það vegna þess að það verður þægilegra í framhaldinu?
„Ég ætla ekki að gefa fjármálaráðgjöf og lenda í málssókn síðar, en það er bara að menn hafi það í huga að ef þú borgar níu prósent vextir af óverðtryggðu láni þá ertu líka að sjá höfuðstólinn rýrna um sem nemur verðbólgunni þannig að hreinn vaxtakostnaður er bara munurinn á verðbólgunni og vöxtunum sem þú greiðir. Höfuðstóllinn er að rýrna að raunvirði. En, auðvitað fólk sem er að ná endum saman frá mánuði til mánaðar það verður að hugsa um hvort það á pening í bankanum til þess að borga, sem sagt hvort það hefur nóg eða hvort það hefur einhverja sjóði til að ganga á.“