fbpx
Þriðjudagur 28.janúar 2025
Eyjan

Útlendingamálin klúður Sjálfstæðisflokksins – stjórnarandstaðan til hjálpar?

Ólafur Arnarson
Föstudaginn 1. mars 2024 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sem kunnugt er virðist nokkuð víðtæk samstaða orðin um það á Alþingi að málefni útlendinga hér á landi séu stjórnlaus orðin. Er hér fyrst of fremst átt við þann hluta kerfisins sem snýr að hælisleitendum og flóttamönnum. Mörg undanfarin ár hafa hælisleitendur og umsækjendur um alþjóðlega vernd streymt hingað til lands í þúsunda tali.

Fjöldinn er meiri en innviðir hér á landi ráða við. Heilbrigðiskerfið kiknar undan álaginu, menntakerfið er engan veginn í stakk búið til að taka við öllum þessum fjölda, hvað þá löggæslan í landinu, félagslega kerfið og sjálf landamæragæslan.

Undanfarið hefur komið fram að beinn kostnaður ríkisins vegna útlendingamála hafi á síðasta ári numið 20 milljörðum en árið 2013 nam þetta 500 milljónum. Verðlag hefur hækkað um 50 prósent á þessu tímabili en engu að síður er hækkunin gríðarleg, 27-földun á föstu verðlagi. Nú má eflaust færa rök fyrir því að miðað við ýmsa atburði í heiminum á undanförnum árum sé eðlilegt að útgjöld til þessa málaflokks hafi hækkað, en vart er hægt að réttlæta 27-földun.

Þá er þess að geta að þessi fjárhæð, 20 milljarðar tekur einungis til beins útlagðs kostnaðar ríkisins vegna hælisleitenda og flóttamanna á borð við útgjöld vegna lögfræðikostnaðar, húsnæðisúrræða, og þess háttar. Þessi fjárhæð innifelur ekki þann kostnað sem fellur á sveitarfélög, t.d. vegna skólamála og félagslegra úrræða, og þá er erfitt að meta þann raunkostnað sem fellur á heilbrigðiskerfið í landinu. Eitt er víst: Kostnaðurinn vegna málaflokksins er mun meiri en sem nemur þessum margumtöluðu 20 milljörðum á ári.

Ólíku saman að jafna

Vert er að hafa í huga að ekki er hægt að setja alla innflytjendur hingað til lands undir sama hatt. Langflestir innflytjendur koma hingað til að vinna um skemmri eða lengri tíma. t.d. í ferðaþjónustu. Þessi hópur kemur að mestu leyti af evrópska efnahagssvæðinu og nýtir sér frelsi til að stunda atvinnu hvarvetna á því svæði.

Hópurinn sem veldur vandanum sem við er að kljást er samansettur af hælisleitendum og flóttamönnum, t.d. frá Venesúela, Úkraínu og af Gaza-svæðinu. Þessi hópur er miklu verr settur en þeir sem flytja hingað til að starfa hér og afla sér tekna. Þessi hópur kemur hingað brotinn á líkama og sál og þarfnast mikillar þjónustu og aðstoðar, alla vega fyrst um sinn, en mögulega í mörg ár og jafnvel ævina á enda.

Gera verður ráð fyrir að við Íslendingar viljum almennt leggja okkar af mörkum til að hlaupa undir bagga með því fólki sem hvergi á höfði sínu að halla og neyðist til að flýja stríð eða hryllilegar ofsóknir í sínum heimalöndum. Reynslan og samanburðurinn hefur hins vegar sýnt okkur að eitthvað er bogið við kerfið hér á landi vegna þess að hlutfallslega hafa mun fleiri hælisleitendur beint för sinni hingað til lands en til flestra ef ekki allra landa í Evrópu, sem ekki eiga beinlínis landamæri að þeim hrjáðu svæðum sem fólkið er að flýja. Eitt er að bregðast við af mannúð en annað að breyta landamærum landsins í vængjahurð.

Stjórnleysi í áratug og jafnvel lengur

Engan þarf að undra að útlendingamálin séu í fullkomnum ólestri hér á landi. Á síðustu 11 árum hafa átta ráðherrar setið í dómsmálaráðuneytinu sem fer með málaflokkinn og hver ráðherra því setið að jafnaði í um 15-16 mánuði. Sjálfstæðisflokkurinn hefur farið nokkuð óslitið með dómsmálaráðuneytið þennan rúma áratug (sjö af átta ráðherrum hafa verið sjálfstæðismenn). Ljóst er að Sjálfstæðisflokkurinn ber þannig höfuðábyrgð á því hvernig komið er fyrir þessum málaflokki.

Að undanförnu hefur formaður flokksins reynt að klína þeirri sök á stjórnarandstöðuna. Verður það að teljast nokkuð barnalegt af hans hálfu að reyna að kenna um þeim sem engin áhrif hafa á. Sjálfstæðismenn verða að líta sér nær. Það eru þeir sem hafa klúðrað útlendingamálunum, ekki hvað síst með því að velja sér Vinstri græna til samstarfs í ríkisstjórn og fela þeim dagskrárvaldið í útlendingamálum.

Nú hefur litið dagsins ljós stjórnarfrumvarp um breytingu á útlendingalögum, sem ætlað er að taka á helstu göllum laganna og kerfisins eins og það er nú hvað varðar umsækjendur um alþjóðlega vernd. Frumvarpið virðist vera skref í rétta átt en margir telja það ekki taka á rót vandans og því muni þessar lagabreytingar ekki ná yfirlýstum markmiðum. Sumir óttast jafnvel þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu muni leiða til enn frekari útgjaldaaukningar þegar upp er staðið.

Skýrari rammi – meiri mannúð

Hvað sem öðru líður er mikilvægt að ramminn utan um hælisleitendamál verði mun skýrari hér á landi. Regluverkið hér á landi má ekki senda þau skilaboð til umheimsins að betra sé að sækja um hæli og alþjóðlega vernd hér á landi en í öðrum löndum Evrópu, Þá er það einnig mikilvægt mannúðarmál að við Íslendingar séum ekki að taka á móti hælisleitendum og velkjast með mál þeirra hér í kerfinu í nokkur ár áður en niðurstaðan um synjun kemur þegar heilu fjölskyldurnar eru búnar að koma sér fyrir í samfélaginu, börnin komin í skóla og farin að mynda tengslanet, foreldrarnir komnir í vinnu og farnir að skila sínu til samfélagsins. Það er ómannúðlegt að koma þá og flytja fólk af landi brott, jafnvel í skjóli nætur. Það felst engin manngæska í því að gefa fólki falskar vonir.

Kristrún Frostadóttir hefur lög að mæla þegar hún bendir á að ekki verður haldið uppi velferðarsamfélagi í ríki þar sem landamærin eru eins og vængjahurð. Til að hælisleitendakerfið hér á landi sé sjálfbært – og til að velferðarkerfið hér sé sjálfbært – er nauðsynlegt að hafa hér virkt landamæraeftirlit og skýran ramma þegar kemur að umsækjendum um alþjóðlega vernd.

Þessu hefur Sjálfstæðisflokkurinn ekki fengið áorkað í áralöngu ríkisstjórnarsamstarfi með Vinstri grænum. Hann kennir stjórnarandstöðunni um. Stjórnarandstaðan hefur hins vegar verið boðin og búin að leggja sína hönd á plóginn til að hér verði komið á sjálfbæru kerfi. Viðreisn hefur um langt skeið kallað eftir samtali um þessi mál. Kannski verður það stjórnarandstaðan sem dregur Sjálfstæðisflokkinn að landi í þessu máli sem hann hefur klúðrað um árabil, m.a. með því að gefa dómsmálaráðherrum flokksins almennt ekki ráðrúm til að setja mark sitt á þennan mikilvæga málaflokk, auk þess sem Vinstri grænir hafa haft neitunarvald í málaflokknum fram til þessa.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Eldhugur í nýrri framkvæmdastjórn ESB – litlu ríkin í stórum hlutverkum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Eldhugur í nýrri framkvæmdastjórn ESB – litlu ríkin í stórum hlutverkum
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Trump dregur Bandaríkin út úr WHO og opnar dyrnar fyrir ráðherra með klikkaða kórónuveirukenningu

Trump dregur Bandaríkin út úr WHO og opnar dyrnar fyrir ráðherra með klikkaða kórónuveirukenningu