Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn bæta við sig fylgi í mánaðarlegri könnun Maskínu á fylgi íslenskra stjórnmálaflokka. Fylgi Samfylkingarinnar hækkar um 1,5 prósent, fer úr 25,7% og í 27,2% og er flokkurinn því áfram sá langstærsti á landinu.
Könnun var gerð dagana 7. til 27. febrúar 2024 og voru svarendur 1.706 talsins. Segja má að tíðindin könnunarinnar felist í áframhaldandi velgengi Samfylkingarinnar en þann 10. febrúar birtist athyglisvert viðtal við Kristrún Frostadóttur, formanns flokksins, þar sem hún boðaði nýjar áherslur í innflytjendamálum. Sú afstaða virðist því ekki hafa fælt kjósendur frá flokknum, heldur þvert á móti.
Stuðningur við ríkisstjórnina er áfram aðeins 33 prósent. Sjálfstæðisflokkurinn er áfram næststærsti flokkur landsins en fylgi hans hækkar um 1,8 prósent, úr 16,6 prósentum og í 18,4 prósent. Framsóknarflokkurinn tapar sama fylgi, 1,8 prósentum, og fer úr 10,3 prósentu og niður í 8,5 prósent fylgi. Vinstri grænir standa nánast í stað, eru með 5,9 prósent fylgi en voru með 5,7 prósent í síðasta mánuði.
Miðflokkurinn tapar aðeins fylgi en er þó enn þriðji stærsti flokkur landsins. Flokkurinn mælist með 11,2 prósent fylgi en var með 11,8 prósent í síðasta mánuði. Viðreisn tapar talsverðu fylgi eða 2,5 prósentustigum. Flokkurinn var með 11,7 prósent fylgi í síðasta mánuði en mælist nú með 9,2 prósent. Þá bæta Píratar aðeins við sig eru með 9% fylgi samanborið við 7,6% í janúar.
Flokkur fólksins, 6,4%, og Sósíalistaflokkurinn, 4,3%, standa nánast í stað í könnuninni.