Covid hafði þau áhrif að við Íslendingar erum samviskusamari við að mæta í ræktina en áður en faraldurinn braust út, mögulega vegna þess að við kunnum betur að meta það að komast í ræktina, eftir öll samkomubönnin og takmarkanirnar í Covid. Það virðist heilbrigðiskerfið standa í vegi fyrir því að sprotafyrirtæki geti boðið fólki upp á ýmsa þjónustu sem flokkast undir forvarnarstarfsemi. Ástæðan mun vera sú að kerfinu finnst forvarnarmælingarnar skapa of mikið álag á heilsugæslustöðvar. Ágústa Johnson, framkvæmdastjóri Hreyfingar, er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Markaðarins á Eyjunni.
Ágústa segir umræðu hafa verið t.d. um hið góða fyrirtæki, Greenfit, sem fór af stað með heilsufarsmælingar. Fyrirtækinu hafi ekki verið gert kleift að halda þeim úti lengur að því er virðist vegna andstöðu innan heilbrigðiskerfisins.
„Ég fór sjálf tvisvar til þrisvar í ástandsmælingu til þeirra og fannst það frábært að fá tækifæri til að bera saman. Það voru þarna tölur og niðurstöður sem komu mér á óvart og gáfu mér tækifæri til að fara og vinna markvisst í því,“ segir hún.
„Þetta geta þau ekki boðið upp á lengur, sem mér finnst alveg með ólíkindum. Eftir því sem ég kemst næst, eftir bara umræðunni sem skapaðist í fréttum út af þessu og án þess að ég viti neitt nánar um það, þá þótti þetta bjóða upp á of mikið álag á heilbrigðiskerfið – fólk sem væri í raun og veru heilbrigt væri þá að leita inn á heilsugæsluna eftir svona mælingar. Punkturinn er bara þessi, við eigum auðvitað að opna á það að einkarekin fyrirtæki geti verið að bjóða fólki upp á ýmsa þjónustu hvað varðar heilsu þess til að fólk geti tekið ábyrgar og upplýstar ákvarðanir um heilsufar sitt og farið í alls konar tékk, nákvæmlega eins og þú ferð með bílinn þinn í tékk o.s.frv. Ég held að við verðum virkilega að fara að girða okkur í brók hvað varða þróun árið 2024.“
Já, það er dálítið merkilegt ef það hefur verið heilbrigðiskerfið sem setur fótinn fyrir svona forvarnarstarf. Þessar reglubundnu mælingar eru auðvitað forvarnarstarf.
„Algerlega. Þar sem fullorðið fólk getur komið inn og keypt sér, og borgað sjálft, einhvers konar mælingar og farið með þær til heimilislæknis eða ráðgjafa og fengið lesið úr þeim. Ég get ekki séð neitt slæmt við það nema bara síður sé. Ég held að við verðum aðeins að fara að horfa víðar á heilbrigðiskerfið og ýta undir svona forvarnarstarf og opna fyrir svona flott sprotafyrirtæki eins og Greenfit sem vill bjóða fram þessa þjónustu en ekki reyna að kveða þetta niður.“
Ágústa er þeirrar skoðunar að orsök þess að við séum með feitustu þjóðum þrátt fyrir að vera mjög dugleg við að mæta í ræktina hljóti að vera lífsstíll okkar, mataræðið. Svo sé það alls ekki að sama að eiga kort í ræktinni og að nýta kortið. „Það er alveg það versta að vera styrktaraðili í líkamsræktarstöðinni, að sjálfsögðu þarf að mæta.“
Hafið þið skoðað það eitthvað hjá ykkur? Hefur orðið einhver breyting á virkum korthöfum og óvirkum?
„Já, það er svolítið gaman að því að við sjáum marktækan mun eftir Covid, að það er betri nýting á kortunum þannig að það er bara mjög jákvætt.“
Þannig að það hefur kannski kennt okkur að meta það að komast í ræktina?
„Ég er alveg sannfærð um það að það er akkúrat málið. Við sáum bara um leið og við gátum opnað í þessum stuttu köflum hvað það var stór hópur sem kom undir eins. Um leið og fólk nær að koma þessu inn í lífsstílinn, inn í rútínuna sína, þá vill það ekki sleppa því – þá ertu orðinn pínu háður þessu og finnur muninn ef þú mætir ekki.“