fbpx
Laugardagur 11.janúar 2025
EyjanFastir pennar

Sigmundur Ernir skrifar: Íslenska leiðin er samráð í stað samkeppni

Eyjan
Laugardaginn 24. febrúar 2024 14:00

Sigmundur Ernir Rúnarsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra boðaði á dögunum hertar aðgerðir gegn viðskiptabönkunum á Íslandi sem hirða formúgur af fólki fyrir það viðvik eitt að strjúka korti við posa. Það er ekki bara tímabært, heldur líka réttlætismál fyrir neytendur í landinu sem sæta óheyrilegu okri í þessum efnum, langt umfram það sem þekkist í nágrannalöndunum.

En það er að vísu kunnuglegt stef á klakanum.

Og svo bíræfið er þetta athæfi íslenskra banka að það kostar landsmenn meira að nota greiðslukort í útlöndum heldur en að vera með seðla í veskinu upp á gamla mátann. Hver kortafærsla er með öðrum orðum svo dýru verði keypt að það borgar sig að hafa seðlabúntið í handraðanum á leið úr landi.

Og hvernig er hægt að búa í svona lélegu hagkerfi?

Svarið er jafn einfalt og það er sárt. Íslenska viðskiptasnilldin er að taka samráð fram yfir samkeppni. Einkaframtakið á Íslandi hefur í mörgum tilvikum verið svo óþroskað á samfelldum lýðveldistímanum að það hefur ýmist verið á móti því að fyrirtæki berjist sín á milli um lægsta vöruverðið, ellegar að það er bara samið um það sín á milli hvernig skipta eigi kökunni.

Frægt er það með endemum þegar stórkaupmannaklíkan í Reykjavík lagði heilu björgin í götu Pálma Jónssonar í Hagkaupum á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar til að koma í veg fyrir að einhver utanaðkomandi lukkuriddari færi að bjóða almenningi vörur á viðráðanlegu verði. Þeir heildsalar sem áræddu að útvega Pálma vörur yrðu settir umsvifalaust út á guð og gaddinn. Þeir skildu ekki voga sér.

Og sagan endurtók sig svo vitaskuld þegar Jóhannes Jónsson í Bónus haslaði sér völl á níunda áratugnum. Birgjum hans var hótað með nákvæmlega sama hætti. Þeir fengju sko rassskellinn.

En ætli þarna séu ekki nefndir til sögunnar heiðarlegustu sjálfstæðismennirnir á sínum tíma sem áttu í útistöðum við innmúruðustu hægrimennina í valdaklíku landsins og allt það úldna afturhald.

„Það gengur ekki lengur að láta almúgann borga ókjörin öll fyrir vanþroskað viðskiptalíf.“

Samráð einkafyrirtækja á Íslandi er svo gróið inn í viðskiptasiðferðið að ekki verður tölu komið á allar þær fréttir sem sagðar hafa verið af því svínaríi á síðustu áratugum. Gildir einu hvort þar hafi komið við sögu olíufélögin, byggingarvörufyrirtækin, eða skipafélögin, sem nú síðast hafa verið í hámæli.

En það er líka til merkis um hvað landsmenn eru orðnir vanir þessum launráðum að þeir kippa sér ekki upp við tíðindin. Það hreyfir hvorki pottum né pönnum. Og almenningur situr bara svínbeygður eftir og veit sem er að þessu verður ekki breytt svo hæglega. Sinn sé bara siður í hverju landi.

Jafnvel þó tjónið, eins og í tilviki skipafélaganna, kosti samfélagið meira en sem nemur uppkaupum ríkisins á öllum fasteignum Grindvíkinga. Yfir sextíu milljarða króna.

En það hreyfir ekki búsáhöldum.

Það á að vera meginerindi alþingismanna að vinda bráðan bug á spillingunni sem þrífst í broguðum bissness hér á landi. Það fylgir því ekki einasta mikil kjarabót fyrir almenning heldur líka atvinnulífið sjálft. Það gengur ekki lengur að láta almúgann borga ókjörin öll fyrir vanþroskað viðskiptalíf.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Litla saklausa jólabarn

Steinunn Ólína skrifar: Litla saklausa jólabarn
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Pælingar um raunsæi og bjartsýni

Þorsteinn Pálsson skrifar: Pælingar um raunsæi og bjartsýni
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ýmislegt stórt mun gerast

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ýmislegt stórt mun gerast
EyjanFastir pennar
09.12.2024

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu
EyjanFastir pennar
30.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Leiðinleg kosningabarátta

Óttar Guðmundsson skrifar: Leiðinleg kosningabarátta
EyjanFastir pennar
29.11.2024

Steinunn Ólína skrifar: Ég trúi því að alheimurinn vilji okkur vel

Steinunn Ólína skrifar: Ég trúi því að alheimurinn vilji okkur vel
EyjanFastir pennar
22.11.2024

Steinunn Ólína skrifar: Óheiðarleiki er smitsjúkdómur

Steinunn Ólína skrifar: Óheiðarleiki er smitsjúkdómur
EyjanFastir pennar
21.11.2024

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!