Í almannatengslafræðum stendur víst skrifað að verstu byrjendamistökin í því að sverja af sér kjaftasögu séu að mæta í fjölmiðla til að hafna henni. Þá fyrst öðlist hún líf og fari á kreik –mun víðar en annars yrði.
Orðið á götunni er að Vignir Már Þormóðsson, frambjóðandi til formanns KSÍ, hafi stigið á bananahýði í þættinum Þungavigtin í vikunni þegar hann reyndi að blása á kjaftasögurnar um að hann sé frambjóðandi og handbendi FH-bræðranna Viðars og Jóns Rúnars Halldórssonar. 433.is greindi frá þessu í gær (https://www.dv.is/433/2024/2/21/vignir-mar-blaes-kjaftasogur-um-frambodid-sitt-sem-reynt-hefur-verid-ad-planta/). Formannskosning fer fram á ársfundi KSÍ á laugardaginn.
FH-bræðurnir Viðar og Jón Rúnar eru með umdeildustu mönnum íþróttahreyfingarinnar og vitað er að þeir leituðu logandi ljósi að „sínum“ frambjóðanda til að fara inn í KSÍ. Hvort þeir fundu hann í Vigni er ekki hægt að fullyrða, en um leið og Vignir bar af sér kjaftasögurnar staðfesti hann náin tengsl sín við Viðar – tengsl sem áður voru aðeins orðrómur.
Vigni tókst þannig sjálfum að skjóta stoðum undir kjaftasögurnar og staðfesta að minnsta kosti hluta þeirra í stað þess að hrekja þær. Orðið á götunni er að á knattspyrnumáli heiti þetta að gera sjálfsmark.
Þetta skot Vignis endaði nefnilega ekki í marki mótherja heldur söng knötturinn í hans eigin neti. Stórfenglegt sjálfsmark.