fbpx
Þriðjudagur 24.desember 2024
Eyjan

Orðið á götunni: Össur er pólitískur stríðnispúki

Eyjan
Miðvikudaginn 21. febrúar 2024 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Össur Skarphéðinsson, fyrrum ráðherra margra ráðuneyta og formaður Samfylkingarinnar, er annálaður stríðnispúki. Hann er með skemmtilegri mönnum og jafnan er stutt í húmorinn hjá honum. Ekki síst ef hann getur strítt pólitískum andstæðingum. Össur er einnig þeim kostum gæddur að geta gert grín að sjálfum sér sem er fremur fátítt meðal gamalla og nýrra stjórnmálamanna. Þeir eru yfirleitt einungis til í að skjóta á andstæðinga sína.

Össur er þrautreyndur og hefur séð alla flóruna í stjórnmálum. Hann leiddi Samfylkinguna í upphafi til mesta fylgis sem flokkurinn hefur náð sem var þriðjungur greiddra atkvæða. Samfylkingin nálgast nú þetta met ef marka má Gallup en það er einungis samkvæmt skoðanakönnunum. Össur náði metfylginu í kosningum – sem er öllu meira afrek. Hann hefur einnig mætt pólitískum áföllum og féll út af þingi árið 2016 þegar Samfylkingin var við það að þurrkast út sem var bein afleiðing af vinstri stjórn Jóhönnu og Steingríms J. Nú er vinstri stjórn Katrínar Jakobsdóttir greinilega á svipaðri leið.

Orðið á götunni er að fyrr í þessari viku hafi Össur varpað léttri djúpsprengju inn í stjórnmálaumræðuna hér á landi og sýnt þá sitt rétta andlit sem pólitískur stríðnispúki. Hann tók undir það sem áður hefur verið sagt um að núverandi formaður Samfylkingarinnar, Kristrún Frostadóttir, hafi tekið forystu í umræðunni um útlendingamálin sem hafa vafist mjög fyrir ríkisstjórninni þar sem hver flokkurinn hefur verið upp á móti öðrum varðandi stefnu gagnvart hælisleitendum og útlendingum sem vilja setjast að á Íslandi. En það sem vakti mesta athygli var að Össur leyfði sér að fjalla um hinn viðkvæma forystuvanda sem hrjáir Sjálfstæðisflokkinn um þessar mundir.

Þá sýndi Össur kunnugleg klókindi þegar hann varpaði fram hugmynd að nýjum formanni fyrir flokkinn. Þar var greinilega um að ræða óskaandstæðing hinna flokkanna. Össur beindi athygli að Hildi Sverrisdóttur, formanni þingflokks sjálfstæðismanna. Fram til þessa hefur Hildur ekki verið talin meðal þungavigtarmanna í íslenskum stjórnmálum og þar af leiðandi augljós stríðnispúkasvipur á tillögu Össurar. Hildur svarar þessu í dag og gagnrýnir Össur fyrir að henda smjörklípu inn í umræðuna og gefur svo til kynna að hann þekki betur til slíkrar aðferðar en aðrir.

Hildur virðist ekki vera nægilega vel að sér um íslensk stjórnmál til að vita að höfundur þessa hugtaks er enginn annar en Davíð Oddsson, fyrrum formaður flokksins og enn þá skuggaformaður hans að margra mati. Davíð lýsti innihaldi þessa hugtaks fyrir um 30 árum þegar hann var forsætisráðherra og snerist það um aðferð til að æsa heimilisköttinn upp. Síðan hefur smjörklípuhugtakið lifað.

En Össur gerði meira. Orðið á götunni er að hann hafi gert eins lítið úr möguleikum Guðlaugs Þórs Þórðarsonar varðandi formannsembætti í flokknum og unnt var. Össur þekkir Guðlaug Þór vel frá því að þeir áttu báðir sæti á Alþingi og voru saman í ríkisstjórn frá 2007 til 2009. Össur veit að öflugasti maður sem andstæðingar Sjálfstæðisflokksins gætu fengið í formannsstól Sjálfstæðisflokksins þegar Bjarni hættir er vitanlega Guðlaugur Þór. Hann er þrautreyndur stjórnmálamaður og duglegri en flestir sem við stjórnmál fást á Íslandi. Hann gjörþekkir flokkinn og reyndar samfélagið allt og hefur að því leyti algera yfirburði yfir aðra sem nefndir hafa verið sem arftakar Bjarna Benediktssonar. Klókindi Össurar felast í því að beina jákvæðri athygli að óreyndum þingmanni en gera lítið úr möguleikum Guðlaugs Þórs.

Þótt alltaf sé tekið eftir því sem Össur Skarphéðinsson segir er líklegt að sjálfstæðismenn séu á verði og leggi sjálfir mat á vænlegasta formannsefnið þegar að valdaskiptum kemur. Og þá út frá hagsmunum Sjálfstæðisflokksins en ekki pólitískra andstæðinga.

Orðið á götunni er að vaxandi titrings gæti í forystu Sjálfstæðisflokksins vegna þeirrar skelfilegu þróunar sem fram hefur komið í skoðanakönnunum að undanförnu. Mönnum líður fráleitt vel með að Samfylkingin mælist nú með meira en þrjátíu prósent á meðan Sjálfstæðisflokkurinn er talinn halda stuðningi 18 prósent kjósenda í risastórum könnunum Gallups.

Beðið er nýrrar könnunar í lok næstu viku. Á meðan vex skjálftavirknin.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Segir 10 Prís verslanir opna á næsta ári

Segir 10 Prís verslanir opna á næsta ári
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Afhjúpar lævíst plott Sjálfstæðisflokksins til að tryggja sér fjárhagslega yfirburði – Svona reyndi hann að veikja samkeppnina

Afhjúpar lævíst plott Sjálfstæðisflokksins til að tryggja sér fjárhagslega yfirburði – Svona reyndi hann að veikja samkeppnina
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Halla endurnýjar listaverkin á Bessastöðum

Halla endurnýjar listaverkin á Bessastöðum
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu: Góð verslun fyrir jólin – sprenging í netverslun í nóvember

Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu: Góð verslun fyrir jólin – sprenging í netverslun í nóvember
Eyjan
Fyrir 1 viku

Björn Leví skrifar – Verri niðurstaða

Björn Leví skrifar – Verri niðurstaða
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sigmundur um vöruhúshneykslið – „Ekki skipulagsslys heldur skemmdar­verk”

Sigmundur um vöruhúshneykslið – „Ekki skipulagsslys heldur skemmdar­verk”