fbpx
Laugardagur 18.janúar 2025
EyjanFastir pennar

Steingerður Steinarsdóttir skrifar: Broskarl úr bankanum

Ólafur Arnarson
Mánudaginn 19. febrúar 2024 13:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég er nú svo gömul sem á grönum má sjá og hef þess vegna farið í gegnum nokkrar samskiptabyltingar. Þegar ég var að alast upp var síminn vissulega kominn inn á hvert heimili en það var dýrt að hringja og þótt sumir trúi því ekki þá kostaði meira að hringja til Vopnafjarðar en í vesturbæinn, enn meira að hringja til Danmerkur og guð hjálpi þeim sem átti ættingja í Afríku. Bréfaskriftir voru því helsta samskiptaleiðin milli landshluta og landa.

Það var mjög vinsælt á þessum árum að eiga pennavini. Ég átti fimm, meðal annars í Sandgerði, Bretlandi og Svíþjóð og á Vopnafirði. Maður lagði mikinn metnað í þessi skrif, keypti dýrum dómum fallegt bréfsefni í Pennanum, sem þá hafði ekki spyrst við Eymundsson, og reyndi svo að skrifa eitthvað áhugavert og skemmtilegt. Stundum var það þrautin þyngri, einkum og sér í lagi þegar baksað var við að skrifa á erlendu tungumáli því orðaforðinn var takmarkaður.

Svo kom að því að í skólanum var þess krafist að við lærðum vélritun og undirstöðu viðskiptabréfasmíða. Þetta fannst okkur vinkonunum arfavitlaus námsgrein, enda ætluðum við að ekki verða einkaritarar eins eða neins. Svona getur framtíðin oft verið óljós og duttlungafull því auðvitað var þetta blessað fag svo eitt það gagnlegasta.

Ég fór að vinna í banka og þar reyndi á kunnáttuna í viðskiptabréfaskiptum. Formið var fast og niður njörvað og ef vikið var frá því þótti það ekki svaravert. Ég varð fljótt sérfræðingur í ávörpum, tilvísunum í eldri bréf, númermerkingum mála og kveðjum er hæfðu hverju tilefni. Allt var þetta ritað á rafmagnsritvél og mikið var bankastarfsmaðurinn þakklátur þegar Tip Ex fann upp kalkipappír er hægt var að leggja á blaðið, slá á bókstafinn aftur þannig að hann yrði hvítur og þannig leiðrétta innsláttarvillur.

Telex og fax voru í næsta herbergi og þar var hægt að senda bréfin milli landa án aðstoðar póstþjónustunnar og vá, hvað þetta var ofboðslega framúrstefnulegt og stórkostlegt. Síminn var áfram dýr og aldrei notaður nema í neyð. Á þessum tíma var gert stólpagrín að myndsímum í sjónvarpsþætti. Rosalega fyndið að ná hugsanlega manneskju í rúminu gegnum slíkan síma, með rúllur í hausnum og maska í andlitinu. Dyrasímar með myndavél voru líka uppspretta slíkrar kátínu því auðvitað fannst okkur fjarstæðukennt að einhver myndi nokkru sinni geta leyft sér svo rándýran lúxus og hvað þá að þörf væri fyrir hann. Já, það er oft sannleikur í gömlum máltækjum, þeirra á meðal sá hlær best sem síðast hlær.

Svo komu tölvurnar, tölvupósturinn, netið og samskiptamiðlarnir. Þvílík bylting. Aldrei hefði manni dottið í hug að handan við hornið væru tölvur með myndavélum sem gerðu manni kleift að spjalla augliti til auglitis við fólk hinum megin á hnettinum. En allt er þetta orðið að veruleika og komið til að vera og með því nýjar og mjög svo varasamar leiðir til tjáningar. Já, ég er að tala um tjákn. Hverjum hefði dottið í hug að það að senda einhverjum fallega mynd af eggaldini fæli í sér vafasöm skilaboð, jafnvel tilboð. Ég veit alls ekki hvað epli þýðir á þessu nýja tungumáli og enn síður hvort óhætt er að senda litla teikningu af reiðhjóli. Og hvað þýðir krúttlegi bleiki kolkrabbinn?

Allar reglur og formfesta virðist flogið út um gluggann. Kurteislegu, auðmjúku og yfirveguðu ávörp viðskiptabréfanna eru liðin tíð. Sama um kveðjurnar og vinsamlegu beiðnirnar um að viðkomandi sinni nú vinnu sinni og reyni að leysa með þér vandamálið sem upp kom. Engum dettur heldur í hug að senda bréf milli landa með fréttum af sundnámskeiðinu sem hann er á og hvernig gekk í enskutíma í skólanum. Eiginlega gekk alveg yfir mig um daginn þegar ég átti í tölvupóstsamskiptum við bankann minn og starfsmaðurinn sem hafði leyst fyrir mig málið sendi mér glaðlegan, gulan broskarl í lokin. Söng ekki Þursaflokkurinn einhvern tíma; Nútíminn er trunta. En það á þó ekki alveg við því nútímatæknin er gæðingur sem skeiðar fram úr hverri aflóga bikkjunni á fætur annarri og þær eiga ekki annað val en haltra þar á eftir í veikri von um að þeir síðustu verði einhvern tíma fyrstir. Í millitíðinni ætla ég að forðast tjáknsendingar eins heitan eldinn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótauppgjör

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótauppgjör
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Ár íss og elda

Steinunn Ólína skrifar: Ár íss og elda
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar: Að festast í gíslingu ofstækisfólks

Björn Jón skrifar: Að festast í gíslingu ofstækisfólks
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Jólahugleiðing

Óttar Guðmundsson skrifar: Jólahugleiðing
EyjanFastir pennar
12.12.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ýmislegt stórt mun gerast

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ýmislegt stórt mun gerast
EyjanFastir pennar
09.12.2024

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu
EyjanFastir pennar
05.12.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Meirihluti fyrir málamiðlun um þjóðaratkvæði

Þorsteinn Pálsson skrifar: Meirihluti fyrir málamiðlun um þjóðaratkvæði
EyjanFastir pennar
01.12.2024

Björn Jón skrifar: Ástæða til bjartsýni á framtíðina

Björn Jón skrifar: Ástæða til bjartsýni á framtíðina