fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
EyjanFastir pennar

Steinunn Ólína skrifar: Brettum upp ermar

Eyjan
Föstudaginn 16. febrúar 2024 10:00

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir Mynd: Kári Sverrisson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nú sveipar sameiginleg sorg heiminn. Hún stafar af styrjöldum, óútreiknanlegri náttúru og gríðarlegu valdaójafnvægi. Aldrei hafa fleiri manneskjur á jörðinni verið á vergangi. Hér heima fyrir eru skyndilega mörg þúsund manns að leita sér að nýjum heimkynnum. Í töluvert meira skjóli reyndar en margir jarðarbúar en sorgin er engu að síður raunveruleg fyrir hvern og einn sem þetta reynir.

Það er morgunn á Reykjanesskaganum og risinn hrygglangi er nývaknaður eftir langan og djúpan svefn. Hvað hann vakir lengi veit enginn og kannski þarf þjóðin að hugsa fyrir því að þetta stígvélaða horn verði illbyggilegt sökum eldsumbrota, jafnvel um nokkrar aldir. Þetta er ekkert svartsýnisraus, þetta er bara alveg eins líklegt og sú hundaheppni sem það væri ef risinn legði sig nú aftur eftir nokkrar framúrferðir og ákvæði að sofa nokkrar aldir enn.

Í öllu falli þurfum við að gera ráð fyrir því að töluverðar breytingar á byggð á Íslandi geti orðið, umfram það sem við erum að horfa á nú þegar og því er ekki eftir neinu að bíða. Við verðum að gera ráð fyrir að geta komið enn fleira fólki fyrir annars staðar á landinu ef æðsta valdið, náttúran, svo fyrirskipar. Við þurfum að byrja þá uppbyggingu. Við hefðum reyndar átt að láta hendur standa fram úr ermum fyrir löngu því þótt við verðum ljónheppin og eldfjallaeyjan haldi sig á mottunni, munum við, eins og aðrar þjóðir, þurfa að taka á móti fólki alls staðar að, sem flýr náttúruhamfarir og styrjaldir. Og ekki síst að byggja upp manneskjulegan húsnæðismarkað fyrir okkar yngstu landa.

Við eigum öll rétt á að búa einhvers staðar, ekki satt? Jörðin er heimili allra sem á henni fæðast og þeir sem þykjast öðrum æðri afhjúpa aðeins ótta sinn og smæð. Hatursfull orðræða í garð annars fólks er óþroskað þindarviðbragð þeirra skíthræddu sem aldrei hafa lifað stríð eða þeirra sem halda að þeir grimmustu veiti þeim skjól.

Enginn fer varhluta af þessari heimssorg þótt viðbrögð við henni framkallist með ólíkum hætti í hverjum og einum. Kannski hefur mannkynið alltaf gengið í gegnum slíka harða umbreytingartíma, þar sem ytri ófyrirséðum áföllum og innri mannstýrðum átökum slær saman um einhvern tíma. Það hriktir í stoðum. Óvissa skapar ótta sem brýst út með ýmsum hætti svo sem eins og reiði, sorg, fyrirlitningu, örvilnan, doða, afneitun, uppgjöf eða heiftarfullu hatri. Munum að hatur fæðir aðeins af sér meira hatur.

Sumir gera því skóna að Þriðja heimsstyrjöldin sé hafin þótt fáir vilji segja það upphátt og því sé mætt með fáguðum aftengdum yfirbreiðslum. Nú er palestínska þjóðin í stöðu Gyðinga í Heimsstyrjöldinni síðari. Fjandi er það hart að hinir kúguðu gerist svo auðveldlega böðlar og varnarbandalög og Mannréttindadómstóll Evrópu sýni vanhæfi sitt þegar kemur að því að stöðva útrýmingu þjóða eða standa vörð um að ,,siðareglur“ í stríðum séu virtar.

Ísland var eins og margar þjóðir ekki áfjáð í að taka á móti Gyðingum í Seinni heimsstyrjöldinni en við vitum að íslenskt tónlistarlíf væri langt í frá í þeim blóma sem stendur ef ekki væri fyrir öfluga aðkomu hámenntaðs tónlistarfólks af gyðingaættum sem hingað kom og færði tónlistarmenntun og menningu þjóðarinnar á æðra plan. Við eigum framandi fólki alls staðar að úr heiminum, sem hingað hefur flutt mikið að þakka. Gleymum því aldrei. Gleymum heldur ekki þeim forréttindum sem við Íslendingar njótum, að geta nánast hvar sem er á hnettinum skotið rótum og hlotið almannaþjónustu.

Við lifum, hvað sem hver segir, á stríðstímum enda eru Íslendingar aðilar að þessu þjóðarmorði sem nú er framið á palestínsku þjóðinni fullstyrktu af þjóðum, sem við erum bundin samkomulagi. Bandaríkjamenn og Bretar dæla ómældu fjármagni til ísraelska hersins við lítinn fögnuð almennings í löndunum tveimur, sem upplifa hrun í velferðarkerfum stórþjóðanna tveggja. Af hverju erum við Íslendingar að apa allt eftir þjóðum sem eru bókstaflega með allt niðrum sig? Mér finnst í það minnsta ekki vel hugnanleg þessi sambúð við þessar herskáu þjóðir í augnablikinu og mér fyndist eðlilegra að við litum okkur nær og tækjum okkur friðsamlegri stöðu frekar en að vera eins og svívirtir valdalausir hermenn í taumi ófriðarsinna.

Forsætisráðherra virðist eins og Reykjanesskaginn vera að rumska og tjáði sig í vikunni, vegna nýuppkominnar stöðu á Reykjanesi, á þá leið að best færi á því að mikilvægir innviðir væru í almannaeigu og bætti jafnframt við að miklu máli skipti að aldrei væru undir aðrir hagsmunir en öryggi íbúa.

Guð láti á gott vita, segi ég nú bara, og mikið var. Batnandi fólki er best að lifa! Ættu nokkurn tímann aðrir hagsmunir að vera undir þegar innviðir eru annars vegar en að tryggja öryggi íbúa?

Við verðum að vona og með samstöðu tryggja að Grindvíkingar verði ekki fyrir efnahagslegum skaða vegna fyrirhyggjuleysis og stórgallaðra tilburða ríkisstjórnar til aðstoðar. Eignalaust og eignalítið fólk á ekki marga kosti í stöðunni í landi þar sem húsnæði á eignafélagsstýrðum markaði er af skornum skammti og lánaleiðir fráleitt öllum tryggar. Fólk í Grindavík hefur margt að auki misst atvinnu. Ætlum við að láta okkur þessa atburði að kenningu verða og koma í veg fyrir að skilja landa okkar eftir stórskaðaða og sameinast í framhaldinu um að byggja upp af fyrirhyggju, réttlátara og manneskjulegra samfélag fyrir alla?

Getum við því nú þegar skórinn kreppir lagt okkur fram um að sýna öðru fólki væntumþykju, skilning og samkennd? Öllu fólki. Í mótlæti búa tækifæri og nú er tækifæri til að standa saman um þá kröfu að sameiginlegir innviðir séu efldir og tryggðir. Að skrúfað sé fyrir fjárstreymi í vasa fárra úr almannasjóðum og frekari brunaútsölur á sameiginlegum auðævum stöðvaðar. Það er enginn að tala fyrir því að fólk megi ekki græða peninga og verða ríkt ef það er áhugamál fólks. Það þarf bara dálítið ímyndunarafl og sköpunargleði til að græða án þess að skerða sjálfsögð lífsgæði annarra í auðugu landi. Að velja sér að gera landa sína að ölmusufólki er svo glataður bisness og mannskemmandi ofan í kaupið. Þú þværð ekkert af þér að vera valdur að þjáningu og niðursetningu annara.

Er það ekki hagsmunamál okkar allra að einbeita okkur nú að því að laga til í eigin garði svo við getum örugg hér vel við unað og verið góðir gestgjafar þegar við, eins og aðrar þjóðir, þurfum að axla ábyrgð á hræðilegum stríðum sem háð eru óbeint í okkar nafni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða þjóðin

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða þjóðin
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Sveifluríkið Ísland

Sigmundur Ernir skrifar: Sveifluríkið Ísland
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa
EyjanFastir pennar
19.10.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Fimmtugastaogfyrsta ríkið

Óttar Guðmundsson skrifar: Fimmtugastaogfyrsta ríkið
EyjanFastir pennar
18.10.2024

Steinunn Ólína skrifar og talar: Loftlausir hoppubelgir

Steinunn Ólína skrifar og talar: Loftlausir hoppubelgir
EyjanFastir pennar
11.10.2024

Svarthöfði skrifar: Eins og farsi eftir Dario Fo

Svarthöfði skrifar: Eins og farsi eftir Dario Fo
EyjanFastir pennar
11.10.2024

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd): Sameinumst – hjálpum þeim

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd): Sameinumst – hjálpum þeim