fbpx
Laugardagur 18.janúar 2025
EyjanFastir pennar

Svarthöfði skrifar: Er ríkismiðlinum haldið í stöðugri gíslingu?

Svarthöfði
Sunnudaginn 11. febrúar 2024 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Engu máli skiptir hvaða ríkisstjórnir eru við völd, hvaða menntamálaráðherra fer með æðsta vald í málefnum ríkismiðilsins eða hver er útvarpsstjóri. Þótt skipt sé um ríkisstjórn, stjórn RÚV eða útvarpsstjóra breytist ekki neitt. Nokkrir þaulsetnir einstaklingar í hópi starfsmanna ráða öllu sem þeim sýnist og fara sínu fram, bara rétt eins og venjulega. Þeim er nákvæmlega sama um orð og yfirlýsingar þingmanna, ráðherra eða annarra sem þykjast láta sér málefni ríkismiðilsins varða.

Svarthöfða finnst þetta að sumu leyti bara fyndið. Er þetta ekki hið fullkomna fyrirtækjalýðræði þar sem fólkið á gólfinu ræður því sem það vill ráða en eigendur, hvort heldur þeir eru einkaeigendur, eða kjörnir fulltrúar opinberra aðila ef um opinber fyrirtæki er að ræða, ráða engu og eru einskis spurðir. Ef um einkafyrirtæki er að ræða leiða svona stjórnarhættir yfirleitt til gjaldþrots á tiltölulega skömmum tíma en sé um opinber fyrirtæki að ræða eru einfaldlega sóttir meiri skattpeningar í opinbera sjóði sem eru að sjálfsögðu ótæmandi eins og allir vita.

Einn af minni spámönnum í hópi alþingismanna Sjálfstæðisflokksins, Óli Björn Kárason, hefur nokkrum sinnum skrifaðgrein um að breyta þurfi um fyrirkomulag á rekstri ríkisútvarpsins og sjónvarpsins. Í síðustu viku birti hann þessa grein í Morgunblaðinu enn á ný. Jafnan er um sömu greinina að ræða sem er vitanlega mjög handhægt enda óþarfi að flækja málflutninginn með nýjum upplýsingum. Óli Björn vill hætta að rukka alla landsmenn um útvarpsgjald en láta ríkismiðilinn sækja styrki sína til hins opinbera í gegnum fjárlög eins og aðrar ríkisstofnanir verða að gera, svo sem Þjóðleikhúsið, Sinfónían, Hagstofan og Fangelsismálastofnun, svo einhverjar séu nefndar. Þetta er ekki falleg tillaga hjá þingmanninum því það er vitaskuld svo handhægt hjá ríkismiðlinum að fá bara sínar tekjur refjalaust, hækkandi með aukinni verðbólgu og hækkandi með auknum fjölda innflytjenda, enda er um skatt per haus að ræða.

Þess vegna þarf ríkismiðillinn aldrei að spara, skera niður, beita aðhaldi eða sýna ráðdeild í rekstri, eins og aðrir, enda er það hundleiðinlegt og gott að vera laus við slíkt. Óli Björn benti á að rekstrartekjur RÚV á síðustu tíu árum nema um 80 milljörðum króna á núverandi verðlagi og fara árlega hækkandi. Óþarfa nöldur hjá þingmanninum því hvað ætti ríkissjóður svo sem að gera við tugi milljarða sem hefðu sparast ef ríkismiðlinum hefði verið gert að draga saman seglin og spara eins og víða þykir við hæfi.

Nöldur í garð RÚV hefur heyrst á landsfundum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar í áratugi þar sem samþykktar hafa verið ályktanir um að draga stórlega úr umsvifum ríkismiðla og stokka þar upp með sparnað og niðurskurð að leiðarljósi. Ekkert hefur verið gert með þessar ályktanir enda eru það bara leiðindi að sækja að opinberum stofnunum og krefjast ráðdeildar.

Þegar þessir flokkar mynduðu ríkisstjórn árið 2013 höfðu menn uppi miklar heitingar um að taka nú til hjá RÚV. Sjálfstæðisflokkurinn skipaði menntamálaráðherra, Illuga Gunnarsson, sem gerði nánast ekki neitt í valdatíð sinni. Þó skipti hann um stjórn hjá RÚV sem rak útvarpsstjórann, Pál Magnússon, og réði prýðilegan eftirmann. Þessi ráðstöfun breytti engu öðru en því að Páll Magnússon gekk í Sjálfstæðisflokkinn viku fyrir prófkjör á Suðurlandi, velti þáverandi ráðherra flokksins úr sessi og sat á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í fimm ár. Svarthöfða finnst að svona eigi menn einmitt að bregðast við þegar þeir eru reknir úr starfi.

Eftir að Illugi lét af starfi ráðherra eftir tæp fjögur ár og litla afrekaskrá, tók Kristján Þór Júlíusson við í tæpt ár og gerði nákvæmlega ekkert. Þá kom Lilja Alfreðsdóttir í ráðherrastól sem æðsti yfirmaður RÚV. Hún sýndi mikið lífsmark með því að tala og tala út í eitt um að gera breytingar á ríkismiðlinum. Nú er hún bráðum búin að tala um þetta í sjö ár en ekkert hefur gerst. Mörg orð en engar breytingar.

Hvers vegna ætti líka að vera að gera breytingar á þessum vinnustað sem er svo næs og huggulegur. Fólk vill ekki hætta að vera þarna á launum, jafnvel þó það sé komið fram yfir allan tíma sem leyfilegt er að starfa þarna vegna aldurs. Bogi Ágústsson er gott dæmi um það, bráðum 72 ára og enn þá andlit fréttastofu sjónvarpsins þótt á áttræðisaldri sé. Er forseti Bandaríkjanna ekki enn þá eldri? Er nokkur ástæða til að hrófla við fólki sem heldur úti hundleiðinlegum skemmtiþáttum eða menningarsnauðum menningarþáttum? Ekki er heldur dregið í land varðandi Eurovision, þótt mikil óvissa ríki um þátttöku Íslands í keppninni. Um að gera að halda bara áfram eins og allt sé í sóma og nota sama fólkið, sömu brandarana og sama flissið eins og verið hefur síðustu fimmtán ár hjá meira og minna sama fólkinu. Svarthöfða finnst engin ástæða til að breyta því sem er kósí og huggulegt. Og hvað ætti þetta fólk að fara að gera ef niðurskurðarhnífi væri beitt á það?

Svarthöfða finnst allt tal um að ríkismiðillinn sé andsetinn og nánast í gíslingu fólksins sem telur sig eiga þessa stofnun sem öll þjóðin ár vera út í hött. RÚV OKKAR ALLRA er slagorðið. Auðvitað eiga þau þetta líka eins og við öll hin sem fáum að borga skattinn og tryggja áframhaldandi átta milljarða á ári í þennan samkeppnisrekstur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótauppgjör

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótauppgjör
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Ár íss og elda

Steinunn Ólína skrifar: Ár íss og elda
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar: Að festast í gíslingu ofstækisfólks

Björn Jón skrifar: Að festast í gíslingu ofstækisfólks
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Jólahugleiðing

Óttar Guðmundsson skrifar: Jólahugleiðing
EyjanFastir pennar
12.12.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ýmislegt stórt mun gerast

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ýmislegt stórt mun gerast
EyjanFastir pennar
09.12.2024

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu
EyjanFastir pennar
05.12.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Meirihluti fyrir málamiðlun um þjóðaratkvæði

Þorsteinn Pálsson skrifar: Meirihluti fyrir málamiðlun um þjóðaratkvæði
EyjanFastir pennar
01.12.2024

Björn Jón skrifar: Ástæða til bjartsýni á framtíðina

Björn Jón skrifar: Ástæða til bjartsýni á framtíðina