fbpx
Fimmtudagur 21.nóvember 2024
Eyjan

Óstjórn, hringl, kalt stríð, samdráttur, glötuð ár – þetta er arfleifð ríkisstjórnar Katrínar og Bjarna

Ólafur Arnarson
Föstudaginn 9. febrúar 2024 13:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Athygli vakti á þriðjudagskvöldið er Bjarni Benediktsson, utanríkisráðherra, mætti í viðtöl í beinni útsendingu í fréttatímum Stöðvar tvö og Ríkissjónvarpsins að þótt fréttakonurnar Thelma Tómasson og Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir gengju báðar rösklega til verks og reyndu með eftirfylgju að fá svar frá Bjarna við einfaldri spurningu kom fátt annað en orðhengilsháttur og útúrsnúningar frá ráðherranum.

Spurningin einfalda var sú hvort ágreiningur væri í ríkisstjórninni um hvað gera skuli varðandi á annað hundrað Palestínumanna, aðallega kvenna og barna, sem veitt hefur verið landvistarleyfi hér á landi á grundvelli fjölskyldusameiningar.

Bjarni fór undan í flæmingi, talaði um að málið væri flókið, það yrði að skoða í víðara samhengi og endurskoða þyrfti og móta nýja stefnu í útlendingamálum áður en hægt væri að gera neitt í málunum. Nefndi hann, réttilega, að kostnaður við útlendingamálin er kominn fram úr öllu hófi hér á landi og tilefni er að endurmóta stefnu sem hefur leitt til þess að við Íslendingar tökum við margfalt fleiri hælisleitendum hlutfallslega en aðrar þjóðir. Þetta eru hins vegar ekki rök fyrir því að standa ekki við gefin loforð – Palestínumennirnir 128 hafa gilt landvistarleyfi hér á landi og varla ætlar ríkisstjórnin að ganga gegn gefnu loforði, eða hvað?

Við áhorfendum sjónvarpsfrétta á þriðjudaginn blasti að svarið við spurningunni sem Bjarni var á hlaupum undan er að vissulega er bullandi ágreiningur innan ríkisstjórnarinnar um þetta mál. Svo mikill ágreiningur að engin ákvörðun hefur verið tekin né heldur er nein ákvörðun í augsýn. Ríkisstjórnin fundar um málið út í eitt en á sama tíma ferðast þrjár íslenskar konur á eigin vegum til Egyptalands og tekst á þremur dögum að ná fjögurra manna fjölskyldu frá Gaza til Egyptalands. Þannig að bersýnilega er verkefnið ekki svo flókið að það sé ekki framkvæmanlegt.

Bullandi ágreiningur um stærstu mál

Já, bullandi ágreiningur er um útlendingamálin í ríkisstjórninni og á þeim vettvangi gerist ekkert. En útlendingamálin eru ekki einu málin sem eru strand vegna þess að í ríkisstjórninni er hver sátthöndin upp á móti hver annarri, eins og það var einhvern tímann orðað.

Í orkumálum hefur ekkert gerst í tíð þessarar ríkisstjórnar. Stafar það fyrst og fremst af því að þrátt fyrir að Sjálfstæðisflokkur og Framsókn séu samstiga í þeim málum eru Vinstri græn á öndverðum meiði, vilja ekki láta virkja meira hér á landi, og af einhverjum óskiljanlegum ástæðum hefur þeim verið falið dagskrárvald í þessum málaflokki.

Loftslagsmálin eru nátengd orkumálunum, ekki síst vegna þess að til að ná markmiðum okkar í þeim orkuskiptum sem eru nauðsynleg og við höfum skuldbundið okkur til að framkvæma þarf að virkja – og það þarf að virkja mikið. Þetta mega Vinstri græn ekki heyra minnst á. Ekki má hrófla við einni einustu þúfu hér á landi til að framleiða meiri græna og sjálfbæra orku. Eina svarið sem þeir bjóða upp á er að við verðum að draga úr orkunotkun, t.d. með því að loka stóriðjuverum hér á landi.

Hugmyndir Vinstri grænna í orku- og umhverfismálum eru slíkar að furðulegt má telja að forystumenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar hafi ekki búið vandlega svo um hnútana að sú öfgastefna yrði ekki ráðandi í þeirra umboði.

Á meðan sjálfsagt er að reynt sé eftir megni að spara orku og auka orkunýtni er algerlega tómt mál að tala um að draga úr orkunotkun með lokun stóriðjuvera. Landsvirkjun og fleiri orkufyrirtæki eru bundin af langtíma orkusölusamningum við stóriðjuna í landinu. Gleymum því ekki að orkukaup stóriðjunnar síðustu 60 árin eða svo eru sú stoð sem uppbygging innlendrar, sjálfbærrar orkuframleiðslu byggir á. Þá blasir við að ef við lokum stóriðju hér, stóriðju sem er keyrð á sjálfbærri íslenskri orku, færist sú stóriðja bara til Kína og annarra landa sem byggja orkuframleiðslu sína á jarðefnaeldsneyti. Við getum ekki horft á Ísland eitt og sér. Það sem við gerum hér hefur áhrif á allan heiminn og við berum ábyrgð.

Uppbygging sjálfbærrar orkuframleiðslu hér á landi hefur gerbreytt öllu okkar lífsumhverfi. Um langt skeið höfum við gengið að því vísu að hafa aðgang að nægu rafmagni til allra hluta. Margir sem komnir eru á miðjan aldur og rúmlega það muna vel eftir því þegar fólk var beðið um að spara rafmagn og heitt vatn á aðfangadag vegna þess að kerfin okkar önnuðu ekki álaginu þegar allar fjölskyldur landsins settu jólasteikina í ofninn á sama tíma og skelltu sér svo í jólabaðið. Aðgerðaleysi þessarar ríkisstjórnar í orkumálum gerir það að verkum að nú stefnir í að þessir tímar snúi aftur. Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, hefur raunar varað við því hverjar geti orðið afleiðingar orkuskorts hér á landi þar sem engin lög eru til staðar sem tryggja heimilum forgang að rafmagni.

Hringl og kyrrstaða

Erfitt er að finna einn einasta málaflokk sem hefur ekki verið í biðstöðu, kyrrstöðu eða hreinni afturför í þau rúmlega sex ár sem þessi ríkisstjórn hefur starfað. Athyglisvert er að Sjálfstæðisflokkurinn hefur farið með þau tvö ráðuneyti sem hann leggur hvað mesta áherslu á allan þennan tíma. Raunar hefur Sjálfstæðisflokkurinn farið með dómsmálaráðuneytið og fjármálaráðuneytið nær óslitið í tæp 11 ár.

Útlendingamálin heyra undir dómsmálaráðuneytið. Bjarni Benediktsson segir útlendingamálin vera stjórnlaus. Það er þá væntanlega við hann og hans flokk að sakast í þeim efnum. Frá 2013 hafa sjö ráðherrar Sjálfstæðisflokksins setið í dómsmálaráðuneytinu. Fyrir ríkisráðsfund 19. júní 2023 lýsti Bjarni því yfir að þingið hefði brugðist í málefnum útlendinga, ráðherrar hans flokks hefðu lagt fram frumvörp í málaflokknum en allt hefði strandað í þinginu. Á ríkisráðsfundinum lét Jón Gunnarsson, reynslumikill stjórnmálamaður, af embætti dómsmálaráðherra og við tók Guðrún Hafsteinsdóttir, nýgræðingur í pólitík, handvalin af Bjarna Benediktssyni. Bjóst hann við að þetta myndi skila árangri? Raunar er það umhugsunarefni hvers kyns ruslakista dómsmálaráðuneytið er í hugum þeirra sem að jafnaði setja nýjan ráðherra þar inn á rösklega eins og hálfs árs fresti.

Sjálfur hefur Bjarni verið fjármálaráðherra frá 2013 að undanskildum nokkrum mánuðum árið 2016 er hann gegndi embætti forsætisráðherra. Óhætt er að segja að útþensla ríkisins hafi verið óheft á þessum tíma, ekki síst frá því að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur tók við völdum í árslok 2017. Ríkissjóður hefur enda verið rekinn með halla á hverju einasta ári sem þessi ríkisstjórn hefur setið.

Hvaða hagstjórn?

Vitaskuld hafði Covid mikil áhrif og ekki hægt að gagnrýna það að ríkissjóður taki lán til að styðja við atvinnulífið og heimilin í landinu við slíkar kringumstæður. Nú er Covid hins vegar löngu liðið en hallarekstur ríkissjóðs er áfram botnlaus og það þrátt fyrir að tekjurnar séu jafnan langt umfram væntingar. Þetta þýðir aðeins eitt. Engin bönd eru á hagstjórninni.

Þetta hefur haft gríðarlega alvarlegar afleiðingar fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu vegna þess að lántökur og seðlaprentun ríkisins í Covid hafði fyrirsjáanleg áhrif. Verðbólgan fór af stað svo um munaði. Þetta var fyrirsjáanlegt. Raunar má mikilli furðu sæta að svo virðist sem lítið eða ekkert samráð hafi verið milli ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans á tímum Covid um viðbrögð við þeim áhrifum sem faraldurinn hafði á atvinnulífið og hagkerfið. Niðurstaðan varð sú að ríkið sást ekki fyrir í peningaprentun sinni á sama tíma og Seðlabankinn keyrði vexti allt of langt niður – hið minnsta ef vaxtastigið er skoðað í samhengi við ríkisútgjöldin.

Eftir Covid kom verðbólgan og Seðlabankinn tók að hækka vexti. Í stað þess að ríkisstjórnin legðist á árar með Seðlabankanum í baráttunni við hana með aðhaldi í ríkisfjármálunum hélt eyðslan áfram, ekkert lát á fjármálahallanum – peningum spreðað á alla bóga. Skemmst er þess að minnast að ekki þótti tiltökumál að punga út 2,5 milljörðum í að stofna nýtt og óþarft ráðuneyti til að fjölga ráðherrastólunum við ríkisstjórnarborðið.

Hagvöxtur, eða hvað?

Helst hefur ríkisstjórnin hreykt sér af því að hagvöxtur hér á landi sé mun meiri en í öðrum OECD-löndum, sem sýni og sanni að hér sé svo sannarlega hagstjórn til fyrirmyndar, raunar öðrum ríkjum til eftirbreytni. Seðlabankinn virðist hafa trúað fullyrðingunum um hagvöxtinn þótt af öllu sé ljóst að seðlabankastjóri féll ekki fyrir fagurgala fjármálaráðherra um frábæra hagstjórn.

En hagvöxturinn var tálsýn ein. Þvert á fullyrðingar stjórnvalda hefur hagvöxtur hér á landi verið með því lægsta sem þekkist innan OECD frá því Covid lauk. Aukning þjóðartekna byggðist ekki á framleiðniaukningu – aukinni verðmætasköpun á hvert mannsbarn í landinu – heldur því að fólksfjölgunin hér hefur verið gríðarleg. Hingað til lands streymir erlent verkafólk til starfa í stærstu og mikilvægustu útflutningsgrein þjóðarinnar, ferðaþjónustunni. Hagvöxturinn er hins vegar enginn og á þessu ári stefnir á samdrátt. Nú berast fregnir af því að Hagstofan hyggist fækka landsmönnum um nokkur þúsund, mörg ár aftur í tímann. Breytir það litlu í þessum efnum.

Þetta þýðir að þjóðarkakan – það sem er til skiptanna – heldur ekki í við fólksfjölgunina. Lífskjör þjóðarinnar eru að skerðast. Þetta þýðir líka að launahækkanir eru ávísanir á viðvarandi verðbólgu.

Nú stendur ríkisstjórnin frammi fyrir annarri stórkrísu. Svo virðist sem Grindavík verði ekki íbúðarhæfur staður um fyrirsjáanlega framtíð. Beinn kostnaður ríkisins vegna þessa mun að líkindum verða í kringum 100 milljarðar þegar upp er staðið. Ríkisstjórninni ætti að takast að klóra sig fram úr því, ekki síst vegna þess að breið pólitísk samstaða virðist um að Grindvíkingar skuli ekki verða fyrir alvarlegum fjárhagsáföllum vegna náttúruhamfara. Sporin hræða hins vegar þegar kemur að ríkisfjármálum og hagstjórn og þess er vart að vænta að þessi ríkisstjórn komi með raunhæfar mótvægisaðgerðir til að vega á móti slíkri 100 milljarða innspýtingu í hagkerfið.

Kalt stríð

Þegar horft er yfir feril ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur standa nokkur atriði upp úr. Sennilega voru ekki aðrir raunhæfir stjórnarmyndunarkostir í boði þegar hún var mynduð í árslok 2017. Hið sama gildir ekki um stjórnarmyndunina 2021. Þá hefðu Framsókn og Sjálfstæðisflokkur hæglega getað skipt út Vinstri grænum, sem töpuðu stórt í kosningunum, og fengið inn í ríkisstjórn flokk sem stæði þeim nær málefnalega en VG. Þá hefði líkast til verið hægt að höggva á kyrrstöðuhnútinn sem VG hefur hnýtt í mikilvægum málaflokkum á borð við orkumál og útlendingamál.

Grunnstoð ríkisstjórnarsamstarfsins hefur frá upphafi verið vinátta og traust sem ríkir milli Katrínar Jakobsdóttur og Bjarna Benediktssonar. Sjálfsagt hefði verið ómögulegt fyrir þessa tvo andstæðu póla í íslenskri pólitík, Sjálfstæðisflokkinn og Vinstri græn, að fara saman í ríkisstjórn án þess að sérstakt trúnaðarsamband ríkti milli formanna flokkanna. Engum dylst að samband Katrínar og Bjarna er hvergi nærri eins náið var í upphafi. Trúnaðurinn er ekki sá sami. Bjarni tekur stórar ákvarðanir í utanríkismálum án þess að svo mikið sem kynna forsætisráðherra um þær fyrir fram

Enginn veit hvernig þingmenn Sjálfstæðisflokksins hefðu greitt atkvæði um vantrauststillögu á Svandísi Svavarsdóttur ef sú tillaga hefði ekki verið dregin til baka eftir að Svandís upplýsti um alvarleg veikindi sín og veikindafrí.

Segja má að innan ríkisstjórnarinnar ríki nú kalt stríð og ástandið er viðkvæmt.

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur verið nefnd kyrrstöðuríkisstjórn vegna þess að ekkert samkomulag er milli stjórnarflokkanna um stefnu í mikilvægum málaflokkum og þar af leiðandi gerist ekkert á þeim sviðum. Þetta er hins vegar ekkert nýtt. Svona var þetta allt frá upphafi 2017, enda, hvernig áttu þessir ólíku flokkar að geta komið sér saman um stefnu í málum sem eru mörg hver meðal helstu ágreiningsmála í íslenskum stjórnmálum?

Hörmungar bjarga stjórninni í tvígang

Raunar var farið að bera á þreytu í stjórnarsamstarfinu þegar upp úr miðju fyrra kjörtímabili stjórnarinnar. En þá kom Covid. Heimurinn lokaðist og þríeyki sérfræðinga var falið að stjórna daglegu lífi fólks og fyrirtækja. Ríkisstjórnin fór að prenta peninga og vinsældirnar, sem dvínað höfðu stöðugt frá því hún tók við völdum, jukust dag frá degi. Ríkisstjórnin naut þess að pólitíkin var tekin út af borðinu. Allt snerist um faraldurinn.

Faraldurinn var farinn að réna verulega þegar kosið var til þings. Í kosningunum töpuðu bæði Sjálfstæðisflokkurinn og VG fylgi – VG þó sýnu meira. Ríkisstjórnin hefði fallið hefði þjóðin ekki fallið fyrir einhverju innihaldslausasta slagorði seinni tíma: Er ekki bara best að kjósa Framsókn? Framsókn vann stórsigur og þrátt fyrir tap beggja hinna stjórnarflokkanna var stjórnarsamstarfið endurnýjað. Sem fyrr segir kostaði sú stjórnarmyndun 2,5 milljarða sem fóru í stofnun nýs ráðuneytis og uppstokkun stjórnarráðsins sem m.a. leiddi til þess að nú hefur enginn einn aðili yfirsýn yfir skólamál hér á landi.

Glötuð ár

Áður en jarðhræringar og jarðeldar tóku til við að ógna Grindavík fyrir alvöru seint á síðasta ári benti margt til þess að sigling þessar stjórnarfleys yrði ekki mikið lengri. Þreytan og gagnkvæm andúð þingmanna stjórnarflokkanna – og jafnvel ráðherra í ríkisstjórninni – var öllum ljós. En svo kom þjóðarvá, rétt eins og í Covid, og þá breytist allt. Segja má að tveir hörmungaratburðir hafi gefið þessari ríkisstjórn líflínur. Covid árið 2020 og jarðeldar við Grindavík 2023 og 2024.

Færa má rök fyrir því að fyrir vikið verði afleiðingar Covid og jarðelda á Reykjanesi okkur Íslendingum dýrkeyptari en ella. Án Covid er óvíst að þessi ríkisstjórn hefði lifað út síðasta kjörtímabil. Nú lítur út fyrir að þjóðin þurfi að sitja af sér tvö kjörtímabil, heil átta ár, með ríkisstjórn sem hefur það eitt að markmiði að sitja sem fastast. Afrakstur stjórnarsamstarfsins er átta glötuð ár.

Og nú er svo komið að óbreyttir borgarar stíga inn og redda hlutunum á meðan ríkisstjórnin fundar og fundar en nær engri samstöðu um. Arfleifð ríkisstjórnar Katrínar og Bjarna í hnotskurn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Arion banki sá að sér eftir að upp úr sauð á Fjármálatips

Arion banki sá að sér eftir að upp úr sauð á Fjármálatips
Eyjan
Í gær

Gunnar bendir á sláandi staðreynd um stýrivextina – „Hvergi í veröldinni er auður hinna ríku varinn af eins miklum ákafa“

Gunnar bendir á sláandi staðreynd um stýrivextina – „Hvergi í veröldinni er auður hinna ríku varinn af eins miklum ákafa“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Kosningar: Lilja og Alma takast á um skatta og innviðafjárfestingu

Kosningar: Lilja og Alma takast á um skatta og innviðafjárfestingu
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Bregðast við stjórnarskrárbroti Alþingis – „Þetta er hið raunverulega andlit og arfleifð Sjálfstæðisflokksins“

Bregðast við stjórnarskrárbroti Alþingis – „Þetta er hið raunverulega andlit og arfleifð Sjálfstæðisflokksins“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Ragnar segir tíma til kominn að þora að spyrja stóru spurninganna um lífeyrissjóðina – „Við erum þrælar eigin kerfis“

Ragnar segir tíma til kominn að þora að spyrja stóru spurninganna um lífeyrissjóðina – „Við erum þrælar eigin kerfis“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Þingkosningar: Lilja segir ríkisstjórnina hafa fjárfest mikið í innviðum – Alma segir innviðskuldina ógna orkuskiptum

Þingkosningar: Lilja segir ríkisstjórnina hafa fjárfest mikið í innviðum – Alma segir innviðskuldina ógna orkuskiptum
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Grein 4 um ESB/evru: Þýzkaland tók evru fram yfir sitt ofursterka mark (DM) – hvað segir það okkur?

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Grein 4 um ESB/evru: Þýzkaland tók evru fram yfir sitt ofursterka mark (DM) – hvað segir það okkur?