Það er í lagi að hækka stýrivexti 14 sinnum í röð og banna öðrum að hækka vöruverð – segja þeim bara að framleiða áfram og hlaupa hraðar. Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, segir að himinháir vextir, sem fyrir ekki mörgum árum hefðu talist glæpsamlegir, ógni frumframleiðslu matvæla í landinu og þar með matvælaöryggi. Hann telur eðlilegt að fá óháða erlenda sérfræðinga til að gera úttekt á gjaldmiðlinum eins og Vilhjálmur Birgisson hefur lagt til. Gunnar er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Markaðarins á Eyjunni.
„Ef við ætlum að horfa á þetta svona til framtíðar og ef við hefðum sýn til 50 ára, sem væri nú kannski dálítið göfugt á Íslandi, en við hugsum alltaf dálítið í kjörtímabilum. Ég held að við verðum að fara að hafa langtímasýn í fjárfestingu fyrir fæðuöflun fyrir íslenska þjóð,“ segir Gunnar.
„Hvernig ætlum við að tryggja – til að við séum samkeppnishæfari á móti innflutningi – fæðusjálfstæði þjóðarinnar? Er þá einhver goðgá að segja að þeir sem framleiða matvæli í frumframleiðslu séu á einhverju skilgreindu vaxtastigi, hvort sem það er í gegnum Byggðastofnun eða einhverja aðra stofnun …“
En hefur þetta ekki verið reynt með einhverjum útfærslum áður?
„Jú, einu sinni var nú til Lánasjóður landbúnaðarins en hann var nú seldur í Landsbankann sælla minninga. Ég hef oft velt því fyrir mér af hverju við gerðum það, en það var nú löngu fyrir mína tíð,“ segir Gunnar.
En væri ekki miklu eðlilegra að horfa á, bíddu, það er ekki bara frumframleiðslan í landbúnaði sem býr hér við miklu hærra vaxtastig en frumframleiðendur í Evrópu. Það eru öll íslensk fyrirtæki, öll íslensk heimili, sem búa við miklu hærra vaxtastig en tíðkast í Evrópu Er ekki eðlilegra að horfa almennt á þetta? Hvað getum við gert til þess að almennt ná niður vaxtastiginu hér á Íslandi?
„Jú, jú, ekki spurning um það, ég geri ekki lítið úr því. Ég er algerlega Sammála þér í því.“
Vilhjálmur Birgisson, hann setti nú fram tillögu í haust, sem reyndar ríkisstjórnin hafnaði og samtök atvinnulífsins líka, en hann lagði til að það yrðu fengnir óháðir erlendir sérfræðingar til þess að gera úttekt á gjaldmiðlinum okkar; bara er hann að þjóna okkur eða er hann vandamál fyrir okkur? Margir eru á þeirri skoðun að gjaldmiðillinn sé í raun og veru orsök að verulegu leyti, ekki einn og sér en að verulegu leyti, orsök þess mikla vaxtamunar sem er á milli Íslands og Evrópu. Hvað finnst þér um tillögu Vilhjálms? Finnst þér rétt að skoða þetta?
„Ég held að það saki nú ekkert að skoða þetta. Ég er ekki í pólitík með það að reyna að taka upp evru eða dollar eða eitthvað svoleiðis. Málið snýst ekkert um það heldur erum við bara bændur, frumframleiðendur á landinu, og við þurfum einhvern veginn í veraldarsögunni að geta lifað í sátt og samlyndi í þjóðfélaginu og hvort krónan sé góð eða vond, ég ætla ekkert að hafa skoðun á því að örðu leyti en því að mér finnst bara algerlega orðið galið – það eru nú ekki mörg ár síðan menn voru vændir um okurlánastarfsemi ef þeir voru með lán á 20 prósent vöxtum. Við erum nú bara nánast þar í gegnum bankakerfið og hvað flokkast það þá undir annað en okurlánastarfsemi ef þetta var glæpsamlegt fyrir, hvað, 15-20 árum?
Það gengur ekkert upp í mínum einfalda hagfræðingahaus að vera með vaxtastigið á þessum grunni og segja svo með hinni hendinni að það megi alls ekki hækka vörur en það megi hækka stýrivexti 14 sinnum og segja okkur hinum að halda áfram að framleiða og hlaupa bara hraðar. Þetta gengur ekkert upp,“ segir Gunnar.
Nei, þetta sjá bændur, þetta sjá heimilin í landinu og þetta sjá öll fyrirtæki nema kannski þessi 250 sem gera upp í evrum eða dollurum eftir atvikum.
„Algerlega.“
Í hlaðvarpinu ræða þeir Gunnar og Ólafur um stöðu íslenskra bænda gagnvart innflutningi, sem er helsta samkeppnin við íslenskan landbúnað. Talið berst að Evrópusambandinu og hugsanlegri aðild Íslands að því og hver gætu orðið áhrif aðildar á íslenskan landbúnað og íslenska bændur. Byggðastefnan er rædd og matvælaöryggi. Þá er líka fjallað um mest lesna blað landsins og margt fleira.
Hlaðvarpið í heild verður aðgengilegt hér á Eyjunni í fyrramálið, laugardaginn 10. febrúar, kl. 8.