Kristrún Frostadóttir verður að gæta sín á lukkuriddurum sem hyggjast nýta sér risafylgi flokksins til persónulegs framdráttar og komast á þing. Ólafur Arnarson sendir Kristrúnu aðvörunarorð í nýjum Dagfarapistli á Hringbraut og nefnir m.a. til sögunnar, án þess að nefna á nafn, fjölmiðlamann sem fram til þessa hafi verið harður yst á vinstri jaðri stjórnmálanna – í VG eða jafnvel Sósíalistaflokki Gunnars Smára – sem nú hafi skyndilega fundið köllun sína sem krati. Skrifar Ólafur að þetta sé dæmigerður tækifærissinni sem geri sér vonir um að fljóta inn á þing á vinsældum flokks sem í áratug hafi átt undir högg að sækja.
„Vandi formanns Samfylkingarinnar verður að velja og hafna og standast ásókn alls konar fólks sem sér nú tækifæri til að komast á Alþingi, ná meintum völdum og tryggja sér eina og hálfa milljón króna í örugg laun á mánuði, hið minnsta. Hér er um að ræða dygga flokksmenn sem telja að röðin sé nú komin að þeim eftir göngu um djúpan dal. Þá má nefna fjölda fólks sem þegar er starfandi fyrir flokkinn í sveitarstjórnum, einnig tækifærissinna úr mörgum áttum, sjálfskipaðra fulltrúa ýmissa hagsmunahópa, raunverulegra og ímyndaðra. Haldi Samfylkingin áfram að mælast í svipuðum hæðum munu þessir aðilar banka og sækjast eftir öruggum sætum á listum flokksins til að komast á Alþingi og styðja ríkisstjórn undir forsæti formanns Samfylkingarinnar,“ skrifar Ólafur.
Tilefni skrifanna er nýjast könnun Gallups sem sýnir samfylkinguna með 30,6 prósent fylgi á meðan aðrir flokkar eru í basli, nema Miðflokkurinn sem er kominn í 10,9 prósenta fylgi en fékk einungis rúm fimm prósent í síðustu kosningum.
Hann varar samt við því að hér sé einungis um skoðanakönnun að ræða þótt hún sé stór. Niðurstöður hennar séu reyndar í miklu samræmi við þá þróun sem verið hefur síðustu 12 til 15 mánuðina eftir að formannsskipti urðu í Samfylkingunni og óeining innan ríkisstjórnarflokkanna varð áþreifanleg.
Ólafur varar Kristrúnu við því að fylgi í skoðanakönnunum sé sýnd veiði en ekki gefin. Eitt af því sem hún þurfi að varast sé ásókn lukkuriddara sem nú hugsi sér gott til glóðarinnar þegar þeir sjá hverju flugi Samfylkingin er á. Hann segir fólk á borð við Dag B. Eggertsson munu styrkja flokkinn og nefnir einnig til sögunnar fyrrverandi þingmennina Guðmund Árna Stefánsson, varaformann flokksins, Sigmund Erni Rúnarsson, Björgvin Sigurðsson og Rósu Björk Brynjólfsdóttur. Þá reiknar hann með því að fimm af sex núverandi þingmönnum flokksins sitji áfram á þingi
Ólafur segir Kristrúnu verða að fylgjast vel með þeim sem birtast á lokametrunum og segja: „Nú get ég.“
Hann minnir á að þótt fylgi Sjálfstæðisflokks og Framsóknar hafi minnkað mikið og skreppi í raun sama vegna þess að lítil endurnýjun eigi sér stað þá muni þetta fylgi í einhverjum mæli skila sér heim frá Miðflokknum í kosningum. Þá sé Sjálfstæðisflokkurinn með fullar hendur fjár eftir að hafa selt byggingarrétti á lóð Valhallar fyrir 600 milljónir með velvilja núverandi borgarstjórnarmeirihluta og búast megi við því að þessum peningum verði beitt af afli í kosningabaráttu.
Þá víkur hann að þeirri einstöku stöðu sem sé uppi vegna þess að flokkur forsætisráðherra er í mikilli útrýmingarhættu og líklegt sé að hann þurrkist út fari svo að Katrín Jakobsdóttir ákveði að bjóða sig fram til forseta vegna þess að enginn sé til staðar til að taka við keflinu frá henni.
Dagfara í heild má lesa hér.