Tómas A. Tómasson þingmaður Flokks fólksins leggur áherslu á það í aðsendri grein á Vísi að alþingismenn láti fremur verkin tala en að tala endalaust um það sem gera þurfi.
Tómas fer í upphafi greinarinnar stuttlega yfir langan feril sinn í rekstri fyrirtækja. Af því segist hann hafa lært að ganga í nauðsynleg verk af fullum krafti:
„Eitt af því sem ég hef lært af fyrirtækjarekstri í gegnum árin er að það dugar ekki að tala endalaust. Til þess að ná árangri þarf maður að setja orkuna í að framkvæma. Frá því að ég var kosinn á þing árið 2021 hefur það verið mér hugleikið hve mikið þingmenn eiga að tjá sig og hlusta á aðra þingmenn tjá sig, á meðan lítil áhersla er lögð á að framkvæma þá hluti sem endalaust er verið að tala um.“
Tómas rifjar upp að árið 2015 hafi ellilífeyrisþeginn Guðrún Einarsdóttir, sem nú er látin en bjó þá á hjúkrunarheimili, vakið athygli opinberlega á því að eldri borgarar sem búa á slíkum heimilum séu sviptir ellilífeyri og í staðinn skammtaðir vasapeningar. Tómas segir Guðrúnu hafa í kjölfarið fengið fund með þáverandi félagsmálaráðherra, Eygló Harðardóttur, sem hafi skipað í kjölfarið starfshóp sem móta hafi átt tillögur um afnám fyrirkomulagsins. Árið 2018 hafi vinna starfshópsins verið á undirbúningsstigi og ekkert hafi gerst síðan. Flokkur fólksins hafi lagt fram þingsályktunartillögu um að afnema þetta fyrirkomulag á hverju þingi í sex ár en stjórnarflokkarnir hafi aldrei hleypt málinu út úr nefnd.
Að lokum segir Tómas:
„Í myndinn Purple Rain með Prince er þessi setning sögð: „Are you going to do it or just talk about it“? Ætlarðu að framkvæma eða bara tala?“