fbpx
Sunnudagur 05.janúar 2025
Eyjan

Segir tíma til kominn að ræða varnarmál Íslands

Ritstjórn Eyjunnar
Laugardaginn 3. febrúar 2024 16:30

Bandarísk herflugvél á Keflavíkurflugvelli. Ljósmynd: DV/Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bryndís Bjarnadóttir, formaður félags ungs fólks um varnarmál, segir nauðsynlegt að fram fari aukin umræða um varnar- og öryggismál hér á landi. Þetta er umfjöllunarefni hennar í aðsendri grein á Vísi. Greinin kemur í kjölfar þeirra orða þingmanns Sjálfstæðisflokkins að kanna ætti af fullri alvöru þátttöku Íslands í sameiginlegum her norðurlandanna.

Eins og þau sem fylgjast með heimsmálunum vita eru viðsjárverðir tímar í heiminum. Stríð í Úkraínu og miklar róstur í miðausturlöndum þar á meðal árásir Ísraels á Gaza, árásir Húta á Rauðahafi og árásir Bandaríkjamanna á skotmörk í Írak og Sýrlandi, í kjölfar árása á hermenn þeirra. Finnland sem lýsti áður yfir hlutleysi er gengið í Atlantshafsbandalagið og Svíþjóð, sem var einnig hlutlaust ríki, bíður þess að komast inn líka. Þó nokkur ótti við árás Rússa hefur gripið um sig í Svíþjóð og sænskir ráðherrar og herforingjar hafa sagt þjóðinni að vera við öllu búin.

Í grein sinni minnir Bryndís Bjarnadóttir á að af öllum aðildarríkjum Atlantshafsbandalagsins eigi aðeins Ungverjaland eftir að samþykkja inngöngu Svíþjóðar í bandalagið.

Hún segir að innganga Finnlands og Svíþjóðar í bandalagið sé mikil lyftistöng fyrir allt öryggi á norðurlöndum og ekki síst norðurslóðum, þar á meðal Íslandi:

„Fyrir Ísland er þetta sérstaklega jákvætt vegna þess að heraflar þessara þjóða þekkja betur til erfiðra aðstæðna sem fylgja vetrar veðrum líkt og þekkist hér á landi getur þetta skipt sköpum ef til þess kæmi að grípa þyrfti til hernaðaraðgerða hér á landi.“

Tilefni til aukinnar umræðu

Bryndís segir þessi tímamót tilefni fyrir Ísland til að líta til þess hvernig hin norðurlöndin haga vörnum sínum. Þau séu öll með herskyldu í einhverri mynd. Hún mælist ekki til þess að slíkt verði tekið upp á Íslandi en segir nauðsynlegt að fram fari aukin umræða um varnarmál á Íslandi og ekki síst meðal ungs fólks:

„Þrátt fyrir að Ísland sé herlaust land skiptir máli að það geti tekið þátt í allri umræðu um herkænsku og skipulag aðgerða á norðurslóðum og rödd okkar á að heyrast í þeirri umræðu enda ekki síður hagsmunamál okkar Íslendinga.“

Bryndís segir að Íslendingar verði að vera óhræddir um að tjá sig um varnarmál á alþjóðlegum vettvangi í stað þess að fylgja aðeins straumnum þegar kemur að alþjóðlegri samvinnu um varnir og öryggi. Hún segir Íslendinga verða að geta rætt um það við bandalagsþjóðir sínar hvernig þeir vilji haga vörnum Íslands. Einhvers staðar verði þó að byrja:

„Fyrsta skrefið er að opna meira á umræðuna um öryggis- og varnarmál, ræða um þjóðaröryggi Íslands og byggja upp áhuga ungs fólks á málaflokknum til að tryggja uppbyggingu á þekkingu hér innanlands á öryggi Íslands.“

Norrænn her?

Grein Bryndísar, sem hægt er að lesa hér í heild sinni, fylgir í kjölfar viðtals MBL við nöfnu hennar, Bryndísi Haraldsdóttur þingmann Sjálfstæðisflokksins. Í viðtalinu segir Bryndís Haraldsdóttir að vert sé að skoða möguleika á að koma upp norrænum her og að Ísland taki þátt í honum. Hún bendir á að í fyrsta sinn í sögu þess sé farið að ræða varnarmál í Norðurlandaráði.

Bryndís Haraldsdóttir segist varpa þessari hugmynd fram í ljósi aukinnar samvinnu norðurlandanna í varnarmálum og að þörf sé á að styrkja öryggi á norðurslóðum ekki síst vegna aukinna ögrana Rússa. Hún segist þó ekki vera að mæla fyrir stofnun íslensks her enda hafi Ísland vart burði til að hafa eigin her. Norðurlöndin séu sterkari saman og þess vegna vilji hún skoða hvort Ísland gæti orðið hluti af norrænum her:

„Við sjá­um það að þegar flug­her­ir þess­ara landa eru tekn­ir sam­an þá er hann bara býsna öfl­ug­ur, tækja­kost­ur góður og al­veg í sam­an­b­urði við stærstu Evr­ópuþjóðir. En ef hvert land er tekið út af fyr­ir sig þá er það auðvitað minna, þannig að það er í þessu eins og öðru að Norður­lönd­in eru sterk­ari sam­an.“

Heyrst hafa á undanförnum misserum hugmyndir um að Ísland komi á fót eigin her. Þar hefur farið einn fremstur í flokki Arnór Sigurjónsson, fyrrum embættismaður í utanríkisþjónustunni. Hann sendi frá sér árið 2022 bók þar sem hann færði m.a. rök fyrir nauðsyn þess að Ísland stofnaði her. Arnór mælti einnig fyrir aukinni umræðu um varnarmál og að Ísland axlaði aukna ábyrgð á eigin vörnum.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Ruglingurinn í kringum EES-samninginn og ESB-aðild

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Ruglingurinn í kringum EES-samninginn og ESB-aðild
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sr. Davíð Þór Jónsson: Jólahaldið þitt heima í stofu er samfélagsmál, ekki einkamál þitt

Sr. Davíð Þór Jónsson: Jólahaldið þitt heima í stofu er samfélagsmál, ekki einkamál þitt
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Meiri músikk – minna mas!

Orðið á götunni: Meiri músikk – minna mas!
Eyjan
Fyrir 1 viku

Bæjarstjóri Kópavogs vill afnema sérréttindi opinberra starfsmanna – Vísar í umdeilda úttekt Viðskiptaráðs

Bæjarstjóri Kópavogs vill afnema sérréttindi opinberra starfsmanna – Vísar í umdeilda úttekt Viðskiptaráðs
Eyjan
Fyrir 2 vikum

Nýir ráðherrar fá lyklana í dag – „Þetta er bara mjög góð tilfinning“

Nýir ráðherrar fá lyklana í dag – „Þetta er bara mjög góð tilfinning“
Eyjan
Fyrir 2 vikum

Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu: Íslensk verslun óttast að dragast aftur úr í samkeppni við erlenda ef hún færi ekki að selja áfengi

Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu: Íslensk verslun óttast að dragast aftur úr í samkeppni við erlenda ef hún færi ekki að selja áfengi