Ráðningarbréf Einars Þorsteinssonar sem tók fyrir skömmu við starfi borgarstjóra Reykjavíkur var tekið fyrir í borgarráði í morgun. Nýttu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins tækifærið og komu því á framfæri að þeir teldu að með réttu hefði átt að gera nýtt ráðningarbréf við Dag B. Eggertsson þegar hann hélt áfram að gegna starfi borgarstjóra frá upphafi kjörtímabilsins, árið 2022, og fram til þess að hann lét af starfi borgarstjóra á fyrsta mánuði ársins 2024. Það hafi hins vegar ekki verið gert.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins gera í bókun sinni athugasemdir við að aldrei hafi verið gert nýtt ráðningarbréf fyrir Dag, þegar hann tók aftur við starfi borgarstjóra á nýju kjörtímabili í júní 2022. Telja sjálfstæðismenn að borgarráð hefði þurft að ákveða starfskjör borgarstjóra sérstaklega í skriflegum ráðningarsamningi, sem jafnframt hefði þurft staðfestingu borgarstjórnar.
Í sveitarstjórnarlögum komi fram sveitarstjórn skuli gera skriflegan ráðningarsamning við framkvæmdastjóra þar sem starfskjör hans séu ákveðin. Ráðningartími skuli að jafnaði vera sá sami og kjörtímabil sveitarstjórnar. Þar af leiðandi telja sjálfstæðismenn að ráðningarbréf Dags fyrir kjörtímabilið 2018 til 2022 hefði fallið úr gildi þegar yfirstandandi kjörtímabil gekk í garð. Þess vegna hefði sú borgarstjórn sem kjörin var 2022 þurft að taka afstöðu til starfskjara borgarstjóra, en það hafi aldrei verið gert. Töldu sjálfstæðismenn jafnframt að ráðningarbréf Einars þyrfti staðfestingu borgarstjórnar eða borgarráðs í ljósi ákvæða sveitarstjórnarlaga.
Það er hins vegar ekki að sjá af fundargerðinni að ráðningarbréf Einars hafi verið borið undir atkvæði í borgarráði eða vísað til borgarstjórnar heldur einungis lagt fram.
Ráðningarbréfið er birt með fundargerð borgarráðs. Í því kemur fram að laun Einars Þorsteinssonar borgarstjóra eru 2.477.850 krónur á mánuði frá og með janúar 2024 en taka breytingum til samræmis við samþykkt um kjör kjörinna fulltrúa hjá Reykjavíkurborg. Í samþykktinni kemur fram að laun kjörinna fulltrúa hjá borginni uppfærast tvisvar sinnum á ári, í janúar og júní, í samræmi við þróun launavísitölu.
Í ráðningarbréfinu kemur einnig fram að Einar fær greiddan fastan starfskostnað sem er 146.235 krónur á mánuði en starfskostnaðurinn uppfærist einnig í samræmi við áðurnefnda samþykkt.
Í bréfinu kemur einnig fram að Einar hefur embættisbifreið til afnota en ekki kemur fram hvort bílstjóri fylgi með bifreiðinni eða hvort Einar þurfi að aka henni sjálfur.
Undir ráðningarbréfið ritar Þórdís Lóa Þórhallsdóttir forseti borgarstjórnar.
Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins gerði sérstaka athugasemd við kjör Einars í sinni bókun og segir þau ansi rífleg:
„Borgarstjóri er með vegleg laun, meira en helmingi hærri en laun borgarfulltrúa, þeirra sem eru með hæstu álagsgreiðslurnar.“
Þótt það sé ekki tekið beinlínis fram í bréfinu telur Kolbrún líklegt að Einar hafi afnot af bílstjóra eins og Dagur hafði. Hún spyr einnig hvort Einar muni greiða skatt af afnotum sínum af bifreiðinni, einkum til einkanota.