fbpx
Sunnudagur 24.nóvember 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Forseti á að vera lífsreyndur 

Eyjan
Sunnudaginn 28. janúar 2024 13:30

Sautjándu aldar málverk eftir annað hvort Ludovico Carracci (1555–1619) eða Annibale Carracci (1560–1609), sem sýnir úlfynjuna fóstra Rómulus og Remus.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á gullaldarskeiði rómverska lýðveldisins voru gerðar ríkar kröfur um hæfni æðstu embættismanna og til að tryggja að reynslumiklir menn veldust til starfa var áskilið að þeir hefðu náð allnokkrum aldri. Kvestorar gátu menn orðið þrítugir, alþýðuforingjar 33 ára, edílar 36 ára, pretorar 39 ára, ræðismenn 42 ára og censorar 45 ára. Ræðismenn fóru með æðsta framkvæmdarvaldið og yfirherstjórn í ófriði en censorar voru álitnir æðstir embættismanna. Þeir áttu að taka manntal, jafna niður sköttum og tilnefna menn í öldungaráðið. 

Er fram í sótti voru þessi aldursmörk þverbrotin, los komst á stjórnskipunina og lýðveldið leið undir lok, þó svo að fjörbrot lýðveldisins verði ekki eingöngu rakið til þess að kornungir menn tóku í sumum tilfellum við stjórnartaumum. 

Illa ígrunduð tillaga 

Í grein sem birtist í Vísi á dögunum lýsti Gunnar Ásgrímsson, formaður Sambands ungra framsóknarmanna, því yfir að hann hygðist gefa kost á sér til embættis forseta Íslands. Það væri honum þó óheimilt þar sem hann er aðeins 23 ára að aldri. Þessi uppátektarsemi formannsins var til að vekja athygli á tillögu ungra framsóknarmanna þess efnis að felld yrði niður regla stjórnarskrár um aldursmörk forsetaefnis. Svo sem kunnugt er þarf viðkomandi að hafa náð 35 ára aldri en tillaga ungu framsóknarmannanna gerir ráð fyrir 18 ára lágmarksaldri þess í stað. 

Fimm þingmenn Framsóknarflokks gripu þessa hugmynd á lofti og lögðu fram frumvarp til stjórnskipunarlaga sem felur í sér að forsetaefni þurfi aðeins að uppfylla sömu skilyrði og gilda um kosningarétt til Alþingis, að frátöldu búsetuskilyrðinu. Að sögn flutningsmanna er aldurstakmarkið „tímaskekkja“ og lýsi „vantrausti gagnvart kjósendum“ eins og þeir orða það. Flutningsmenn eru þau Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Þórarinn Ingi Pétursson, Stefán Vagn Stefánsson og Jóhann Friðrik Friðriksson. Þrátt fyrir að fylgjast vel með stjórnmálum verð ég að játa að ég hef varla heyrt þessa fólks getið fyrr. 

Í athugasemdum með stjórnskipunarlögum sem urðu að stjórnarskrá lýðveldisins nr. 33/1944 segir að ekki þyki hlýða að yngri maður en 35 ára geti orðið forseti því forseti þurfi — auk margs annars — að búa yfir „lipurð og mannþekkingu, sem ekki fæst nema með nokkrum aldri“. Í greinargerð áðurnefndra framsóknarþingmanna segir að treysta eigi þjóðinni til þess að taka ákvörðun um það hvort frambjóðandi búi yfir lipurð og mannþekkingu „sérstaklega í ljósi þess að upplýsingaflæði innan samfélagsins hefur batnað til muna frá samþykkt stjórnarskrárinnar, t.d. með tilkomu alnetsins“. 

Einmitt það. Hefur veraldarvefurinn sem sagt orðið til að vitka allan almenning? Mér er það stórlega til efs. Við blasir að þessi unggæðingslega tillaga framsóknarmannanna er í meira lagi vanhugsuð. Hér er hollt að horfa til annarra ríkja í norðan- og vestanverðri álfunni sem hafa á að skipa forseta með áþekka stöðu og forseta Íslands, þ.e. forseta sem fer með lítil eiginleg völd. 

Gamalreyndir stjórnmálamenn á forsetastóli 

Forseti Írlands er Michael D. Higgins sem gegnt hefur embættinu frá árinu 2011. Higgins er fæddur í apríl 1941 og verður því senn 82 ára. Hann sat á sínum tíma í öldungadeild írska þingsins (ír. Seanad Éireann) fyrir Verkamannaflokkinn, var ráðherra mennta- og menningarmála á árunum 1993–1997 og formaður Verkamannaflokksins 2003–2011, uns hann var kjörinn forseti. Higgins er félagsfræðingur að mennt og var háskólakennari áður en hann sneri sér að stjórnmálum á áttunda áratugnum. 

Sauli Niinistö, forseti Finnlands, er fæddur 1948 og verður 76 síðar á þessu ári. Hann hefur gegnt embætti forseta frá árinu 2012. Hann var formaður Samstöðuflokksins (s. Samlingspartiet) 1994–2001 og ráðherra árin 1995–2003, fyrst dómsmálaráðherra, síðar ráðherra fjármála. Þá var hann forseti finnska þingsins (s. Finlands riksdag) 2007–2011 . Niinistö er lögfræðingur að mennt. 

Hverfum nokkuð sunnar. Frank-Walter Steinmeier, forseti Þýskalands, er 68 ára að aldri og hefur gegnt embætti frá 2017. Hann var utanríkisráðherra og varakanslari allt til þess tíma er hann var kjörinn forseti. Steinmeier er doktor í lögum og sat um langt árabil á Sambandsþinginu í Berlín (þ. Deutscher Bundestag) fyrir Sósíaldemókrataflokkinn og lengst af tíunda áratugnum var hann forsætisráðherra Neðra-Saxlands. 

Alexander Van der Bellen, forseti Austurríkis, varð áttræður á dögunum. Hann var á sínum tíma prófessor í hagfræði við Vínarháskóla, en sneri sér að stjórnmálum og varð talsmaður Græningjaflokksins og sat á þingi (þ. Österreichisches Parlament) fyrir flokkinn á árunum 1994–2012. Hann bauð sig fram sem sjálfstæður frambjóðandi til forseta 2016 en naut stuðnings græningja. 

Sergio Mattarella hefur verið Ítalíuforseti frá árinu 2015. Hann var einn af helstu foringjum flokks kristilegra demókrata frá því snemma á níunda áratugnum og ráðherra á árunum 1987–1990. Hann var meðal stofnenda Þjóðarflokksins og gegndi ráðherraembættum fyrir þann flokk 1999–2001, meðal annars sem aðstoðarforsætisráðherra og varnarmálaráðherra. Hann yfirgaf stjórnmálin árið 2008 og var dómari við stjórnlagadómstól Ítalíu 2011–2015. Mattarella er fæddur 1941 og því 82 ára að aldri. 

Flokkspólitískari forsetar? 

Meðalaldur þessara fimm forseta er 77 ár. Þeir eru allir fyrrverandi ráðherrar og forystumenn síns stjórnmálaflokks, auk þess að vera jafnan hámenntaðir. Hoknir af reynslu, meðal annars af pólitískum skylmingum, en sitja nú á friðarstóli. 

Ef við hverfum hingað til lands þá var Ólafur Ragnar Grímsson 73 ára er hann yfirgaf Bessastaði og Ásgeir Ásgeirsson lét af forsetaembætti 74 ára. Þessir tveir elstu forsetar hér á landi sverja sig í ætt við þá forseta sem að framan voru nefndir báðir höfðu þeir setið á Alþingi, verið í forystu sinna flokka og gegnt ráðherraembættum.  

Landsmenn virðast lengi hafa verið tvístígandi hvort þeir kysu að forseti tengdist stjórnmálunum ellegar væri að mestu óflokkspólitískur, svona rétt eins og verið væri að kjósa konung. Vert væri að þetta atriði yrði einmitt rætt í aðdraganda komandi forsetakjörs: hvernig forseta vill þjóðin? En hvað sem því líður er þó nauðsynlegt að forseti hafi til að bera lipurð og mannþekkingu og hana öðlast menn ekki nema með nokkrum aldri, hvað svo sem ungir og aldnir framsóknarmenn segja. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Eldhúsborðin og umheimurinn

Þorsteinn Pálsson skrifar: Eldhúsborðin og umheimurinn
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða þjóðin

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða þjóðin
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar: Endimörk dellunnar

Björn Jón skrifar: Endimörk dellunnar
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Sveifluríkið Ísland

Sigmundur Ernir skrifar: Sveifluríkið Ísland
EyjanFastir pennar
19.10.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Fóstbræðrasaga síðari tíma upplausnar

Sigmundur Ernir skrifar: Fóstbræðrasaga síðari tíma upplausnar
EyjanFastir pennar
19.10.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Fimmtugastaogfyrsta ríkið

Óttar Guðmundsson skrifar: Fimmtugastaogfyrsta ríkið
EyjanFastir pennar
12.10.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Ríkisstjórn á skilnaðarbraut

Óttar Guðmundsson skrifar: Ríkisstjórn á skilnaðarbraut
EyjanFastir pennar
11.10.2024

Svarthöfði skrifar: Eins og farsi eftir Dario Fo

Svarthöfði skrifar: Eins og farsi eftir Dario Fo